Tudor, dótturfyrirtæki Rolex, notar Watches and Wonders til að gefa út sín stærstu úr á árinu. Þó þeir dreifi nýjum vörum yfir árið, eru það oftar en ekki sérstakar útgáfur – framleiddar í takmörkuðu magni eða í takmarkaðan tíma. Þetta er hátíðin þar sem Tudor gefur út allt sem verður í reglulegri framleiðslu hjá þeim. Í fyrra var Tudor einn af sigurvegurum ársins með Black Bay 58 GMT sem hlaut mikið lof, einnig gáfu þeir út Black Bay í svörtu sem hefur verið mjög vinsælt. Mikil spenna hefur ríkt fyrir nýjum útgáfum frá Tudor og skulum við fara yfir þær.
Black Bay 58
Tudor stækkaði Black Bay línuna gífurlega á hátíðinni í ár. Við byrjum á Black bay 58: búrgúndí á búrgúndí með METAS-vottuðu verki, sem er í fyrsta skipti sem þriggja vísa Black Bay 58 er vottað af METAS. Upprunalega Black Bay úrið frá 2012 var með þessum búrgúndí-lit en þá aðeins í glerhringnum, í þessu nýja úri er hann einnig í skífunni. Einnig í fyrsta sinn á Black Bay 58 er „5 link“ keðjan með T-fit lásnum. Þessi blanda af METAS og T-Fit er þemað hjá Tudor í ár.
Black Bay Chrono
Smávægileg breyting á Black Bay Chrono, þar sem það kom ekki ný skífa en í fyrsta sinn verður hægt að fá svörtu og hvítu skífuna með „5 link“ keðjunni með T-Fit.
Black Bay Pro
Virkilega vanmetið úr innan safns Tudor fékk fyrirsjáanlega en velkomna uppfærslu. Black Bay Pro fær hvíta skífu og hvítu klukkustundamerkin eru með svartri keramikumgjörð sem tónar við vísana. Úrið er hægt að fá á stálkeðju, svartri NATO textílól með gulri línu sem tónar við GMT vísinn og svarta leður- og gúmmíól.
Tudor Pelagos Ultra
Eitt nýtt úr kom í Pelagos línunni og er það í áhugaverðari kantinum. Uppfært frá 500 metra vatnsþéttni upp í 1.000 metra vatnsþéttni, þá er þetta frábært fyrir alla þá sem eru mikið í djúpsjávarköfun – sem ég veit að margir Íslendingar hafa gert að daglegri rútínu.
Úrið er örlítið stærra en hefðbundna Pelagos, sem er 42mm, en Pelagos Ultra er 43mm. Þrátt fyrir stækkunina og tvöföldunina á vatnsþéttni, þá er afrek að úrið haldi svo gott sem sömu þykkt, þar sem að það er aðeins 0,23mm þykkara en upprunalegi Pelagosinn. Hlutföllin eru því gríðarlega góð og títaníum úrkassi og keðja halda þyngdinni svo niðri. Úrið er METAS-vottað svo það frábært kafaraúr og daglegur ferðafélagi.
Black Bay 68
Glæný lína hjá Tudor leit dagsins ljós er þeir hoppuðu upp um 10 ár frá ’58 til ’68 og upp um stærð í þokkabót. Línan kemur í nýrri stærð fyrir Black Bay, 43mm, og eru henta þá mjög vel þeim sem eru voldugir að stærð. Úrin koma í tveimur útfærslum, annars vegar með blárri skífu og hins vegar með silfurlitri skífu. Úrin koma, líkt og svo mörg önnur af nýju Tudor úrunum, með METAS-vottuðu gangverki fyrir nákvæmni.
Nýjungarnar frá Tudor í ár einkennast af öryggi og einföldum – og góðum – viðbótum í núverandi vörulínur þeirra, frekar en einhverju byltingarkenndu. Allt var gert af góðri ástæðu, úrin eru vissulega ekki litrík og framandi en þau eru einföld og sígild, en með góðum tæknilegum framförum. Líkt og fólk segir oft, þá er einfalt best.