Eitt flottasta merki heims, sem er einnig eitt íhaldssamasta merki heims, gera tilkall til „sigurs“ á Watches and Wonders hátíðinni. Þar að segja að þau hafi verið með flottustu útgáfur hátíðarinnar. Framleiðandinn hefur verið mikið í umræðunni yfir síðustu 12 mánuði, aðallega vegna nýjustu línu þeirra.
Patek Philippe Cubitus, fyrsta nýja lína Patek í 25 ár, kom út í fyrra og var strax mjög umdeild þar sem mörgum fannst hún leiðinleg, og að hún væri að endurnýta hugmyndir, þar sem hún er augljóslega lík Nautilus-línu Patek, sem hefur verið þeirra vinsælasta lína síðustu ár. Ég var ekki einn af þeim, þar sem mér hefur alltaf fundist hún flott og það styrkist bara þegar ég fékk tækifæri til að máta Cubitus nýlega.
Cubitus
Það var ekki bara hönnunin sem slökkti á mörgum þegar kom að Cubitus-línunni, heldur líka stærðin þar sem úrið var skráð sem 45mm að stærð. Þegar maður les að úr sé í þessari stærð þá býst maður við hlunk en ég get vottað að úrið klæðist mun, mun minna.
Patek Philippe tók samt sem áður þá ákvörðun að gefa út tvær Cubitus útgáfur í 40mm, aðra í hvítagulli með blárri skífu, og hina í rósagulli með brúnni skífu sem hægt er að kalla fínlegri útgáfu af rósagull Aquanaut, einnig frá Patek.
Nautilus
Yfir í vinsælustu línu Patek Philipoe, þá höfum við tvö ný úr. Byrjum á herraúrinu og svo ég sé hreinskilinn ég sé ekki marga Íslendinga sem líklega kaupendur, en samt gott að kynna það.
Hér höfum við Nautilus í 41mm, vel skreytt demöntum en í því eru 1.285 brilliant slípaðir demantar sem nema 6,43ct ásamt 195 baguette slípuðum demöntum sem nema 13,27ct.
Patek stækkaði einnig dömu framboð sitt með einu nýju úri, sem hægt er að fá bæði með hvítagull keðju eða leðuról. Úrið er 32mm og með quartz-gangverki. Skífan nýtur góðs af þekkta öldumynstri Patek og er glerhringurinn skreyttur 46 brilliant slípuðum demöntum sem nema 0,8ct.
Calatrava
Úrið sem hefur fengið mesta athygli frá Patek á hátíðinni er nýjasta úrið í hinni ávallt sígildu Calatrava-línu þeirra. Úrið fylgir línunni og heldur í hefðir á klassískri hönnun fágaðra úra – og er þetta úr einstaklega fágað. Kassinn er úr platínu og notar úrið handtrekkt gangverk sem gerir því kleift að vera nógu þunnt til að passa undir skyrtulíningar.
Hlutföllin á úrinu eru einnig fullkomin fyrir fágað herraúr, 38mm að stærð og undir 10mm á þykkt. Margir framleiðendur reyna við þennan laxableika lit og ná merki á borð við Breitling að gera hann fullkomlega í Datora línu sinni, en það er samt ekkert sem jafnast á við litinn hjá Patek Philippe.
Twenty-4
Ég skal vera alveg hreinskilinn: áður en ég skrifaði þessa grein þá hafði ég ekki hugmynd um að Patek Philippe væri með þessa línu. Eins mikið og ég les varðandi þennan bransa og allt það nýja sem kemur út og söguna á bak við mikið af því, þá er þetta fyrsta sinn sem að ég sé þessi úr.
Ef ég á að vera enn hreinskilnari, þá er ég ótrúlega hrifinn af þessari línu. Patek gáfu út tvö ný úr í þessari Twenty-4 línu, bæði í rósagulli og bæði með sama gangverki, eini munurinn er skífuliturinn.
Þetta er fyrsta sinn sem Twenty-4 línan fær flókið gangverk, þar sem að í þessum smáa 36mm kassa hafa Patek komið fyrir verki sem er perpetual dagatal, sem þýðir að úrið sýnir dag, vikudag, mánuð, hlaupár, 24 tíma klukku og tunglstöðu. Allt þetta í úri sem er aðeins 9,95mm á þykkt.
Complications
Núna förum við í skemmtilegu línurnar frá Patek og mínar uppáhalds línur frá þeim. Complictations-línan er þar sem Patek gefur út fáguð úr sem eru verklega einstök. Í ár gáfu þeir út þrjú ný úr í þessari línu og við byrjum á úri sem frumsýnir nýtt gangverk.
Það sem er einstakt við þetta úr er að það skiptir um dag og vikudag á sekúndubrotinu þegar vísirinn slær miðnætti. Einnig hefur úrið átta daga hleðslu, sem er sýnt á undirskífunni sem liggur fyrir neðan tólf.
Patek eru að öllum líkindum þekktastir fyrir annual dagatals úrin frá sér og bæta þeir hér einu nýju í safnið. Úrið sýnir vikudag og mánuð með vísum og dagsetningu með dagsetningarglugga og tunglstaðan er alltaf velkomin viðbót.
Förum yfir í flugmannaúr frá Patek sem sýnir tvö mismunandi tímabelti og er því GMT-úr. Þetta er hönnun sem margir tengja ekki endilega við hina hefðbundnu fágun innan Complications línunnar en ég tel þetta velkomna bætingu.
Grand Complications
Nú komum við í línu þar sem Patek Philippe þemur út brjóstkassann og sýnir hvaða verklegu snilld þeir geta gert. Við fengum þrjú ný úr og eina borðklukku. Ég vil byrja á klukkunni þar sem hún vekur mestan áhuga hjá mér. Kassinn er úr silfri og hefur klukkan hleðslu sem endist í 31 dag þegar hún er fulltrekkt, einnig er hún mjög nákvæm þar sem hún gengur með skekkjumörk á innan við sekúndu á dag.
Með nýju gangverki sem hefur tvö ný einkaleyfi og sýnir „split-seconds“ skeiðklukku, perpetual dagatal og „minute repeater“ sem gefur mekanískt hljóðmerki um hvað klukkan er. Úrið er fáránlega flókið og fáránlega fallegt, með ísblárri skífu og hvítagulls kassa þá er þetta úr sem ég verð að fá að bera augum einu sinni á ævinni.
Höldum okkur í hvítagulli og förum í úr sem sýnir perpetual dagatalið með bæði dagsetningarvísi og gluggum í skífunni sem sýnir vikudag og mánuð. Talandi um skífuna, þá er hún gerð á einstakan hátt þar sem að skífan er úr dökklituðum safírkristal, sem er nógu gegnsær til að verkið sjáist.
Úr hvítagulli yfir í rósagull, úrið er handtrekkt „split-seconds“ skeiðklukka. Opna bakið gerir þér kleift að sjá fegurðina og fráganginn sem engin annar en Patek Philippe getur boðið upp á. Litasamsetningin á skífunni er einnig einstaklega falleg þar sem munurinn á brúna og kremaða lit skífunnar gefur því fágað útlit.
Eins og sést, þá misstu Patek Philippe sig aðeins í útgáfum nýrra úra og hvað þá nýjum verkum. Fáir hafa sama hugarfar og Patek þegar það kemur að fræðinni bak við úrsmíði, og skín sú staðreynd í gegn þegar horft er í það nýjasta frá einum flottasta framleiðandanum í þessum bransa.