Ókeypis heimsending.

Mín topp 5 kafaraúr

Öll úr eru ekki byggð eins. Sum eru stór, önnur lítil og eru margir undirflokkar þegar kemur að úrum. Við höfum nú þegar fjallað um einn þeirra, þegar ég fór yfir mín 5 uppáhalds chronograph eða skeiðklukkur. Nú er hins vegar komið af því að stíga af landi og út í hafið. Kafaraúr er ábyggilega þekktasti undirflokkurinn og framleiða flestöll merki að minnsta kosti eitt kafaraúr. Allir framleiðendur, frá Rolex til Casio, eiga úr sem þeir geta kallað kafaraúr. Rolex hefur meira að segja sér bók sem snýst alfarið um vinsælasta kafaraúrið þeirra: Rolex Submariner. Það eru ákveðnir hlutir sem gera úr að kafaraúri, fyrst þá þarf það að vera allavega 100 metra vatnsþétt en því meira því betra. Næst þarf það að hafa eitthvað sem sýnir kafaranum örugglega að úrið gangi, oftast er það sekúnduvísirinn sem er alltaf á hreyfingu. Síðast er það glerhringurinn (e. bezel) en hann þarf að vera vel sjáanlegur með skýrum merkingum með 15 mínútna millibili og má hann aðeins snúast í aðra áttina, þannig að ef eitthvað rekst í glerhringinn getur það bara stytt tímann í kafi – ekki lengt hann.

Kafaraúr hafa þann tilgang að mæla hversu mikinn tíma kafar hafa í kafi miðað við súrefnistank. En hvernig er þessi tími mældur? Ef þú hefur súrefnistank sem endist í 15 mínútur þá er glerhringurinn stilltur þannig að mínútuvísirinn bendir á núll á glerhringnum, svo gengur úrið og þegar vísirinn er kominn á 15 þá á súrefnið þitt að klárast. Mér finnst stíllinn á kafaraúrum einkar skemmtilegur og mig langar að lista upp mín uppáhalds kafaraúr í verslun okkar.

Tag Heuer Aquaracer Professional 300 GMT

Þrátt fyrir að vera vanalega tengdir við kappakstur, þá er Aquaracer línan frá TAG Heuer frábær fyrir þá sem vilja komast inn í kafaraúr. Aquaracer Professional 300 línan fékk nýlega andlitslyftingu með nýjum skífum sem hafa þetta einstaka öldu mynstur, nýjum úrkassa með betri hlutföllum, keramík glerhring og alnýju TH31-03 gangverki. Eins og heitið gefur til kynna, þá er þetta úr 300 metra vatnsþétt og sýnir dagsetningu og hefur GMT vísi til að sýna annað tímabelti. Úrið er ekki bara stílhreint heldur praktískt með 80 klukkutíma hleðslu, COSC-vottuðu gangverki fyrir nákvæmni og allt að 5 ára ábyrgð.

Longines HydroConquest

Þá er förinni heitið til eins elsta úra framleiðanda heims. Longines hafa látið mikið til sín taka í gegnum tíðina, bæði þegar kemur að flugi og köfun. HydroConquest er önnur af tveimur kafaralínum hjá þeim og með Legends Diver þá er framboð Longines á sviði kafaraúra stórkostlegt. Líkt og Aquaracerinn þá er þetta úr 300 metra vatnsþétt með keramik glerhring. L888 gangverkið sýnir dagsetningu og hefur þriggja daga hleðslu. Mosagræni tónninn í glerhringum fer einnig einstaklega vel með svörtu skífunni og retro liturinn í vísum og strikum tekur hönnunina upp á næsta plan. Úrið er í þægilegum 41 millimetrum sem passar að það sé einkum hentugt sportúr.

Seiko Prospex Marinemaster 1965 Re-Interpretation ‘Clearwater’

Yfir til Japans, þar sem Seiko ræður ríkjum og er þekkt fyrir framfarir. Hér höfum við þessa endurgerðu útgáfu frá árinu 1965. Seiko hafa alltaf verið ómótstæðilegir þegar kemur að skífum og þessi brýtur ekki þá reglu. Ísblá skífa og mynstur sem minnir á ísjaka. Þetta úr nýtur sín best við hafið þar sem að sólin glampar á það og einstakleikinn sýnir sig. 200 metra vatnsþétt, ál glerhringur og 6L37 gangverk sem sýnir dagsetningu og heldur 45 tíma hleðslu. Kassinn er fullkomin fyrir hversdaglega notkun þar sem hann er aðeins 39,5 millimetrar.

Tudor Black Bay 58

Mögulega þekktasta úrið á þessum lista er Tudor Black Bay 58. Þessi er einstakur þar sem hann byggir ekki aðeins á sögu kafaraúra heldur einnig sögu Rolex Submariner, þar sem þessi hönnun tekur mikið frá Submariner úrunum á sjöunda áratug síðustu aldar. Svört skífa og glerhringur með kremuðum strikum og vísum og rauður þríhyrningur sem dregur allt saman í einn heildstæðan pakka. 200 metra vatnsþéttni, ál glerhringur og COSC-vottað MT5402 gangverk með 70 klukkustunda hleðslu. Úrið er í milli stærðinni af Black Bay úrunum þar sem stærri eru 41 eða 43 millimetrar og síðan ertu með Black Bay 54 sem er 37 millimetrar, en þetta er í fullkominni 39 millimetra stærð.

Breitling Superocean Automatic 42

Endum þetta á léttu nótunum með mínu uppáhalds kafaraúri í búðinni: Breitling Superocean með regnboga vísum og strikum. Þegar ég fyrst sá þetta úr bæði þegar þeir gáfu það út, og þegar við fengum það í búðina, var ég ekki mikill aðdáandi. En því oftar sem ég hef sýnt viðskiptavinum það, og því oftar sem ég máta það og les mér meira til um það, verð ég alltaf hrifnari og hrifnari. Það hrifinn að það hefur toppað þennan lista. Úrið er byggt á öðru Breitling úri sem hét Slow-Motion og var gefið út árið 1965. Þetta er eina úrið á þessum lista sem kemur á gúmmíól, sem er hreint ótrúlegt miðað við hvað ég er mikill talsmaður þeirra og að sjálfsögðu er hún í litríkari kantinum. Úrið er 300 metra vatnsþétt með COSC-vottuðu Breitling 17 úrverki með 38 tíma hleðslu og tveggja ára ábyrgð.

Saga kafaraúra er löng og áhugaverð og verður farið nánar út í hana í annari grein. Praktíkin hefur vissulega dvínað með komu snjalltækj og annara tímamælingatóla en kafarastíllinn er tímalaus og hentar jafn fullkomlega fyrir þá sem eru ævintýralegir og fyrir þá sem vilja sitja heima í rólegheitum.