Það er er alltaf spennandi að fylgjast með TAG Heuer á hátíðum, sama hvort það séu minni hátíðir eins og LVMH Watch Week eða risasýningar með öllum stærstu úraframleiðendum heims eins og Watches and Wonders. TAG Heuer áttu sterkar nýjungar í LVMH Watch Week, núna í janúar, og því gríðarlega erfitt að fylgja því eftir með jafn sterkum – eða jafnvel sterkari – nýjungum. Einnig var mikil spenna fyrir því hvað TAG Heuer myndi gera í kringum Formula 1 þar sem þeir eru orðnir opinberir tímatökuaðilar keppninnar. Förum yfir allt það nýjasta frá kappaksturskónginum TAG Heuer.
Formula 1
Stundum er best að gera fólki til geðs, og hafa TAG Heuer svo sannarlega gert það hér. Síðan TAG Heuer tók aftur við sem opinber tímatökuaðili Formula 1 fyrr á þessu ári hafa aðdáendur og safnarar verið að óska eftir TAG Heuer endurgeri fyrstu Formula 1 úrin. Í fyrra gerði TAG, í samstarfi við tískuhúsið Kith, uppfærslu á þessum úrum, en mörgum fannst (ég meðtalinn) það ekki slá á sömu hjartastrengi og upprunalegu úrin gerðu. Nýju, „gömlu“ Formula 1 úrin slá rækilega í gegn með sólargangverki TAG Heuer og litagleðin fær að njóta sín.
Carrera
TAG Heuer kynnir fimm ný úr innan Carrera línunnar og eru fjögur af þeim með glænýju viku- & mánaðardags úrverki. Fimmta úrið er síðan GMT og sýnir því tvö tímabelti, með einstaklega fallegri skífu.
Monaco
Nýtt Monaco úr leit einnig dagsins ljós og er það ekki af verri gerðinni, þar sem úrið hefur „split-seconds“ skeiðklukku. Úrið er hins vegar framleitt í afar takmörkuðu upplagi og þegar ég segi afar takmörkuðu, þá er ég að tala um að aðeins 10 eintök, en það alltaf gaman og frískandi að sjá nýjan Monaco.
Augljóslega verður mest athyglin á nýju Formula 1 úrunum og er það af góðri ástæðu. Þrátt fyrir að hafa verið mjög fyrirsjáanlegt, þá er þetta með skemmtilegri nýjungunum á hátíðinni og verður gaman að sjá þegar þau lenda á markaðnum.