Verið hjartanlega velkomin í 22. bréf Stundaglassins. Að sinni höfum við eitt þéttasta bréf frá upphafi. Merkin sem við seljum í verslun okkar hafa verið á fleygiferð í nýjungum. Allir eru að undirbúa sig fyrir jólatíðina og sjáum við því jóla-söluvænleg úr líta dagsins ljós. Merki á borð við Breitling, Longines og Tissot gáfu út neglur og NOMOS Glashütte og TAG Heuer létu sig alls ekki vanta í umræðunni.
„Óskarinn“ í úrabransanum, líkt og GPHG verðlaunin eru oft kölluð, var síðasta föstudag og förum við yfir hvaða úr hlaut þann heiður þetta árið ásamt því að fara yfir margt það helsta sem gerðist á GPHG hátíðinni. Byrjum á Breitling.
Breitling
Í tilefni af þeim hátíðum sem eru framundan hafa Breitling gefið út fimm ný úr, sem eru hluti af nýju „Capsule Collection“ sem merkir að úrin eru ekki framleidd í ákveðnu magni heldur frekar í ákveðinn tíma. Þetta nýja safn ber einfaldlega heitið „Holiday Capsule“ og inniheldur nýjar útfærslur af þekktum úrum þeirra. Þjrú úr í Navitimer-fjölskyldunni og tvö innan hinnar ávallt fáguðu Premier-línu.
Úrin eru öll í hátíðlegu 18kt rauðagulli og sýna skífuliti og gangverk sem hingað til hafa aldrei sést. Áður hefur pistasíugræna skífan verið mest rædda útfærslan innan Premier-línunnar, en ég tel þessa nýju dökkgrænu útfærslu veita henni mikla samkeppni um toppsætið innan B09-hluta Premier-línunnar.
Longines
Mér var boðið í opnunarteiti nýrrar Longines verslunar, sem opnaði í Brussel á dögunum. Það var virkilega skemmtilegt að upplifa hvernig stór merki fagna opnun verslana sinna. Í þessu boði, ásamt kampavíni og kokteilum sem áttu að líkjast hinu og þessu í tengslum við flug, mátti finna eitt dýrasta úr í vörulínu Longines.
Master Collection-línan er mín uppáhalds frá Longines en fágun hennar er ósnertanleg af nokkru öðru merki sem finna má á Íslandi. Hún býður einnig, líkt og allt annað frá Longines, upp á frábær gæði á aðgengilegu verði, eins og má best sjá á skeiðklukkum þeirra. Þetta úr hér, sem auk þess að vera mekanísk skeiðklukka, hefur tunglstöðu og þrefalt dagatal. Nú hafa þeir tekið það og sett í 18kt rósagulls úrkassa sem gerir úrið að einu dýrasta úri í flota þeirra, þar sem það kostar 26.000,- EUR. Það verður samt að segjast, að þetta er eitt fallegasta úr sem ég hef séð frá Longines.
Longines hefur sett mikið púður í það á þessu ári að uppfæra PrimaLuna úrin sín. Fyrir nokkru síðan sáum við ný sjálftrekkt módel með nýjum úrkassa og uppfærðri keðju. Nú höfum við fengið quartz-útgáfuna af þeim úrum, en þau eru minni og þynnri en þau með sjálftrekktu gangverkunum, og henta þau því einstaklega þeim sem kjósa frekar smærri og léttari úr.
NOMOS Glashütte
Klárum þá hátíðarþríleikinn af gullúrum. Nú hafa NOMOS sett á sjónarsviðið sex ný úr í gulagulli, í Ludwig- og Tangente-fjölskyldunum. Úrin eru einstaklega falleg og formleg, en NOMOS hafa sérþekkingu í því að gera frábær formleg úr og þessi eru svo sannarlega engin undantekning.
Tissot
Það hefur verið tíðrætt meðal úraáhugamanna síðastliðin ár að PRX-línunni hefur skort millistærð. Þessi vinsæla lína hefur verið fáanleg í 35mm og 40mm og nú fáum við 38mm sem er mjög velkomin viðbót. Þrjú úr litu dagsins ljós í þessari stærð í tveimur mismunandi málmum, við fengum bláar og gráar skífur í títaníum og aðra gráa í Damascus stáli, á leðuról.
TAG Heuer
Á LVMH Watch Week fyrr árinu sáum við vipbætur við skeiðklukkur innan Formula 1-línu TAG Heuer, þar sem úrin urðu enn sportlegri og horfðu enn frekar til kappaksturseðlis merkisins. Fyrir þau sem hafa mikinn áhuga á Formúlu 1 kappakstrinum, þá hafa þau eflaust séð að TAG Heuer er opinber tímatökuaðili keppninnar og hafa þeir bætt við tengingu sína við bæði keppnina og einn þekktasta ökuþórs hennar frá upphafi með nýrri Ayrton Senna útgáfu.
GPHG
GPHG er virtasta verðlaunahátíð úraiðnaðarins, þar sem helstu sérfræðingar bransans koma saman og dæma þau úr sem út komu á árinu. Stærstu verðlaunin á athöfninni eru Aguille d’or. Til að marka 250 ára afmæli Breguest með stæl, þá gerði merkið sér lítið fyrir og vann þessi aðalverðlaun með Classique Souscription 2025. Úrið sótti innblástur til fyrsta souscription vasaúrsins sem Abraham Luis Breguet gerði sjálfur. Við munum fara yfir allt það helsta frá þessum merka viðburði hans í næstu vikugrein.
Við fórum yfir þéttan pakka í dag og vona ég innilega að næsta bréf haldi þessum snjóbolta rúllandi. Er hátíðartímabilið rennur í garð, þá munu merki gefa út sína helstu hittara fyrir jólagjafastressið. Líkt og alltaf minni ég á síðustu vikugrein þegar við fórum yfir tækni gegn hefð. Næst munum við fara yfir tilnefningar og sigurvegara GPHG hátíðarinnar. Ég þakka kærlega fyrir lesturinn og hlakka innilega til að kynna fyrir ykkur GPHG hátíðinni.
