Merkið sem átti heiðurinn af því að vera með litríkustu úrin á síðustu hátíð hefur birt nýju úrin sín. Mikil spenna ríkir alltaf fyrir því hvað NOMOS gerir á þessum hátíðum þar sem það er ekkert merki í líkingu við NOMOS, það er enginn sem hefur sama stíl og þokka og NOMOS. Hvort sem úrið er úr gulli með sígildri skífu eða úr stáli með skærappelsínugulri skífu, þá eru einfaldlega engin úr eins og NOMOS. Förum yfir allt það nýjasta frá NOMOS Glashütte.
Minimatik
Úr sem þeir vissulega gáfu út viku fyrir hátíðina og má lesa um í meiri smáatriðum í síðustu útgáfu Stundaglassins. Ég vil nefna þau aðallega vegna þess að þetta er stórfengleg uppfærsla á gömlu Minimatik línunni var svolítið týnd og falin hjá NOMOS og er því gaman að sjá að hún hefur fengið smá ást.
Club Sport neomatik Worldtimer
Nýtt úr, nýtt verk og nýir litir. Ný úr í Club línunni, sem er oftar en ekki litrík og óhrædd við ögrandi litasamsetningar. Worldtimer úr, eða heimsklukkur eins og þær verða kallaðar héðan í frá, fylgja þessari hugmynd um skemmtilega liti og litasamsetningar. Sum ykkar gætu verið að velta fyrir ykkur hvernig heimsklukkur virka og hvað þær séu eiginlega. Það má segja að heimsklukkur séu eins og GMT-úr – bara á sterum. Í einföldu máli þá sýna heimsklukkur tímann í 24 mismunandi tímabeltum.
Á þessari heimsklukku frá NOMOS er „undirskífa“ hjá kl. 3 sem telur 24 tíma og sýnir heimatímann, úrið getur því sýnt tvö tímabelti. Snilldin kemur hins vegar fram þegar horft er á ysta hring skífunnar, þar eru mismunandi borgir heims raðað hverri á eftir annarri og með því að ýta á hnappinn á kassanum, hnappinn fyrir ofan krónuna, þá færist klukkustundavísirinn (ekki GMT-vísirinn) áfram um einn klukkutíma og borgirnar færast í öfuga átt um einn. Með þessari virkni er alltaf hægt að sjá heimatímann (tíminn á Íslandi ef þú býrð hér) á 24 stunda undirskífunni og skipta auðveldlega yfir á staðartíma (hvert sem þú ert að ferðast) með einum hnappi. Jafnframt er hægt að reikna út hvað klukkan er í þessum mismunandi borgum.
DUW 3202
NOMOS nýtti Watches and Wonders 2025 til að kynna nýtt gangverk fyrir þessar nýju heimsklukkur. Vanalega eru heimsklukkur þykkar og oft dálítið klunnalegar, þar sem verkin eru oftast mjög flókin. NOMOS tekur þessa staðreynd og hendir henni út um gluggann, þar sem DUW 3202 verkið er aðeins 4,8mm á þykkt. Þetta gerir úrið sjálft 9,9mm þykkt, sem veldur því að þetta er ein þynnsta heimsklukkan á markaðnum, sérstaklega þegar horft er til sjálftrekktra heimsklukkna.
NOMOS eru með skemmtilegri framleiðendum í þessum bransa og töluðu flestir um það í fyrra að þeir hefðu verið með skemmtilegasta básinn. Meginatriði þess var litagleðin sem ríkti og almennilegi kúltúrinn hjá NOMOS. Þó ég sé ekki úti í Genf sjálfur þá finnst mér líklegt að NOMOS hafi haldið sama móti í ár.