Ókeypis heimsending.

Stundaglasið, bréf 23

Verið hjartanlega velkomin í 23. bréf Stundaglassins, þar sem stór úrahátíð átti sér stað í eyðimörkinni í Dubai með Dubai Watch Week. Merki á borð við Tudor önduðu nýju lífi í Ranger-línuna, Forstjóri ROLEX gaf út mikilvæga tilkynningu og merki af öllum stærðum og gerðum létu krafta sína skína. Þar sem það er margt sem við förum yfir, þá ætla ég ekki að drepa ykkur úr leiðindum með löngum inngangi.

Tudor

Ranger-línan hefur verið nokkuð vinsæl hjá Tudor, þar sem hún er ólík öllum öðrum línum merkisins. Þegar úr eru einföld er alltaf spurningin, hvernig á að gera þau áhugaverð? Það eru nokkur svör við þessari spurningu. Ef úrið á sér áhugaverða sögu þá á að nýta sér hana, sem Tudor gerir með Ranger. Það er einnig hægt að gefa út nýjan lit, eða mögulega nýja stærð.

Svarið hjá Tudor var að gefa út ótrúlega fallegan beige lit á skífunni sem kemur í eldri 39mm stærðinni, ásamt nýrri 36mm stærð. Að auki bæta þeir við 36mm útfærslu með svörtu skífunni. Í mínum augum hafa þeir gert fallegt úr glæsilegt með þessari uppfærslu.

ROLEX

Hér er ekki um nýtt úr að ræða, heldur fréttir sem komu í viðtali við Jean-Frédéric Dufour, forstjóra Rolex. Í viðtalinu fer hann yfir hversu mikið ROLEX fjárfestir árlega í að uppfæra tækin sín og fréttir um söluskipulag merkisins.

Ef við byrjum á söluskipulaginu, þá bárust góðar fréttir þar sem hann segir að ROLEX muni ekki auka mikið við sig í verslunum reknum af merkinu sjálfu, heldur munu þeir halda áfram að vinna með einkareknum verslunum. Þetta hefur verið mikið í umræðunni á þessu ári, þar sem ROLEX hefur verið að loka dyrum samstarfsaðila og farið þess í stað að opna sínar eigin.

Í viðtalinu ræðir hann einnig um árlegan viðhalds- og uppfærslukostnað fyrirtækisins, þar að segja viðhald og útskiptingar á tækjabúnaði þeirra sem gerir þeim kleift að framleiða yfir milljón eintök á ári. Þessi tala er gríðarlega há, í kringum 100 milljónir svissneska franka eða um 16 milljarðar króna.

Laurent Ferrier

Merki sem ég er ævinlega hrifinn af gaf út nýtt úr á hátíðinni. Það má segja að úrið dragi mikinn innblástur frá Patek Philippe, sem er er mjög skiljanlegt þar sem að stofnandi Laurent Ferrier vann fyrir Patek í 37 ár ára. Er því hönnun og gæði úrsins mjög í anda risans.

Parmigiani Fleurier

Parmigiani Fleurier Tonda er að mínu mati fallegasta úr með áfastri keðju, eða integrated bracelet, sem hægt er að finna og er fallegra en Royal Oak frá Audemars Piguet og, þó það særi mig að viðurkenna það, 222 frá Vacheron Constantin. Þessi nýja útfærsla með mjúkbleikri skífu er ekkert annað en listaverk í nútíma úrsmíði.

Doxa

Doxa hefur gefið út vínrauða útgáfu af Sub 300, og ásamt nýjum skífulit er úrkassinn sjálfur úr keramiki.

Ásamt þessum stóru og millistóru merkjum, þá var heill hellingur af smærri merkjum sem létu ljós sitt skína á hátíðinni. Ef ég ætlaði að fara yfir þau öll þá værum við hér í marga daga, þannig ég tel best að enda þetta hér. Ég vil minna á að Chronos hefur opnað nýja stórglæsilega verslun í Kringlunni sem ég hvet alla til að skoða. Þar kynnum við inn ný merki á borð við Junghans og Baume et Mercier sem koma með mikinn glæsibrag í þessa nýju verslun.

Ég minni svo á vikugrein síðustu viku þar sem við fórum yfir allt það helsta frá GPHG úrahátíðinni. Ég verð svo aftur með ykkur í næstu viku fyrir næstu grein. Eins og alltaf þakka ég innilega fyrir lesturinn, þar til næst.