Ókeypis heimsending.

Saga Breitling Chronomat

Nú þegar sumarið er að klárast hristir tímarit Michelsen af sér sumarbjórinn og -kílóin og horfir til hausts og veturs með bros á vör og hlýju í hjarta. Til að keyra greinarnar aftur í gang lítum við til Breitling. Við höfum nú þegar farið yfir margt tengt sögu Breitling, enda er hún afar löng og áhugaverð. Hingað til höfum við farið yfir sögu Premier, sögu Superocean og sögu Navitimer. Það þýðir að við eigum eftir sögu línurnar Top Time, Avenger, Professional og Chronomat ásamt heildaryfirliti á sögu Breitling.

Úr því sem eftir er viljum við byrja haustið á Chronomat. Þessi saga vinnur sig yfir 80 ára tímabil og er hún með þeim mikilvægustu sem Breitling hafa að segja. Nútímasaga Chronomat byrjar árið 1983, en Chronomat á uppruna til ársins 1941.

Árið 1941 er Chronomat fyrst nefnt á nafn og kemur á markað ári seinna, eða 1942. Chronomat-heitið merkti þá „Chronograph for mathematicians“, eða skeiðklukka fyrir stærðfræðinga. Navitimer kemur út 1952 og verður þekktasta lína Breitling, með auðþekkjanlega reiknistokknum, en það var ekki fyrsta tilfelli Breitling að nota þennan stokk, heldur notaði upprunalegi Chronomatinn reiknistokk og er hann fyrstur Breitling úra til að bera hann.

Úrið var einnig hannað í hernaðarstíl sem að sjálfsögðu fylgdi tíðaranda seinni heimsstyrjaldarinnar. Áhugavert er að nefna að gangverkið sem notað var í fyrsta Chronomat-úrið kom ekki úr herbúðum Breitling, heldur notaði það Venus 175 handtrekkt skeiðklukkuverk. Á þessum tíma notuðu Breitling nær alltaf Venus verk þegar það kom að skeiðklukkum og var þetta eitt vinsælasta gangverk síns tíma. Breitling hélt áfram að nota Venus 175 gangverkið fram á sjöunda áratuginn þegar þeir skiptu yfir í Venus 178, þar til að sjálftrekkta skeiðklukkan kom fram á sjónarsvið árið 1969.

Chronomat-línan lætur lítið á sér bera eftir stríð og ekkert gerist sem vert er að nefna árunum 1950-1980, þar sem línan dó út með komu Navitimer. Eftir quartz-krísuna og meira en 40 ár sem eigandi og stjórnandi Breitling selur Willy Breitling fjölskyldufyrirtækið til Ernests Schneider árið 1979. Í maí sama ár fellur Willy Breitling frá. Ernest Schneider var hermaður sem barðist fyrir Bandamenn í seinni heimsstyrjöldinni og eftir lok hennar fór hann yfir í úraiðnaðinn. Árið 1960 tekur hann við Sicura frá föður sínum.

Ernest hafði alltaf haft mikinn áhuga á Breitling og var mikill safnari þeirra. Þegar Willy Breitling neyðist til að selja fyrirtækið, þá velur hann mann sem hann veit að þekkir grunngildi Breitling og mun halda þeim á meðan hann leiðir merkið til framtíðar.

Ernest hafði einnig gaman af flugi og flugvélum. Árið 1983 var hann í sambandi við sveit ítalska flughersins sem nefnist Frecce Tricolori, en sveitina vantaði einkennisúr sem flugmenn gátu notað í daglegu lífi en gæti líka lifað af ferðir í herþotum.

Inn stígur Ernest Schneider með úr sem nú nefnist Frecce Tricolori, úrið var einstakt þar sem það innihélt nú auðþekkjanlegu rouleaux-keðjuna og „rider tabs“ á glerhringnum sem stóðu upp úr á 15 mínútna millibili til að marka hvern fjórðung, en einnig til að verja glerið frá höggum. Ári seinna var úrið gefið út sem Chronomat, þá með merkinguna „Automatic Chronograph“. Þetta úr var virkilega mikilvægt þar sem það markaði upphaf þess að Breitling gæti aftur gert sjálftrekkt úr eftir mikil erfiði í quartz-krísunni.

Ernest Schneider erfði fyrirtækið syni sínum, Theadore Schneider eða Teddy Schneider eins og hann er betur þekktur, árið 1994. Nokkrum árum seinna árið 2001 opnar hann nýja verksmiðju í La Chaux-de-Fonds, sem nefnist Chronometrie. Þetta var til að framfylgja áformum Breitling um að öll úrin sem þeir gerðu yrðu vottuð sem COSC-vottaðir chronometerar. Fyrstu úrin til að fá verk úr þessari verksmiðju voru Navitimer og Chronomat.

Chronomat eins og við þekkjum hann í dag kemur út árið 2009, þá í fyrsta sinn með hinu áreiðanlega og þekkta B01-gangverki. Í dag er Chronomat með vinsælustu línum Breitling. Markaðssetning þeirra vinnur einnig mikið í kringum hana þar sem þeir hafa þekkt andlit úr íþróttaheiminum sem erindreka. Menn á borð við Giannis Antetokounmpo, körfuboltamann sem leikur fyrir Milwaukee Bucks, hefur unnið MVP verðlaunin tvisvar og einu sinni orðið NBA-meistari. Einnig höfum við Norðmanninn Erling Haaland, skyttu fyrir Manchester City, sem hefur slegið alls konar markamet og má telja hann einn besta framherja sinnar kynslóðar.

Chronomat-línan er einnig virkilega sterk í kvennaúrum þar sem hönnunin er fullkominn blanda af formlegu og sportlegu fasi. Við höfum heilan sjó af herra- og dömuúrum innan Chronomat-línunnar hjá okkur á Hafnartorgi og bjóðum við ykkur innilega velkominn í verslun okkar til að skoða úrin.