Sem sölumaður hjá Michelsen 1909 á Hafnartorgi er ein spurning sem ég fæ oftar í viku en ég get talið. Hvar skal byrja? Þessi spurning er hlaðin möguleikum sem velta allir á samhengi spurningarinnar, er þetta mamma stráks sem er að útskrifast úr menntaskóla? Eða er þetta einstaklingur á fertugsaldri sem einfaldlega nennir ekki að hlusta á Apple úrið að segja honum að hreyfa sig? Mig langar að reyna að tækla þessa spurningu í eitt skipti fyrir öll með því að byggja upp og sýna mismunandi úrasöfn hér.
Ég er persónulega mikill safnari allskyns úra og þar sem ég hef mikla áhuga á sögu, þá ræður hefð miklu þegar það kemur að uppbyggingu safnsins míns. Þessi uppbygging mun fara fram á nokkra vegu: ég fer yfir hið fullkomna safn ef þú ætlar aðeins að eiga eitt úr og geri það í þremur verðflokkum, ég sýni þriggja úra söfn í tveimur verðbilum og síðast en ekki alls ekki síst sýni ég fimm úra safn sem lýsir típískt ferli og þróun úrasafns.
Eitt úr á 0 – 250.000,- kr
Í skipulagningu þessara greinar þá komst ég að því að í raun komu aðeins tvö úr til greina á þessu verðbili og eru bæði úr sem ég vel oftar en einu sinni í söfnin hér, af góðri ástæðu. Úrin tvö eru Tissot Gentleman og Seiko Presage Cocktail time. Bæði þessi úr eru undir 100.000,- kr (langflest Cocktail Time eru undir og örfá um og yfir 100.000,- kr) og gefa þér hið fínasta úr fyrir peninginn. Eftir að hafa farið fram og til baka og bannað sjálfum mér að velja bæði, þá valdi ég Tissot Gentleman.
Tissot Gentleman
Stærsti kostur Gentleman-línu Tissot er að hún er einstaklega látlaus og fyrirferðarlítil. Ég valdi quartz-útgáfuna af úrinu þar sem hún er þynnri sem eykur fjölbreytni varðandi not. Úrið er klassískt en gengur sem sportúr, þar sem það er vatnshelt en hægt er að setja leðuról á það og gera það að formlegra úri.
Eitt úr á 250.000,- til 500.000,- kr
Þegar kemur að úrasafni sem inniheldur einungis eitt úr („eitt og afgreitt“ úr svokallað) eru nokkrir hlutir sem þarf að hafa í huga. Er það fjölbreytt? Er hægt að nota það dagsdaglega við gallabuxur og bol og er hægt að nota það við jakkaföt? Er það áreiðanlegt og vandað? Er hægt að nota það alla daga án þess að lenda í vandræðum sem fylgja ekki hefðbundnu sliti sem á sér stað með árunum?
Longines Master Collection
Ég tel að í þessum verðflokki finnst ekki betra úr en Longines Master Collection-úrin. Úrið hér er einstaklega fágað og á stálkeðju er það nógu sportlegt fyrir daglega notkun. Hvítir tónar skífunnar ganga líka einstaklega vel með bláum vísunum. Einnig er hægt að kaupa leðuról á það (eða kaupa það á leðuról) sem bætir aðeins við einstakan glæsileika úrsins.
Eitt úr á 500.000,- kr og upp
Þetta var sennilega erfiðasta valið í þessari grein, svo mörg af þessum úrum eru á mínum óskalista og svo mörg af þessum úrum tel ég nauðsynleg í safn hvers og eins stórsafnara. Velur maður Spirit Zulu Time-línu Longines, Black Bay 58 frá Tudor eða hugsanlega nýju Superocean-línu Breitling? Eftir mikla umhugsun hef ég valið Top Time-línu Breitling. Líkt og ég nefndi í grein minni um mín uppáhalds formlegu úr þá ræddi ég að kafaraúr og sportúr ganga ekki sem formleg úr. Sú staðreynd var til þess að ég gat ekki valið Black Bay 58 eða Spirit Zulu Time sem bestu úrin fyrir eins úrs safn.
Breitling Top Time B31
Nýja Top Time B31-línan hjá Breitling hakar í öll boxin. Úrin eru þunn og hægt er að fá þau á bæði leðuról og keðju og þannig hægt er að klæða þau upp og niður. Þau eru einföld og draga ekki til sín of mikla athygli en á sama tíma eru skífur þessarar línu með þeim fallegri sem Breitling hafa gert. Varðandi áreiðanleika þá uppfyllir nýja B31-gangverk þeirra svo sannarlega mínar kröfur.
Þrjú úr á undir 500.000,- kr
Hvernig maður háttar þriggja úra safni er auðvitað mjög persónubundið, en þar sem þetta er mín grein þá verður þetta háð mér. Ég tel best að hafa eitt formlegt úr, eitt hversdags sportúr og eitt úr sem fer út fyrir þægindarammann.
Seiko Presage Cocktail Time
Byrjum á því formlega: Seiko Presage Cocktail Time úrin komast hér inn í stað fyrir Tissot Gentleman sem tóku fram úr þeim í eins úrs safninu. Ég valdi það með bláu skífunni og leðuról. Cocktail Time-lína Seiko er fáguð og fylgja því sem Seiko eru hvað þekktastir fyrir, sem eru einstakar skífur sem ekki er hægt að herma eftir. Úrið er einnig frábær gátt inn í heim sjálftrekktra úra og er það því virkilega gott byrjendaskref inn í þá veröld sem úrsmíði hefur upp á að bjóða.
Tissot PRX
Fyrir hversdags sportúr hef ég valið úr sem er partur af mínu persónulega safni. Tissot PRX úrin hafa verið afskaplega vinsæl síðustu árin og það af góðri ástæðu: úrinn kýla vel yfir sinn verðflokk þegar það kemur að öllum frágangi (e. finishing) og eru þau fullkominn förunautur í allt sem daglegt líf hefur upp á að bjóða. Ég valdi útgáfuna með ísbláu skífunni þar sem hún nýtur sín virkilega vel á sólríkum degi sem og í frosti og hríð.
NOMOS Club Campus
Skemmtilega úrið kemur úr herbúðum NOMOS. Eins og ég segi í nánast öllum mínum greinum: ég þarf að koma NOMOS að einhvers staðar – ef ég get það ekki þá skrifa ég ekki greinina. Þetta er að sjálfsögðu grín, en eins og alltaf þegar ég ræði góða hluti þá á NOMOS svo sannarlega heima þar. Í þetta sinn hljóta þeir hlutverk skemmtilega úrsins í þessu þriggja úra safni. Útgáfin sem varð fyrir valinu er með bláa skífu og í svo kölluðum „Kaliforníu-stíl“, sekúnduvísirinn er appelsínugulur ásamt fimm mínútna skalanum í kringum skífuna.
Þessi þrjú úr enda í 454.000,- kr. Inni í þessu hefurðu þrjú úr sem öll hafa sinn einstaka stíl og fyrir peninginn sem greiddur er, þá er endingin gífurlega góð. Hægt er einnig að breyta til varðandi skífur. Ef þú vilt jarðtón þá geturðu sótt í annað hvort PRX eða Cocktail Time úrin með grænni skífu og ef þú vilt fara enn meira út í ruglið þá er hægt að panta NOMOS Club með tugi litríka skífa.
Þrjú úr á yfir 500.000,- kr
Nú höfum við aðeins meiri pening fyrir safnið: yfir 500.000,- kr. Þessi upphæð er mikil og með henni er hægt að byggja safn þar sem hvert einasta úr innan þess getur erfst niður til næstu kynslóða. Ég vil samt halda smá ramma um eyðsluna en 1.500.000,- kr eru efstu mörk svo að hinn almenni úrasafnari geti náð þessu nokkuð raunnhæft.
NOMOS Ludwig
Byrjum líkt og áðan á formlega úrinu og ég vel mitt uppáhalds formlega úr. Ég hef talað of oft um þetta úr og ég þarf eiginlega að fara að minnka blaðrið mitt um þetta úr áður en ég fer að hljóma sem biluð plata. NOMOS Ludwig er samt einfaldlega eitt besta formlega úr á markaðinum í dag. Þunnt, fágað og fullkomið í hlutföllum, þetta úr er nauðsynlegt í flott úrasafn.
Tudor Black Bay Pro
Hversdags úrið er flóknara og er framboðið gríðarlega gott. Fyrir fjölbreytni, þá skal ég velja annað en Breitling hingað inn þótt það ætti vel heima í þessu hlutverki. Hjartað mitt öskrar á Spirit Zulu Time en þar sem mín uppáhalds útfærsla er ekki í búðinni hjá mér að svo stöddu, þá hef ég ákveðið að horfa til Tudor Bay Pro. Ég hefði getað farið í Black Bay 58 en tel að hvíta skífan í Black Bay Pro muni eldast betur en sú rauða í nýja Black Bay 58.
Longines Conquest
Skemmtilega úrið er næst og hvernig skal nú leika sér? Við höfum 530.000,- kr til að vinna með eftir þessi tvö úr sem nú þegar eru komin á blað. Við höfum valið tvö hvít úr og mig langar til að bæta grænu við til að krydda þetta aðeins. Annað hvort horfum við til Sviss og förum í nýju Conquest-úrin eða við horfum til Þýskalands og í Metro-línu NOMOS sem ég hef oft rætt. Til að breyta aðeins til, þá förum við í Conquest frá Longines. Græna útfærslan í 38mm er mín uppáhalds innan Conquest. Ég fór nánar í Conquest í grein minni um sögu Longines.
Með þessi þrjú úr saman lendum við þessu í 1.340.000,- kr. Hér höfum við safn í miklu jafnvægi þegar það kemur að hönnun og færni. Innan þessara þriggja úra höfum við einnig tvö sem eru á mínum persónulega óskalista, NOMOS og Tudor. Longines-úrið kryddar síðan í blöndunni með úri sem gefur sömu tilfinningu og ískaldur bjór á heitum sumardegi.
Fimm úr og þróun úrasafns
Eftir allt þetta þá er aðeins eitt eftir í stöðunni, að draga saman það sem við höfum rætt í eina heild sem gæti lýst hefðbundnu ferli safnara, frá því að dýfa tánni ofan í djúpa læk úrasöfnunar, yfir í að snerta botninn eftir að hafa eytt nóg af pening í kafaraúr með 200 metra vatnsþéttni.
Tissot Gentleman
Fyrsta úrið þarf að fylgja því sem við sögðum áðan. Það þarf að virka fyrir öll tilefni og vera tiltölulega ódýrt, svo maður sprengi ekki hvelfingu bankareiknings síns á fyrstu kaupum. Því veljum við úrið sem byrjaði þennan lista: Tissot Gentleman með blárri skífu og með rafhlöðu. Úrið kostar okkur 90.000,- kr og gefur okkur góðan stökkpall fyrir myndræna lækinn sem ég nota í þessari mynd sem við erum að mála.
Seiko Prospex Speedtimer
Úr tvö þarf að vera nógu öðruvísi en fyrra úr, án þess að fara út í öfgar þegar kemur að hönnun. Ég myndi halda að flestir myndu fara hér í sportlegra úr, eitthvað á borð við Speedtimer frá Seiko. Græna útfærslan finnst mér flottust og hún gefur okkur annan lit en bláa tóninn á Tissot úrinu. Þetta er einnig fyrsta reynslan sem við tökum inn þegar kemur að flóknum úrum (eða úrum sem „complications“).
NOMOS Ludwig
Þriðja úrið myndi ég halda að væri í formlegri kantinum. Við höfum nú þegar eitt sportúr frá Seiko og einn „eitt og afgreitt“ í Tissot. Formlega úrið er Ludwig frá NOMOS, þar sem viðkomandi er nú farinn að hugsa um tæknina, gæðin og hefðina sem fylgir úrum og kynnist þar NOMOS, sem gerir sitt allra besta og meira til þegar það kemur að því að halda í hefðir úrsmíðinnar. Eftir að eyða löngum tíma í að lesa tímarit Michelsen hefur hann ákveðið að NOMOS sé málið.
Breitling Superocean Heritage
Fjórða úrið, nú förum við að eyða pening. Viðkomandi er farinn að hugsa hvort hann vilji fara í stóra pakkann sem Rolex hefur upp á að bjóða, en vill taka milliskref áður en hann fer í stærsta fiskinn í tjörninni. Í leit sinni kynnist hann Breitling og sér nýju uppfærðu Superocean Heritage-línuna og fellur fyrir sígildum tón úrsins sem dregur mikinn innblástur frá upprunalegu úrunum frá 1957. Ef þið viljið vita meira um Superocean Heritage þá getið þið lesið grein mína um sögu Superocean.
Rolex Datejust
Fimmta úrið verður Rolex. Kórónan stendur á toppi fjallsins og horfir yfir iðnaðinn af hásæti sínu sem ríkjandi keisari. Viðkomandi er kominn í þá stöðu að vilja úr sem hann getur notað alltaf við hvaða tilefni sem er og það mun alltaf slá í gegn. Fyrir íslenska safnarann sem vill versla sín úr einungis hér lendis, þá er þetta toppurinn. Viðkomandi fær heitar tilfinningar til Rolex Datejust í 36mm í alstáli, með Oyster-keðjunni og sléttum glerhring, til að vera nákvæmur þá er ég að tala um ref. 126200-0004.
Hér með líkur grein vikunnar, ég vil minna á grein síðustu viku sem sneri að mínum 5 uppáhalds NOMOS úrum. Bréf 15 af Stundaglasinu verður að sjálfsögðu á sínum stað á föstudaginn. Ef þið viljið ræða við mig um úr eða spyrja mig út í greinina þá getið þið sent mér tölvupóst á [email protected], ef þið viljið skoða eitthvert af úrunum sem ég nefndi þá eru þau öll (með fyrirvara á Rolex) til í verslun okkar á Hafnartorgi.