Velkomin í 19. bréf Stundaglassins, að sinni höfum við virkilega skemmtilegt bréf. Í síðasta bréfi var um nóg að snúast þar sem við ræddum um úrin sem létu ljós sitt skína á Geneva Watch Days hátíðinni. Í þessu bréfi höfum við enga síka hátíð til að nefna en það þýðir ekki að bréfið sé ekki troðfullt af stórum og einstaklega skemmtilegum nýjungum. NOMOS stækkar við sig í bestu línu þeirra, Longines uppfærir Spirit úrin og Tudor gefur okkur ný úr innan 1926 sem ber heitið Luna. Breitling hefur gefið út glænýja línu innan Premier-fjölskyldu sinnar, en við höfum vitað að það væri að koma glæný kvenna lína hjá Breitling síðan í apríl, en höfðum ekki hugmynd um útfærslu hennar. Eftir að hafa séð þau í persónu þá upfylltu þau allar mínar væntingar.
Í viðbót við stóru merkin að stækka við sig í farsælum línum sínum, höfum við einnig nokkur smærri, sjálfstæð merki að feta sig áfram og að stækka sneið af kökunni þegar það kemur að úraaðdáendum. Brew gaf út nýtt úr á dögunum sem horfir til einfaldari tíma, Studio Underd0g og Fears vinna saman til að gera annað úrið í samstarfi sínu, og Hamilton, þó það sé hvorki smátt né sjálfstætt, gaf út úr í samstarfi við eina vinsælustu tölvuleikjaseríu sögunnar.
NOMOS Glashütte
Byrjum á NOMOS. Á Watches and Wonders hátíðinni apríl, fyrr á þessu ári, gaf NOMOS frá sér glænýja línu sem ég held að engin hafi séð fyrir. NOMOS hefur í nokkur ár framleitt heimsklukkur í Zurich-línu sinni. Þau úr voru, og eru enn, vel heppnuð þar sem þau sýna heimsklukku á sérstakan máta og verklega voru þau frábær, sérstaklega þegar verðmiðinn er tekinn inn í myndina. Fyrir hátíðina voru þetta með mínum uppáhalds úrum frá þeim. Síðan rennur hátíðin í garð og NOMOS gefur frá sér glænýjan Club Sport Worldtimer.
Þessi nýju úr stálu sviðljósinu á hátíðinni og stóðu upp úr í huga marga. Hönnunin var einföld og stílhrein, verklegu eiginleikarnir einstakir, líkt og með öll NOMOS, og verðið fáránlegt. Úrin urðu þau fyrstu og eri ennþá þau einu til að vera heimsklukkur með sjálftrekktu gangverki sem eru undir 10mm að þykkt. Þrátt fyrir þetta, þá eru úrin rétt um fimmtungi ódýrari en Zurich Worldtimer.
Nú á dögunum gáfu þeir út þrjú ný úr innan þessara Club Sport Worldtimer línu, sem eru takmörkuð við 175 eintök hvert og hönnunin líkir eftir næturlífi stórborga – þegar rökkrið hefur tekið við af deginum. Úrin þrjú eru öll virkilega falleg og get ég ekki beðið eftir að fá að sjá þau í persónu.
Longines
Spirit-lína Longines hefur verið með vinsælustu línum þeirra, og hefur fengið mikið lof fyrir hönnun, gæði og tengingu þeirra við sögu merkisins, þar sem Zulu Time hluti línunnar inniheldur GMT-eiginleika sem Longines voru fyrstir til að gera fyrir 100 árum síðan. Ef þið viljið lesa meira um sögu þeirra er hægt að lesa um hana hér.
Nú hafa þeir gefið út tvö ný úr, annað er klassískt „flugmannaúr“ í þriggja vísa útfærslu á meðan hitt inniheldur skeiðklukku með flyback eiginleika. Það sem sker þessi nýju úr frá öðrum í Spirit-línunni, er að þekktu og auðkennandi stjörnurnar fimm, sem hafa alltaf skreytt skífu Spirit-úranna, eru hvergi sjáanlegar. Þetta er tiltölulega lítil breyting og úrin eru virkilega falleg, eftir sem áður, en ég mun allavegana sakna að sjá stjörnurnar á skífunni.
Tudor
Lengi hefur verið rætt að Tudor ætti að nýta 1926-línu sína betur. Úrin eru fáguð, eiga rætur í sögu merkisins og eru flottur inngangur í heim Tudor, þar sem þau eru á hvað aðgengilegasta verðinu. Þrátt fyrir allt þetta umtal þá bjóst ég ekki við því að sjá uppfærslu af þeim þar til í fyrsta lagi á Watches and Wonders á næsta ári. En Tudor hefur heyrt köllin og svo sannarlega svarað.
1926 Luna úrin innihalda tunglstöðu og skífan er virkilega falleg þar sem hún er örlítið kúpt, í staðinn fyrir flötu skífurnar á núverandi 1926 úrum. Úrkassinn er í 39mm líkt, sem er gömul og klassísk stærð hjá 1926 og keðjan er óbreytt. Ef þið viljið bera eitt slíkt augum, þá er bláa útgáfan lent hjá okkur á Hafnartorgi og hvet ég alla til að gera sér ferð og skoða það.
Breitling
Breitling hefur gefið út dömuúr ársins. Miðvikudaginn 1. október gaf Georges Kern, forstjóri Breitling, út nýtt myndband á Instagram síðu sinni, þar sem hann tilkynnti glæný dömuúr í Premier-fjölskyldunni. Strax og ég fékk þessar fréttir þá gerði ég mér ferð með kærustunni minni í Breitling-búðina hér í Brussel, þar sem við erum búsett, og okkur til mikllar lukku, þá voru þeir með nýju úrin á staðnum og til sýnis. Á myndum eru þessi úr virkilega falleg, en í persónu eru þau hreinlega í öðrum gæðaflokki.
Við vorum hrifnust af fjólubláa úrinu á mynd, en því miður voru þeir ekki með það úr til sýnis en bláa útfærslan í 32mm var virkilega heillandi. Hönnunin er sú fágaðasta sem Breitling hefur upp á að bjóða og hægt er að fá úrin í tveimur útfærslum: í 36mm með sjálftrekktu gangverki eða í 32mm með rafhlöðu. Öll úrin er síðan hægt að fá með keðju eða á leðuról og ýmist með eðan án demanta. Ég hef aðeins eitt að segja og það er bravó Breitling.
Hamilton
Hamilton er þekkt fyrir samstörf með vinsælum hugverkum á borð við Dune og Indiana Jones. Nú fara þeir í samstarf með Call of Duty, einni vinsælustu tölvuleikjaseríu heims. Úrin eru gerð fyrir nýjasta leikinn, sem kemur út fljótlega og nefnist Black Ops 7. Úrið verður í leiknum sjálfum og er er mjög einfalt, en einkennist af úrbakinu þar sem merki leiksins er sýnilegt.
Brew
Ef það er eitthvað sem ég elska þá eru það töfrabaunir – og þá er ég að sjálfsögðu að tala um kaffi. Brew hefur alltaf haft tengingu við kaffi og er nýja hybrid „anadigi“ úrið þeirra ábyggilega besta dæmið. Tölvuhelmingur úrsins telur niður og tekur tímann til að gera hinn fullkomna espressó bolla. Ég er alltaf hrifin af því þegar merki gera eitthvað skemmtilegt með úrin sín og þetta fellur 100% undir það.
Þar með lokum við þessu 19. bréfi af Stundaglasinu. Það var nóg um að vera og tel ég þetta vera með fallegustu bréfum sem við höfum haft, þar sem hvert og eitt af þessum úrum sem um ræðir í þessu bréfi eru virkilega falleg. Ég vil minna á vikugreinina okkar, seinni helminginn af eignarhaldi í úraiðnaðinum. Ef þið hafið ekki lesið fyrri hluta þeirrar umfjöllunar, þá mæli ég eindregið með því að lesa hann einnig. Það verður að sjálfsögðu ný vikugrein síðan næsta mánudag áður en 20. bréf Stundaglassins kemur út eftir tvær vikur.
Takk fyrir lesturinn, þar til næst.