Þá komum við að stórum áfanga í Stundaglasinu, er við lendum 20. bréfi þess. Því miður er það ekki eins pakkað og bréf 19 var fyrir tveimur vikum en maður fær ekki allt sem maður vill. Eitt merki tekur allar fyrirsagnirnar að sinni þar sem TAG Heuer gaf út nýja kynslóð Connected úra sinna auk þess að stækka við Extreme Sport hluta Carrera-línu sinnar með þremur nýjum úrum.
Að auki þá nefnum við úr sem hefur flogið undir radarinn, úrið hefur verið svo lítið umtalað að ég gleymdi hreinlega að nefna það í síðasta bréfi, þó að það hafi svo sannarlega átt heima þar. Nokkur merki gáfu frá sér meira en eitt úr og má þar nefna Omega, sem gaf út fjóra nýja Speedmastera, Glashütte Original, sem gaf út þrjú ný úr með postulíns skífum, og Cartier, sem gaf að út tvö ný úr í Santos-línu sinni.
Við byrjum hins vegar á úrinu sem ég gleymdi í síðasta bréfi, sem kemur úr herbúðum Longines.
Longines
Longines kann að grípa fyrirsagnir. Undir nýrri stjórn, sem leidd er af Patrick Aoun, nýjum framkvæmdarstjóri frá því í byrjun júní, þá hafa Longines verið á miklu flugi. Uppfærð PrimaLuna og Spirit hafa sett svip sinn á úraiðnaðinn síðan þau komu út síðustu mánuði. Það er reyndar ekki hægt að gefa Patrick Aoun of mikið lof fyrir þessi úr, þar sem þau hafa verið í þróun í nokkur ár, en þau verða skráð undir hans leiðtogatíð í sögubókunum.
Eitt úr sem hefur ekki verið mikið rætt um er Ultra-Chron. Þessi lína hefur lengi vel verið mikilvæg fyrir Longines en hún markaði fyrsta úr þeirra sem gengur á hærri tíðni. Þegar úrið kom fyrst út árið 1959 var það fyrsta úrið til að tifa 36.000 sinnum á klukkustund og hljóta chronometer-vottun fyrir nákvæmni. Heitið Ultra-Chron kom seinna, þar sem þeir skráðu heitið árið 1966 og fyrsta úr merkt heitinu leit dagsins ljós sama ár. Í dag tifa Ultra-Chron úrin enn á 5hz tíðni í stað 4hz, sem er standardinn í iðnaðinum. Úrið fékk stóra uppfærslu fyrr á árinu þegar það kom út í kolefna útfærslu og hlaut mikið lof frá áhugamönnum.
Nú í síðustu viku fékk línan góða viðbót en nýju úrin horfa mikið til fortíðar og er kassinn byggður á stíl úra frá 8. áratug síðustu aldar. Keðjan er mjög sígild og þægileg og er úrið yfirhöfuð mjög stílhreint. Þar sem úrið kom út samhliða Spirit-úrunum þá var því eiginlega sópað undir teppið, á meðan Spirit fékk alla athyglina, sem er synd þar sem nýju Ultra-Chron úrin eru virkilega vel heppnuð.
TAG Heuer
Stærstu fréttir síðustu daga hafa verið að ný kynslóð snjallúra frá TAG Heuer var kynnt. Þessi nýju úr innihalda glænýtt E5 verk og hafa sýnt mjög framsýna hugsun hjá TAG Heuer. Í stað þess að hörfa frá þessari óviðráðanlegu þróun, hafa þeir tekið henni fagnandi.
Það eru nokkrir nýjungar sem sjá má í nýju kynslóðinni. Til að byrja með, þá er þetta minnsta útfærslan til þessa þar sem 40mm útfærsla er meira en velkomin. Þetta er reyndar ekki útlitsbreyting en mikilvæg breyting samt sem áður, þar sem með nýju kynslóðinni höfum við farið úr Wear OS stýrikerfinu yfir í eigið stýrikerfi, en nú er einfaldara fyrir iPhone notendur að nota og tengjast úrinu.
Að auki litu dagsins ljós nokkur ný Carrera í Extreme Sport hluta línunnar. Úrin eru í gulli og fylgja d’avant garde stíl TAG Heuer. Þessari hátækniþróun, sem hefur verið að eiga sér stað hjá TAG Heuer síðastliðin ár, virðist ekki vera að linna. Skífan er í skeleton útfærslu, sem þýðir að hún er gegnsæ að hluta, og sést því í gangverkið. Úrin eru í stærri kantinum, eða 44mm. Stóra breytingin með þessi nýju úr er að þau hafa GMT-eiginleika sem gerir þeim kleift að sýna tvö tímabelti samtímis.
Oris
Oris hefur gefið út glænýtt úr í Big Crown-línu sinni með einstaklega fallegum rauðum tón, út í reyklitt. Úrið er gert í samstarfi við Cervo Volante, líkt og nokkur önnur úr innan Big Crown. Úrið kemur með fallegri, rauðri ól sem tónar við skífuna og gefur gott samræmi. Ég tel að ákvörðunin að hafa úrið í stáli, frekar en bronsi sem Oris notar oft í línunni, hafi verið virkilega vel heppnuð er úrið hefur því bjartari brag.
Cartier
Fyrsta armbandsúrið fyrir herra var Cartier Santos, sem gert var við upphaf síðustu aldar fyrir brasilíska flugmanninn Alberto Santis-Dumont. Nú, meira en 100 árum seinna, höfum við fengið tvö ný úr í þessari sívinsælu línu Cartier; annað í títaníum og hitt með virkilega skemmtilegri svartri skífu og jafnframt það fyrsta sem sjálflýsandi efni á skífunni innan Santos-línunnar.
Omega
Ef að það er eitthvað sem Omega kann að gera, þá er það að gefa út margar týpur af úrum. Þetta á sérstaklega við þegar við tölum um Speedmaster. Hér breytist ekkert, þar sem Omega gefur út fjóra nýja Speedmastera í Dark Side of the Moon-undirlínunni. Ekki misskilja mig – úrin eru töff eins og mörg Omega, en ég tel að ekkert þeirra njóti sín þar sem þau eru það svipuð, að þau blandast saman í eitt.
Hér með líkur 20. bréfi Stundaglassins. Bréfið var í styttri kantinum að sinni, þar sem að af einhverri ástæðu ákveða allir að gefa út úrin sín á sama tíma og gera það því erfitt fyrir mig að halda jöfnuði í lengd og gæðum á þessum bréfum, en við hljótum að geta reddað þessu.
Ég minni á vikugrein síðustu viku, þar sem ég fór betur yfir nýju Spirit-úrin frá Longines. Stundaglasið snýr síðan aftur eftir tvær vikur. Eins og alltaf þá þakka ég kærlega fyrir samfylgdina og hlakka til að sjá ykkur aftur í næstu viku.