Ókeypis heimsending.

Saga Breitling Premier

Við höfum farið mikið í sögu Breitling í greinum okkar og höfum við hingað til skrifað um sögu Navitimer og sögu SuperOcean. Þessi grein verður reyndar aðeins persónulegri fyrir mig þar sem við ræðum um Premier-línu Breitling. Þegar við tókum fyrst inn til okkar Breitling haustið 2024 fengum við þjálfun frá merkinu.

Til okkar komu menn frá Breitling höfuðstöðunum í Skandinavíu og fóru yfir allt það helsta. Í einum samræðum mínum við sölustjóra Breitling í Skandinavíu kom til tals að ég safna ekki bara úrum, heldur líka bókum og bæklingum um úr, hvort sem það eru vörubæklingar eða sögubækur.

Tíminn líður og rétt fyrir jólin fáum við sendingu frá Breitling af nýjum úrum og varahlutum, en einnig leyndist glaðningur fyrir mig, þar sem að þeir höfðu sent mér jólagjöf. Kemur í ljós að þetta eru tvær bækur um Breitling: önnur sem var í tilefni 140 ára afmælis merkisins sem þeir héldu upp á árið 2024, en hin nefnist Premier Story sem fjallar, líkt og nafnið gefur til kynna, um sögu línunnar.

Þessi bók er skrifuð af mjög áhugaverðum manni innan úrasamfélagsins. Fred S. Mandelbaum er mikill úrasafnari og svokallaður úrasagnfræðingur og starfar sem slíkur fyrir Breitling, Fred á stórt og fjölbreytt úrasafn, en stór hluti þess samanstendur af Breitling.

Við skrif bókarinnar ræðir hann mikið við vin sinn og son mannsins sem gerði Breitling að því sem það er í dag, mannsins sem kom með Premier-línuna á sjónarsviðið: hann Willy Breitling. Sonur Willys, Gregory Breitling, skrifar bréf í formála þessarrar bókar og gerir núverandi framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, Georges Kern, það sömuleiðis.

Bókin er notuð sem ein stærsta heimildin fyrir þessa grein og er hún frábær lestur og mæli ég innilega með henni og læt ég fylgja hlekk á hvernig hægt sé að nálgast hana.

Valið um hvar skal byrja er flókið, Premier-úrin koma fyrst út árið 1943, saga þeirra er samt nátengd sögu skeiðklukkna, þar sem Breitling á stærsta þáttinn í mótun nútímaskeiðklukkunnar snemma á tuttugustu öldinni. Erfitt er að nefna eitt án þess að fara í þaula út í hitt en ég mun reyna, þar sem þessi grein yrði allt of löng ef við tækjum allt fyrir. Verður því farið yfir sögu skeiðklukkunnar í seinni grein.

1943 kemur út fyrsta Premier-úrið. Þáverandi eigandi Breitling, Willy Breitling, var mikill herramaður og klæddi sig vel, alltaf í jakkafötum líkt og stíllinn var á þessum tíma og með fallegum fötum þarf fallegt úr. Það þýddi að flugskeiðklukkur Breitling, sem höfðu hlotið mikið lof fyrir verk sitt fyrir bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni, pössuðu ekki inn í þessa hugmynd.

Willy gefur út Premier-línuna og markaðssetur hana sem fyrsta Breitling úrið sem er tileinkað stíl. Á bilinu 1943 til 1947 koma út þrjú úrin sem myndu gera Premier-línuna að þeirri fáguðustu innan Breitling-fjölskyldunnar.

Snemma árs 1944 bætir Breitling fleiri eiginleikum í verkin á Premier-línunni og einn af fyrstu nýju eiginleikunum var tvöföld skeiðklukku, úrið bar heitið Duograph og má finna nútímaútgáfu þess í núverandi Premier-línunni.

Hvað er tvöföld skeiðklukka? Það þýðir að þú hefur tvo skeiðklukkuvísa sem hægt er að virkja í sitthvoru lagi, svo hægt er að mæla tímann með tveimur skeiðklukkum á aðeins einu og sama úrinu.

Síðar kom út Breitling Datora með þreföldu dagatali: það sýndi dagsetningu, vikudag og mánuð. Einnig var skeiðklukka með tunglstöðu og sýnir þetta hæstu hæðir úrsmíði hjá Breitling.

Þessi þrjú úr má enn finna í Premier-línu Breitling í nútímaútfærslu. Án efa eru þetta fallegustu úr sem Breitling framleiðir og eru þetta einfaldlega fullkomin úr fyrir nútíma herramann. Þrátt fyrir að Premier-línan sé yfir 80 ára gömul þá er stutt síðan að hún fór aftur í framleiðslu.

Á 7. áratug síðustu aldar neyðist Willy Breitling til þess að selja fjölskyldufyrirtækið. Heilsan hafði farið hrakandi og synir Willy voru of ungir til að taka við. Quartz-krísan spilaði einnig stóran þátt þar sem sala fyrirtæksisins var á niðurleið.

Willy Breitling selur fyrirtækið til Ernest Schneider sem var mikill úraáhugamaður og sérstaklega Breitling-gæðingur. Ernest fylgdi ekki hugmyndafræði Willy um fágun og fegurð úra og breytti stefnu fyrirtækisins. Nýja stefnan fékk heitið „verkfæri fyrir fagmenn“, það einkenndist af minni fegurð og meiri praktík þar sem áherslan fór aftur að því að gera skeiðklukkur fyrir flugmenn. Sonur Ernests, Teddy Schneider, hélt þessari stefnu áfram en lét gott af sér leiða með gerð verksmiðju sem hannaði og framleiddi eigin Breitling-úrverk.

Árið 2017 selur Teddy fyrirtækið til CVC Capital Partners, inn kemur nýr framkvæmdarstjóri sem gegnir enn þeirri stöðu í dag. Áður en hann tók við sem framkvæmdarstjóri hjá Breitling hafði Georges Kern verið framkvæmdarstjóri IWC. Hann kannaðist þá vel við þemað sem Breitling vinnur með, þar sem bæði Breitling og IWC eiga ríka sögu í fluggeiranum og í fágun fortíðar. Stefna Breitling breyttist í það sem hún er í dag þar sem Breitling endurlífgar hannanir fortíðar með nútímatækni og gefur þær út í nýrri og uppfærði mynd.

Georges Kern gerði nákvæmlega þetta með Premier-línuna þar sem Breitling gefa út fyrstu úrin í Premier-línunni í nokkra áratugi árið 2018. Byggt á upprunalegu hönnunum Premier-fjölskyldunnar fengu Duograph og Datora endurkomu inn í hana.

Premier-fjölskyldan er hugsanlega sú lína frá Breitling sem fær mestmegnis af hrósinu þegar það kemur að hönnun og glæsileika. Það er með góðri ástæðu þar sem úrin eru gæðalega frábær, hlutföllin eru fullkomin, rík saga að baki og síðan mikilvægast af öllu þá eru þau einfaldlega gullfalleg.

Við hjá Michelsen 1909 höldum mikið upp á þessa línu þar sem glæsileikinn skín í gegn. Þetta eru úr sem allir ættu að prófa að máta og hvetjum við því alla að kíkja í verslun okkar á Hafnartorgi til að upplifa glæsileika.