Velkomin í Stundaglasið, vikulega uppfærslu frá okkur í Michelsen 1909 um allt það helsta frá síðastliðinni viku í úrabransanum.
Þetta hefur verið róleg fréttavika, en það sem okkur skortir í magni bætum við fyrir með gæðum. Merki á borð við Longines, Glashütte Original og Vacheron Constantin koma öll við sögu ásamt fleiri minni leikmönnum í bransanum. Í tilefni Heimsmeistaramóts í frjálsum íþróttum í Tókýó hafa Seiko, sem opinber tímatökuaðili keppninar, gefið út tvö ný og skemmtileg úr. Keppnin er haldin á heimavelli Seiko og tengingin því ennþá skemmtilegri.
Seiko
Ég held að best sé að byrja á þessum nýju Seiko úrum. Speedtimer-línan hefur notið gífurlegra vinsælda um allan heim síðustu ár, þar sem úrin bjóða upp á flotta hönnun, góð gæði og það á virkilega samkeppnishæfu verði. Þau komust meira að segja inn í grein sem ég skrifaði um hvernig skildi byggja upp úrasafn. Vinsælasta útfærslan af þessum úrum hefur án efa verið hvíta „panda“ skífan í 39mm af stærð, einnig þekkt sem „Seitona“ vegna líkinda þess við Rolex Daytona.
Nú hafa Seiko gefið Speedtimer-úrin út með fölfjólublárri skífu sem minnir á blóm. Úrin koma, líkt og flest Seiko úr sem gerð eru fyrir ákveðið tilefni, í takmörkuðu upplagi. Þetta ákveðna úr er takmarkað við 6.000 eintök og munu 800 þeirra fara til Japan. Við fáum sitthvort úrið á Hafnartorgi og Kringluna, svo ekki bíða of lengi ef þú vilt næla þér í það.
Seinna úrið er úr sem verðir virkilega erfitt að nálgast og það kæmi mér á óvart ef við fáum að sjá svona í persónu. Úrið er takmarkað við aðeins 250 eintök, með dökkfjólublárri skífu og er aðeins framleitt fyrir Japansmarkað. Úrið er innan Prospex-línunnar, ekki Astron – sem við fórum yfir í grein okkar um sögu Seiko Astron – en úrið notar samt GPS-tengt sólarrafhlöðuverk sem þróuð var fyrir Astron. Ef þið viljið fræðast meira um úrið, eða freista þess að kaupa það á netinu, þá er týpunúmer úrsins SBED015.
Longines
Conquest-línan er söguleg þegar kemur að Longines. Árið 1954 fæðist hún og í dag er hún þekkt fyrir fáguð sportúr, tilbúin til að takast á við allt sem hver dagur gæti haft upp á að bjóða. Út frá þessari sportlegu hönnun er undirlínan Conquest Heritage, sem horfir í eldri hannanir Longines Conquest og uppfærir þær fyrir nútímaþarfir viðskiptavina.
Í vikunni gáfu Longines út ný úr innan þessarar Conquest Heritage-línu. Nýju úrin koma með fjórum skífulitum: bláum, brúnum, silfur og grænum og í virkilega þægilegri 38mm stærð, bæði á keðju og leðuról. Því eru þau fullkomin sem formleg úr og sem aðeins fínna hversdagsúr. Mín uppáhalds skífa af þessum er brúna skífan en brúnn er vanmetinn litur þegar það kemur að skífum og fötum. Longines negldi þennan brúna tón og er ég spenntur eftir að bera hann augum.
Glashütte Original
Eitt merkasta merki iðnaðarins gaf út nýtt úr sem sýnir kraft þeirra og færni. Úrið er fagnar nýrri skífuverksmiðju þeirra í Þýskalandi og draga þeir innblástur til járngrýtis. Úrkassinn er úr platínu og hefur úrið tourbillon eiginleika sem gefur nú þegar fallegri skífu auka kraft til að sigla því í land sem eitt fallegasta úr sem þeir hafa gert í svolítinn tíma.
Vacheron Constantin
Les Cabinotiers er deild innan Vacheron þar sem verk- og fagurfræði ræður ríkjum, innan þessarar deildar fáum við alla verklegu snilld sem fylgir úrsmíðinni hjá Vacheron Constantin. Öll flóknustu úr þeirra koma frá deildinni og er þetta nýjasta úrið þaðan. Margir eiginleikar úrsins hafa ekki íslensk heiti og tel ég því nóg í bili að nefna að gangverk úrsins inniheldur u.þ.b. 700 mismunandi parta, sem er tvöfalt meira en í hefðbundnu Rolex úrverki.
Yema
Yema er eitt af mínum allra uppáhalds merkjum. Ástæðan fyrir því er að þeir gera falleg úr án þess að taka sig of alvarlega. Þessir eiginleikar sjást fullkomlega á nýju Yachtingraf úrunum, þar sem skífan er með þeim einstakari sem ég hef séð. Sígild og skemmtileg án þess að fórna glæsileika fyrir skemmtun.
Hér með líkur fimmtánda bréfi Stundaglassins. Við fórum yfir færri úr en oft áður en á móti tel ég þetta vera einn skemmtilegasta úrahóp sem ég hef skrifað um. Frá fallegustu útgáfunni af Seiko Speedtimer yfir í „Reggatta“ úr frá Yema – sem ég er hættulega nálægt að bæta í safnið. Ég vil nefna grein vikunnar sem kom út síðastliðin þriðjudag, hún fjallaði um hvernig skal byggja úrasafn. Ég er mjög stoltur af henni og er hún með þeim skemmtilegri sem ég hef skrifað hingað til. Einnig vil ég bjóða ykkur aftur í sextánda bréf Stundaglassins næsta föstudag. Ef þið viljið spyrja mig um úr eða ræða um greinarnar sem ég skrifa þá getið þið sent mér línu á [email protected].
Takk kærlega fyrir lesturinn og ég hlakka til að kynna fyrir ykkur bréf sextán af stundaglasinu næsta föstudag.