Ókeypis heimsending.

Watches and Wonders: Cartier

Merki sem ég held að flestallir þekki, Cartier. Hvort sem það er frá skartgripum, töskum eða því sem við erum hér til að ræða, úrum. Mikil eftirvænting ríkir árlega eftir bás Cartier á Watches and Wonders, í fyrra var mikið um stálúr innan Santos-línu þeirra, en í ár er mikið af gullúrum og mikið af steinum sem skreyta þessi einstaklega fallegu úr.

Panthère High Jewelry

Byrjum á skartgripaúra línu Cartier þar sem tvö ný úr komu út. Eitt er úr hvítagulli og skreytt með 1.103 brilliant slípuðum demöntum sem nemur 11,9ct af demöntum. Augun á pardusnum eru úr smarögðum og er hann einnig skreyttur onyx steinum á nefi og búk.

Gulagulls útgáfan hefur skærari samsetningu þar sem svörtu onyx steinarnir passa einstaklega vel við gullinn búkinn á pardusnum, augum eru líkt og áður skreytt smarögðum.

Panthère de Cartier

Við höldum okkur í Panthère, og eðalseinarnir fara ekki fet. Cartier gefur hér út þrjú ný úr, það fyrsta er úr rósagulli, steinarnir sem skreyta úrið eru saman settir á sérstakan hátt þannig að úrið líkir eftir tígrisfeldi.

Hin úrin eru úr gulagulli eða rósagulli og öll þrjú koma í þremur mismunandi stærðum. Gulagulls úrið sem þið sjáið hér að neðan er með demantsskreytta keðju og á glerhringnum.

Rósagull úrið fylgir í sömu spor. Allar þrjár týpurnar og allar stærðirnar eru knúnar áfram af quartz-gangverki.

Cartier Tressage

Tressage merkir á frönsku flétta. Innblásturinn og nafnið sést mjög skýrt í nýju Tressage-línu Cartier, hvítagulls útgáfan hefur 916 demanta sem nema 12,3ct.

Gulagulls útgáfan finnst mér hins vegar miklu flottari og stílhreinni þar sem hún heldur fléttu stílnum án þess að vera of ýkt.

Cartier Tank Louis Cartier

Til að fagna 103 ára afmæli Tank Louis-línunar, komu Cartier mörgum á óvart með því að gefa út stærri týpuna með sjálftrekktu gangverki.

Margir höfðu giskað á að Cartier myndi gefa út nýtt Tank Louis en fáir bjuggust við því með sjálftrekktu gangverki. Þetta er í fyrsta sinn í nokkra áratugi sem þessi lína er sjálftrekkt.

Eins og ég segi þá er þetta stærri gerðin af Tank-úrunum og mælast því 38.1mm á hæð, 27.8mm á breidd og 8.2mm á þykkt. Úrin eru tvö og koma út í gulagulli og rósagulli.

Cartier verndar mjög hönnun úrsins og þá sérstaklega skífunnar, þess vegna má sjá mjög smáa en fallega breytingu þar sem örlítið mynstur setur svip sinn á skífuna.

Cartier Tank a Guichets

Eftir 20 ára fjarveru snýr Guichets-hluti Tank-fjölskyldunnar aftur. Úrin eru sérkennileg í útliti, skífan er í raun úrkassinn með gluggum fyrir mínútudisk og klukkustundadisk. Úrið hefur eiginleika sem nefnist jumping hour, eða á góðri íslensku hoppandi klukkutími.

Það þýðir að í stað þess að sjá vísa ganga hægt og rólega, þá stekkur klukkustundadiskurinn áfram um eina klukkustund. Úrin koma einungis í eðalmálmum, þ.e.a.s. mismunandi gulli og platínu.

Þrjú af þessum módelum, þá í gulagulli, rósagulli og platínu eru ekki framleidd í takmörkuðu upplagi. Cartier gerði fjórða módelið takmarkað við 200 eintök. Úrið er aðeins öðruvísi en hin, er úr platínu og ber heitið Oblique.

Cartier hefur alltaf sérstakan stað í mínu hjarta, sem maður sem dýrkar fáguð úr til að nota við jakkaföt, Tank-fjölskyldan þeirra slær alltaf í gegn á mínu heimili og eru nýju Panthère og Tressage úrin velkomnir skartgripir í úraheiminn.

Það gleður mig að sjá með nýju Guichets-úrunum að Cartier er að opna faðminn fyrir eldri úrum í safni sínu, þar sem sú lína leit fyrst dagsins ljós á þriðja áratug síðustu aldar.