Ókeypis heimsending.

Stundaglasið, bréf 17

Stundaglasið snýr aftur með nýju móti. Í stað þess að koma út vikulega, á föstudögum, þá gefum við út nýtt bréf annan hvern mánudag á móti hefðbundnu vikugreinunum. Með þessu nýja móti getum við stuðlað að auknum gæðum og sýnt betra og fjölbreyttara úrval úra og frétta.

Þessi haust endurkoma mun byrja með stæl er við förum um víðan völl af þekktari merkjum yfir í merki sem fáir hafa heyrt um. Longines gerir langþráða og velkomna uppfærslu á PrimaLuna-línunni, Vacheron Constantin kemur með tvö ný Overseas gullmódel og Breitling byrjar tímabilið í ameríska fótboltanum af krafti.

Longines

Longines hefur uppfært PrimaLuna-línu sína með nýjum sjálftrekktum úrum í 34mm. Auk þess að vera sjálftrekkt, hafa úrin nú dagsetningu sem umvefur tunglstöðuna. Kassi, keðja og hlutföll úrsins hafa nú einnig verið uppfærð. Nýi kassinn líkist hlutföllum fulls tungls, og nýja keðjan hefur styttri hlekki í sveig sem minnir á hálfmána.

Mitt uppáhalds af þessum nýju úrum er það sem Longines kallar „Celestial Blue“ með einstaklega fágaðri ljósblárri perlumóður skífu, skreyttri demöntum. Ekki nóg með að hún hafi 14 demanta þá sitja í glerhringnum 48 sérvaldir safírar sem minna á nær himneskt yfirbragð.

Breitling

Breitling hefur nú tilkynnt samstarf sitt við NFL-deildina í Bandaríkjunum sem opinber úrasamstarfsaðili hennar. Í tilefni af því hafa Breilting gefið út tvö úr fyrir hvert lið. Annað er Chronomat Automatic GMT 40 og hitt er Endurance Pro 44. Í Chronomat línunni fá litir liðanna að njóta sín á skífunni og GMT-vísi og á úrbakinu er merki liðsins. Á Endurance Pro úrunum er það örlítið augljósara hvaða lið þú styður, þar sem merki liðsins er sýnt á skífunni.

Mitt uppáhalds lið í NFL-deildinni er, og hefur alltaf verið, Denver Broncos, og er skífuliturinn rauð-appelsínugulur sem grípur augað. Bara til að sýna ykkur dæmi um hvernig þessum nýju NFL-úrum er háttað þá valdi ég Denver Broncos úrið sem gott dæmi.

Vacheron Constantin

Vinsælustu og eftirsóttustu úrinn frá Vacheron Constantin eru í Overseas-línunni. Ultra-Thin helmingur hennar er eingöngu gerður í verðmætum málmum líkt og gulli. Tvær nýjar týpur skera sig ekki frá því normi þar sem þau eru úr hvítagulli með einstakri búrgúndý skífu sem minnir nánast á tóninn af rauðvíni. Hitt úrið er í rósagulli með skífu í stíl, sem ég er persónulegra hrifnari af. Úrin eru bæði með hlaupársdagatalsvirkni og eru 41,5mm á stærð og aðeins 8,1mm þykk.

Albishorn

Hér kemur enn eitt merkið sem kannski 3 Íslendingar hafa heyrt um en ég hef gaman af því að skrifa um. Albishorn gerir einstök úr sem ímynda sér hvernig sígildar hannanir hefðu getað verið útsettar á annan hátt. Nýju Marinagraph úrin skoða hvernig Regatta úr hefðu getað verið útfærð. Fyrir nánari upplýsingar um úrin skoðið hlekkinn hér.

Dennison

Hér kemur annað micro-brand sem ég og sennilega nákvæmlega enginn annar Íslendingur hefur gaman af. Dennison eru þekktir úrkassaframleiðendur og hafa nú á síðustu árum gert einstök úr með enn einstakari skífum. Nú gerðu þeir ný ALD Dual Time sem eru meðal annars með tvöföldum náttúrusteina skífum.

Markaðurinn er ansi rólegur þessa dagana og er því Stundaglasið frekar máttlaust máti að sinni. Næsta eintak ætti hins vegar að vera stútfullt þar sem Geneva Watch Days stendur yfir, auk þess að GPHG úraverðlaunahátíðin fer fram samhliða GWD.

Annars minni ég á vikugreinar sem verða á víxl við Stundaglasið. Í síðustu viku ræddum við sögu Chronomat og í næstu viku verður önnur vikugrein áður en bréf 18 af Stundaglasinu stígur á svið þann  22. september.