Verið hjartanlega velkominn í 8. bréf Stundaglassins. Í þessari viku réð Seiko ríkjum þar sem framleiðandinn hefur gefið út mörg ný og spennandi úr til að setja tóninn er við höldum inn í seinni helming ársins. Tudor var með mikinn meðbyr í kjölfari Miami kappakstursins í Formula 1 er þeir gáfu út nýtt úr til að fagna keppni. Einnig verður farið yfir merki sem ekki finnast hér á landi og hef ég beðið spenntur eftir að fara yfir það með ykkur.
Tudor
Tudor hafa haldið þeirri hefð að gefa út nýtt úr í kringum Miami kappaksturinn í Formúlu 1 keppninni. Í fyrra gáfu þeir út Black Bay 58 með keramik úrkassa og blárri skífu, sem sló heldur betur í gegn. Í ár hafa þeir gefið út nýtt úr í Black Bay Chrono-línu sinni og í þetta sinn er úr kassinn úr koltrefjum. Úrið heldur í bláa tón fyrri ára en í þetta sinn er aðal liturinn hvítur með dass af bláum.
Úrið nýtir sama gangverk og hin Black Bay Chrono-úrin en kassinn er töluvert léttari vegna koltrefjanna og hann er einnig þynnri, sem er þróun sem margir taka fagnandi. Ein hönnunar ákvörðunin sem ég vill leggja sérstaka áherslu á er að í stað hefðbundins dagsetningar glugga þá hafa þeir gert hann einnig úr koltrefjum ásamt skeiðklukkuskífunum.
Þetta er ekki eina úrið sem Tudor kynnti í vikunni, þar sem í tilefni Giro d’Italia hjólreiðakeppninnar komu þeir með bleika útgáfu af Pelagos FXD Chrono-úrinu. Úrið er takmarkað við einungis 300 eintök. Það passar vel að Tudor hafi gefið út tvær nýjar skeiðklukkur til að fagna virkilega stórum viðburðum í þessum virtu íþróttagreinum,
Seiko
Líkt og kom fram í innganginum þá hafa Seiko verið einkum duglegir í útgáfu á nýjum úrum þessa vikuna, þar sem við fengum ný Prospex, Presage og 5 Sports. Ég vil byrja á 5 Sports úrunum þar sem Seiko gáfu út fjögur ný úr í þeirri línu, tvö af þeim hefðbundin í svörtu og bláu og tvö af þeim eru full litríkari, í gulu og appelsínugulu.
Stærsta fréttin í tengslum við Seiko kom úr herbúðum Presage-línunnar þar sem sex ný úr litu dagsins ljós, þrjú þeirra í Coctail Time-fjölskyldunni og eru þau virkilega falleg. Helsti munurinn á þeim og núverandi Coctail Time-úrunum er áferð skífunnar, sem er grófari og innblásin af frosnum kokteilum og úrið er skreytt demöntum hjá kl. 3, 6, 9 og 12 stikum skífunnar. Úrin eru hluti af dömuúrvali Coctail Time í 34mm stærð.
Hin þrjú Presage-úrin eru partur af Classic Series-fjölskyldunni sem tók við af Sharp Edged-línunni árið 2024. Þessi nýju úr eru minni en núverandi Classic Series-úr og er markmið þeirra að opna línuna fyrir sem flesta. Úrin koma í 36mm í stað 40mm stærðar fyrri Classic Series-úra. Mitt uppáhald af þessum nýju þremur er gullhúðaða útfærslan, þar sem mér finnst hún nauðsynleg bæting í línuna.
Líkt og í síðasta bréfi stundaglassins þá förum við yfir nýtt 300m vatnsþétt GMT kafaraúr. Þetta úr er hins vegar svolítið frábrugðið því, þar sem þá var um að ræða úr með nýjan lás og aukna vatnsþéttni. Í þessu bréfi ræðum við um gamla lásinn, en aukna vatnsþéttni og úr sem er takmarkað við 6.000 eintök og er framleitt til að fagna 60 ára afmæli kafaraúra Seiko.
Hér með líkur þessu 8. bréfi Stundaglassins. Framleiðendurnir eru farnir að stíga á bensíngjöfina í útgáfu nýrra úra eftir rólegar síðustu vikur í úrabransanum, fyrir utan Watches and Wonders. Það er alltaf góð vika þegar við getum bent á ný úr frá merkjum sem við seljum og tel ég þessa viku þá frábæra fyrst við gátum tilkynnt þrettán ný úr frá okkar merkjum.
Ég þakka ykkur hjartanlega fyrir samfylgdina og bíð spenntur eftir að rita 9. bréf Stundaglassins fyrir ykkur í næstu viku.