Ókeypis heimsending.

Stundaglasið, bréf 16

Velkomin í Stundaglasið, vikulega uppfærslu frá okkur í Michelsen 1909 um allt það helsta frá síðastliðinni viku í úrabransanum.

Þessi vika hefur verið svolítið furðuleg. Annars vegar höfum við Seiko að gera eitthvað sem ég dýrka og myndi óska að fleiri merki myndu gera – og hins vegar fengum við úr frá Tudor sem fellur inn í eitthvað sem ég vildi að færri merki myndu gera. Á milli þessa tveggja póla höfum við síðan fullt af flottum úrum.

Seiko

Þá byrjum við á því sem ég hef gaman af: Seiko hefur ákveðið að setja val í hendur neytenda þegar það kemur að vali nýs kafaraúrs frá þeim sem kemur út á næsta ári. Ég, sem er nýbúinn að eignast 1965 Diver frá þeim, hef mikla skoðun á þessum úrum.

Til að halda áfram fögnuði þeirra á 60 ára afmæli Seiko kafaraúra, hafa þeir tilkynnt að aðdáendur Seiko fái að kjósa um hvaða úr muni koma næst. Hægt er að kjósa á milli fjögurra úra sem tákna mismunandi tíma dags. Gula útgáfan nefnist Sunrise Orange, bláa nefnist Daytime Blue, græna nefnist Late Afternoon Green og sú sem ég persónulega kaus er rauða og nefnist Sunset Red.

Tudor

Þá komum við að neikvæðari helming úraheimsins til að jafna út jákvæðnina. Tudor var að gefa út nýtt Pelagos FXD með skeiðklukku, sem á blaði hljómar vel en Tudor hefur nú þegar gefið út tvær skeiðklukkur í Pelagos FXD-línunni, og er þetta önnur útgáfan í tengslum við hjólreiðar.

Þetta ekki slæmur hlutur, en þegar báðar af þessum hjólreiðaútgáfum eru framleiddar í ofboðslega takmörkuðu upplagi – og þá meina ég það takmörkuð að við getum ekki fengið þau inn í verslun þó að við viljum. En að úrinu sjálfu: úrið er eins ‘Cycling Edition’ úrið sem við höfum í verslun okkar, en í stað rauðra tóna þá hefur það gula tóna til að heiðra Tour de France

Breguet

Það er ekki hægt að segja annað en að Breguet eigi sennilega besta afmælisár nokkurs úramerkis þegar það kemur að nýjum úrum. Þeir hafa tekið fögnuðinum af 250 ára afmæli sínu mjög alvarlega, sem er mjög skiljanlegt og gaman að sjá fyrir áhugafólk.

Baltic

Baltic hafa gefið út sumarútgáfu Hermétique-úra þeirra, ég hef reynslu af Hermétique-úrunum frá Baltic og er ég mikill aðdáandi þeirra. Fyrir hvern sem vill krydda upp í úrasafni sínu með dass af lit, þá eru þessi úr fullkomin.

Richard Mille

Eitt furðulegasta merki heims er án efa Richard Mille, gæðalega eru úrin virkilega góð en kannski ekki eins góð og verðmiðinn segir. Í þetta sinn hafa Richard Mille gefið út úr til heiður Le Mans kappakstursins fræga.

Hamilton

Partur af fjögurra úra seríu þar sem Hamilton fagnar þekktum verslunum sínum. Þetta frost-tónaða Khaki Field úr er til heiðurs Zermatt-versluninni sem situr við rætur Matterhorn-fjallsins þekkta. Einnig er samband milli Hamilton og björgunarsveita á svæðinu í gegnum Air Zermatt og er Hamilton-búðin í anda þessb samstarfs.

Hanhart

Þetta úr hefur á ögurstundu flogið upp á óskalistann minn. Hanhart er yfir 140 ára gamalt merki sem hefur sérhæft sig í skeiðklukkum og í vikunni gáfu þeir út ný 415 ES Reverse Panda og eru þau með þeim fágaðri sem ég hef séð innan skeiðklukkuflokks úra. Úrin eru 39mm og með handtrekktu gangverki frá Sellita. Ég fæ að sjá úrið fljótlega og bíð spenntur eftir þeim degi.

Hér með líkur sextánda bréfi Stundaglassins, við fórum yfir andstæður úrabransans og allt sem er að finna þar á milli. Ég er mjög spenntur að sjá hvað kemur úr þessari Seiko kosningu – og þó ég hafi kosið rauða litinn þá tel ég líklegt að ljósbláa úrið sigri, þar sem það hefur verið einn vinsælasti liturinn í úraheiminum síðustu árin. Ef þið viljið ræða við mig um greinina eða úr almennt þá getið þið sent mér línu á [email protected]

Ég nýti tækiflrið og minni á grein vikunar sem fjallaði um vinsælu Cocktail Time úrin frá Seiko.