Við höfum nú þegar fjallað um skeiðklukkur og kafaraúr í topplistum okkar og núna er komið að úrum með GMT. Hvað er GMT? Skammstöfunin GMT stendur fyrir Greenwich Mean Time, sem er tímabeltið sem Ísland liggur á, og er þetta grunntíminn sem miðaður er við Greenwich Observatory í London. GMT á úrum eru auka upplýsingar sem telja annað tímabelti. Oftar en ekki er þetta auka vísir sem í stað þess að fara hringinn í kringum skífuna á 12 tímum, þá fer hann hringinn á 24 klukkustundum. Oft, þó ekki alltaf, eru merkingar á glerhringnum sem hjálpa til við að lesa aukatímann. Vanalega eru það merkingar frá 2 til 24, eins og sjást mun á úrunum á þessum lista. Þessi eiginleiki er mikið notaður af flugmönnum þar sem þeir geta fylgst bæði með tímanum heima fyrir og á áfangastað. Einnig nota margir sem ferðast mikið vegna vinnu GMT af sömu ástæðu.
Tissot Seastar 1000 GMT
Byrjum á framlagi Tissot til GMT heimsins með þessu græna og svarta stálúri. Úrið er í 40 millimetrum og einstaklega þunnt þökk sé ETA quartz-verksins sem knýr það áfram. Seastar 1000 heitið vísar í að úrið er vatnsþétt að 1.000 fetum, sem fyrir okkur Evrópubúa þýðir vatnsþétt að 300 metrum. Með rispufrítt safírgler og vel pússaða keðju og kassa, þá er þetta úr á frábæru verði miðað við gæði og frábær keppandi um besta „fyrsta úrið“ fyrir áhugamanninn.
Breitling Chronomat Automatic GMT 40
Frá svartri skífu yfir í bláa þá höfum við þetta einstaklega vel heppnaða úr frá Breitling. Sportlegur kassi og einstök Rouleaux keðja gera þetta úr sérstakt á hendi og litasamsetningin frá blárri skífu í rauðan GMT vísi einfaldlega virkar. Saga Chronomat er löng og áhugaverð og er þetta lína hjá Breitling sem hefur verið til í einni mynd eða annari frá fimmta áratug síðustu aldar. Upprunalega merkti Chronomat nafnið Chronograph for Mathematicians, eða úr fyrir stærðfræðinga þar sem það var þá útbúið sama reiknistokk og er á Navitimer. Árið 1984 var línan endurvakin og þýddi nafnið þá Automatic Chronograph, þar sem úrið var sjálftrekkt líkt og þetta úr. Með COSC-vottuðu Breitling 32 verki með 42 tíma hleðslu og allt að fjögurra ára ábyrgð þá er þetta úr algjör negla.
Seiko Prospex Alpinist GMT
Frá Sviss og yfir til Japans, en hér höfum við fullkomna úrið fyrir alla í leit að ævintýri. Prospex lína Seiko hefur alltaf höfðað til þeirra sem vilja ekki gera það sama og allir aðrir. Hvort sem það er að stunda köfun eða skoða óbyggðirnar, þá er Prospex lína Seiko nauðsynlegur ferðafélagi ævintýragarpa. Alpinist lína þeirra er fyrir landkönnuðinn, þar sem að það hefur ákveðið form áttavita, þar sem hægt er að staðsetja norður á innri glerhringnum með neðri krónunni, eins og sést á myndinni. Úrið er 200 metra vatnsþétt með skrúfaðri krónu, sem gefur aukna vatnsþéttni. Þetta ákveðna eintak hefur bláa skífu og bláa leðuról til að tóna fallega við stálkassann. Líkt og áður kom fram, þá er blanda af bláum og rauðum líka alltaf frábær. Úrið notar sjálftrekkt 6R54 gangverk Seiko sem hefur 70 klukkustunda hleðslu og tveggja ára ábyrgð.
Tudor Pelagos FXD GMT
Gefið út á síðari hluta 2024 höfum við þessa sérstöku útfærslu af Pelagos frá Tudor. Eins og útlitið gefur til kynna þá er úrið unnið í samstarfi við franska sjóherinnn og ber það merki hans á grænu NATO-ólinni sem gefur þessu úri sportlegan klassa. Kassinn er úr títaníum og er hann því sterkari en stál og töluvert léttari, skífan er svört með kremuðum vísum og appelsínugulum GMT vísi. Græna ólin gerir þessa litablöndu, sem hljómar sérkennilega á blaði, algjörlega klikkaða í persónu. Úrið nýtist við sjálftrekkt MT5652-U gangverk með 65 klukkustunda hleðslu og 5 ára ábyrgð. Úrið lætur síðan ekki úthöfin stoppa sig, þar sem það er gert í samvinnu við franska sjóherinn, með 200 metra vatnsþéttni.
Longines Spirit Zulu Time
Ég viðurkenni að ég er smá að svindla með að hafa tvö úr á sama stað, og þar með sex úr á topp fimm lista – en þetta er minn listi og mínar reglur, þannig ég tel þetta vera í lagi þar sem ég einfaldlega get ekki valið á milli. Hér höfum við úr sem bæði heita Longines Spirit Zulu, bæði eru 39 millimetrar og er eini munurinn á þeim málmur og litur. Þetta svarta er úr stáli og með skemmtilegum ljósbláum GMT vísi sem framkallar svolítið skemmtilegt kombó. Brúna er hins vegar með svartri skífu, en vísarnir og allir tölustafir eru úr 18 karat gula gulli og bezel með gullhettu. Þessi málmbreyting er mikil og þrátt fyrir að stál sé enn notað í kassa og keðju, þá er smá verðmunur. Úrin hafa bæði „quick release“ kerfi í keðjum sínum sem gerir það að verkum að einfalt og þægilegt er að skipta úr stálkeðju yfir í leður eða NATO-ól og öfugt. Hönnunin er sú sama en þegar úrin eru kominn á hendi eru þau gjörólík sem gerir erfitt að velja á milli. Zulu time merkir það sama og GMT en Zulu er hernaðarheitið fyrir það. Bæði úrin eru með COSC-vottað L844.4 gangverk með 72 tíma hleðslu. Úrin eru einnig bæði 100 metra vatnsþétt og eru þau þá fullkomin fyrir hvaða tilefni sem er.
GMT úr eru oft í miklu uppáhaldi hjá mér, þar sem þau tákna fullkomna blöndu af sport og elegans og er Spirit línan hjá Longines þar í miklum sérflokki. Úrin hér eru aðeins lítill hluti af því sem við höfum upp á að bjóða og bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin að skoða öll úrin á þessum lista, og fleiri, nánar í verslun okkar, Michelsen 1909 á Hafnartorgi.