Hvað þýðir eiginlega að úr sé 100M vatnshelt? Er 42mm úr alltof stórt fyrir mig?
Hér að neðan koma skýringar á öllu því helsta sem þú þarft að vita áður en þú fjárfestir í úri.
Upplýsingar um úr
Úrverk
Margar gerðir úverka eru til en hér eru þrjár algengustu gerðir úrverka og þær sem eru fáanlegar á michelsen.is.
Sjálftrekkt: Sjálftrekkt úrverk þýðir að úrið gengur fyrir hreyfingu handarinnar og notar ekki rafhlöðu. Almennt nota úr í efri verðflokkum sjálftrekkt úrverk. ROLEX notar eingöngu sjálftrekkt úrverk. Það getur munað stórlega á gæðum á sjálftrekktum úrverkum. Frá því að úrið hættir að fá orku (hreyfingu) halda þau almennt áfram að ganga í 40 – 80 klukkustundir.
Handtrekkt: Handtrekkt úrverk nota ekki rafhlöðu en ganga heldur ekki fyrir hreyfingu handarinnar. Svona voru úverkin í gamla daga. Þú trekkir úrverkið upp handvirkt og fulltrekkt úrverk gengur almennt í 40 – 70 klukkustundir. Fyrir mörgum er það helgisiður að byrja daginn á að trekkja upp úrið.
Rafhlaða (quartz): Í hefðbundnum úrum eru notaðar rafhlöður sem ganga í eitt til tvö ár. Sömuleiðis eru til sólar-rafhlöðuúr sem ganga þá í allt að 15 ár. Úrverkin nota quartz-kristalla tækni til að halda tíma og tæknin er mjög nákvæm. Rafhlöðuúrverk geta verið notuð í allt frá ódýrustu úrum upp í dýrar gerðir lúxus úra.
Úrverk ekki það sama og úrverk. Flestir úraframleiðendur kaupa úrverkin frá öðrum framleiðendum, þar sem það er gríðarlega erfitt að framleiða eigin verk og sérstaklega í mekanískum úrverkum.
Þegar úraframleiðandi framleiðir úrverkin sjálfur er talað um „in-house“ úrverk og það er gríðarlega stórt skref fyrir flesta framleiðendur, sem fæstir ná eða jafnvel sækjast eftir. Við leggjum áherslu á slíka framleiðendur, enda færðu gott úrval úra með „in-house“ úrverkum í Michelsen 1909 á Hafnartorgi.
Vatnsheldni
Vatnsheldni úra er yfirleitt mæld í metrum (M), atmósferum (ATM) eða börum (bar). Hér á michelsen.is er metra mælieiningin notuð.
Þó að úr sé 50M vatnshelt, þýðir það ekki að hægt sé að kafa með úrið niður á 50M dýpi, heldur að það þoli loftþrýsting sem nemur því dýpi. Taflan hér sýnir hvað hvert úr á að þola í raun af vatni. 100M vatnshelt úr þolir alla hefðbundna daglega notkun, s.s. sturtu, bað og sundferðir, við kaup. Almenn notkun, högg og tími geta valdið því að vatnsheldnin minnkar.
Athugið að taflan er aðeins til viðmiðunar og mælum við t.d. ekki með því að fara með 50m vatnsvarið úr í sturtu þó úrið eigi að þola það. Aldur og annað getur haft áhrif á vatnsheldni.
Hand- þvottur | Rigning | Sturta | Synda | Kafa | |
30m | x | x | |||
50m | x | x | x | ||
100m | x | x | x | x | |
200m+ | x | x | x | x | x |
Stærðir
Þegar er talað um stærð úr er það þvermál úrkassans; kjálkar (e. lugs), króna (e. crown) og „crown guards“ er undanskilið.
Úr hafa stækkað mikið síðustu ár og áratugi, bæði dömu- og herraúr. Mörkin milli dömu- og herraúra hafa færst nær og oft liggur munurinn einungis í útlitinu og eru mörg úr „unisex“. Oftast er þó greinilegt að úr eru hugsuð fyrir annað hvort konur eða karla.
Engin ákveðin regla gildir um hvaða stærð úrs hentar hverjum og einum og þá er smekkur fólks auðvitað persónubundinn. Litur skífunnar, gerð glerhrings og hvort það sé ól eða keðja á úrinu skiptir líka máli – að ótöldum crown guards eða hvort kjálkarnir séu langir eða stuttir (e. lug to lug).
Úr í gjörólíkum stíl eru t.d. Daniel Wellington og ROLEX Datejust. Þau koma bæði í 36mm en Daniel Wellington úrið virkar minna þar sem glerhringurinn er þynnri, úrið sjálft er þynnra og ROLEX úrið er með keðju en ekki leðuról.
Fyrir herra eru stærðirnar í úrum oftast frá 35mm og allt upp í 50mm. Grannur úlnliður ber auðveldlega 36mm úr en á sennilega erfitt með 42mm. Að sama skapi væri 36mm líklega alltof lítið fyrir þykkan úlnlið.
Lang algengustu stærðirnar eru frá 39mm til 42mm og flestir finna eitthvað við sitt hæfi í þeim stærðum.
Fyrir dömur eru stærðirnar allt frá 25mm og upp í 46mm. 25mm þykir mjög lítið í dag og 46mm er oftast yfirstærð, enda stórt úr á alla mælikvarða.
Á meðan karlar eru meira bundnir stærðinni eiga konur almennt auðveldara með að bera allar stærðir. Lang algengustu stærðirnar eru frá 32mm og upp í 40mm.
Virkni
Sum úr gera meira en bara að sýna tímann (og þá erum við ekki að tala um snjallúr!). Hér er það helsta sem úr geta gert.
Dagsetning: Algengasti aukavirknin í úrum er að úrið sýni mánaðardag, annað hvort í gegnum lítinn glugga í skífunni eða með sér vísi. Sum úr sýna vikudag líka. Dagsetning er eitt stærsta deilumál hörðustu úraáhugamannanna. Sumir eru alfarið á móti þeim en aðrir vilja ekki án þeirra vera.
Skeiðklukka: Ekki jafn algengt og dagatal en mjög algengt. Skeiðklukka gefur þér færi á að taka tímann á einhverju ákveðnu með einum eða tveimur tökkum á hliðinni á úrinu. Á skeiðklukkuúrum eru minni hringir (e. subdials) á skífunni, oftast með sekúndu og klukkustundaskala, og vísum fyrir þær einingar. Skeiðklukka gefur úrum sportlegra útlit en skeiðklukkuúr geta komið bæði sparileg og sportleg.
GMT: Einhver þægilegasta aukavirkni úra er GMT. Það þýðir að auka vísir (oftast) sýnir annað tímabelti á 24 klukkustunda skala, oftast á glerhringnum. Upprunalega hannað fyrir flugmenn og sýndu úrin þá heimatíma flugmanna á GMT-vísinum og staðartíma á hefðbundinn máta. Þau sem ekki eru flugmenn geta notað GMT-vísinn til að fylgjast með tímanum hjá t.d. ástvin sem býr í útlöndum.
„Annual calendar“: Þar sem mánuðirnir eru ýmist 28, 30 eða 31 dagur þurfa flestir að breyta mánaðardeginum á úrinu sínu fimm sinnum á ári, þegar mánuðurinn er styttri en 31 dagur. Með „annual calendar“ þarftu eingöngu að breyta dagsetningunni eftir febrúar. Mjög skemmtileg virkni.
Verð
Við þurfum að tala um fílinn í herberginu; verð. Eins og í öllu öðru færðu það sem þú borgar fyrir í úrum. En ef þú kaupir úr hjá okkur máttu vera viss um að kaupa gott úr og þjónustu, bæði fyrir og eftir að þú kaupir úrið, enda tveggja ára ábyrgð á öllum úrum og fimm ára ábyrgð á ákveðnum úrum. Þú mátt vera viss um að við seljum bara það sem við erum tilbúin að leggja Michelsen nafnið við.
En af hverju eru sum úr svona dýr?
Í kringum 100.00. kr ertu að kaupa (hjá okkur a.m.k., við getum ekki talað fyrir aðrar verslanir) veruleg gæði og úr sem endast árum saman. Það sem einkennir úr í þessum verðflokki, og upp úr, er safírgler og vönduð úrverk (yfirleitt svissnesk en japönsk hjá Seiko).
Vörumerki í misjöfum gæðum skarast oft í verðum. Þú getur t.d. valið um að fara í dýra gerð af Tissot eða Victorinox, sem eru ekki flokkuð sem lúxusúr, eða ódýra gerð af Longines, sem flokkast sem lúxusúr. Hvort er betri kaup? Það er ómögulegt er að segja til um það, þar sem kröfurnar og hvað hentar hverju og einu er svo misjafnt. Viltu fá rafhlöðu Longines eða sjálftrekkt Victorinox? Þetta helst svo í hendur upp allan gæðastigann. Viltu demantaskreitt / sjálftrekkt skeiðklukkuúr frá Longines / TAG Heuer eða einfaldasta ROLEX úrið?
Merkin eru ólík með misjafnar áherslur og markhóp og spurningin er: hvort viltu úr í efri mörkum ákveðins merkis, sem er þá kannski ekki álitið lúxus merki, eða fara í úr í neðri mörkum annars merkis, en þá ertu komin/n í úr frá alvöru lúxusúrframleiðanda?
Í grunninn er spurningin þessi: Viltu gæði? Því við gerum gríðarlegar kröfur; hjá okkur færðu einungis gæði og gæðin ein og sér ráða verðinu. Verð er það sem þú borgar, virði er það sem þú færð.