Ef að það er eitthvað sem ég elska þá er það úr. Sömuleiðis elska ég viðskipti, strúktur og rekstur fyrirtækja. Það blasir því við að fara yfir merkin og eignarhald í úraiðnaðinum. Uppbygging úramerkja og rekstur þeirra er oft mjög furðulegur og saga iðnaðarins áhugaverð.
Líkt og í tísku- og fatnaðargeiranum, þá tilheyra mörg merki oft stærri fyrirtækjum. Það hefur ekki alltaf verið þannig, þar sem að fyrir quartzkrísuna (sem lesa má um í Sögu Seiko greininni okkar) voru yfir 2.000 starfandi úramerki, sem flest voru sjálfstæð í rekstri og eignarhaldi. Nokkrum áður eftir krísuna voru merkin orðin færri en 500. Margir framleiðendur lifðu af með því að sameinast öðrum úramerkjum og -framleiðendum.
Mörg af þeim merkjum sem ekki sameinuðust fóru annað hvort í gjaldþrot eða réttur nafnsins og framleiðslunnar var seldur á markaðsvirði, töluvert lægra en fyrir krísuna. Þessi mikla sameining leiddi til þess að félög líkt og Swatch Group náðu stærð sinni, þar sem þau sópuðu að sér merkjum á lágu verði í miðri krísu. A árunum eftir gátu þau valið hvaða merki myndu sitja hvar gæða-, markaðs- og verðlega. En hér í þessari grein munum við fara yfir hvaða merki tilheyra hvaða fyrirtækjum.
Byrjum á Rolex og Tudor en þessi tvö merki eru í eigu sömu stofnunar. Hans Wilsdorf, stofnandi bæði Tudor og Rolex, var ekkill og barnlaus. Skömmu eftir andlát konunnar hans stofnar hann Hans Wilsdorf Foundation og við andlát hans, 15 árum seinna, fær stofnunin allan 100% hlut hans í bæði Rolex og Tudor.
Það áhugaverða er að Hans Wilsdorf Foundation er góðgerðarfélag. Félagið hefur enga hluthafa og greiðir því ekki út arð. Rolex og Tudor eru að sjálfsögðu hagnaðardrifin fyrirtæki, en hagnaðurinn fer annars vegar í uppbyggingu merkjanna og hins vegar í góðgerðarmál – bæði hjá Hans Wilsdorf Foundation en líka hjá Rolex (umhverfi, vísindi og listir).
Eigandasaga Breitling er áhugaverð þar sem fyrirtækið hefur verið selt tvisvar sinnum síðan 2017. Eftir að Schneider-fjölskyldan kaupir merkið af Breitling-fjölskyldunni í kjölfar quartzkrísunnar, gjörbreyta þeir stefnu fyrirtækisins úr gullfallegum úrum fyrir fáguðustu einstaklinga samfélagsins yfir í mikil hernaðartól þar sem þeir gerðu mörg úr fyrir herinn og ímynd þeirra um aldamótin var sú af stórum og mjög grófum úrum.
Árið 2017 selur Schneider fyrirtækið til CVC Capital Partners, sem taka inn Georges Kern, fyrrum framkvæmdarstjóra IWC. Georges og hans teymi hafa unnið hörðum höndum að því að laga og endurmóta Breitling nær því sem var fyrir quartzkrísu. Meirihluti þeirra hannana sem sjá má í dag draga mikinn innblástur frá úrum sem komu árin eftir seinna stríð.
Árið 2022 selja CVC Breitling til Partners Group, fjárfestingarfélags með það eina markmið að stækka Breitling og þar með hámarka fjárfestingu sína. Þetta hefur þeim sannarlega tekist, þar sem Georges Kern er enn framkvæmdarstjóri Breitling. Eitt af þeim markmiðum sem Partners Group settu sér þegar þeir tóku yfir var að vera í topp 10 yfir tekjuhæstu svissnesku úrafyrirtækin. Þetta markmið náðist á síðasta fjárhagsári þar sem þeir lentu í 9. sæti samkvæmt skýrslu Morgan Stanley.
Tvö elstu merkin sem við bjóðum í verslun okkar, Longines og Tissot eru bæði í eigu Swatch Group. Swatch Group verður til 1983 með samruna fyrirtækjanna SSIH og ASUAG, en SSIH átti merki á borð við Omega og Tissot, á meðan ASUAG var stærsti verkframleiðandi Sviss á þeim tíma. ASUAG á sér einnig áhugaverða sögu, þar sem það er stofnað 1931 af svissneskum stjórnvöldum í samvinnu með svissnesku bönkunum, í kjölfar kreppunnar miklu.
ASUAG kom með mikla verkframleiðslu inn í samstarfið ásamt því að hafa tekið yfir Longines árið 1971. Bæði Longines og Tissot eru í öðrum gæðaflokki en þau voru á tímum fyrir quartzkrísu, þar sem Longines var á tímabili í hæsta gæðaflokki úraiðnaðarins. Tissot var á sama máta virkilega sterkt merki í þessum milli verðflokki.
Nú til dags hefur Swatch Group endurskipulagt merkin sín og merkin Omega og Blancpain sitja núna á toppnum. Longines situr í milliflokknum með það markmið að vera samkeppnishæf í gæðum við næsta verðflokk að ofan eða bestu kaupin í sínum verðflokki. Tissot situr í þessum opnunar verðflokki með það markmið að koma fólki inn í þau gæði og menningu sem svissnesk úr hafa upp á að bjóða.
TAG Heuer er í eigu LVMH. Heuer, eins og það hét áður, sameinaðist fyrirtækinu Techniques d’Avant Garde eða TAG, 1985 og til varð TAG Heuer.
LVMH eignaðist svo TAG Heuer árið 1999. Á þessum tíma var, rétt eins og í dag, LVMH stærsta tískugrúppan á plánetunni. Yfir síðustu áratugi hefur LVMH verið að stækka við sig í úra- og skartgripaflokkum sínum þar sem þeir eiga merki á borð við TAG Heuer, Hublot, Tiffany & Co, Bvlgari og Zenith ásamt því að hafa eytt háum upphæðum í að kaupa marga helstu úrsmiði veraldar til að byggja upp Louis Vuitton úradeildina, La Fabrique du Temps.
Þrátt fyrir alla fjárfestinguna sem hefur farið í úradeild LVMH, þá er það lítill partur af fyrirtækinu. Úr og skartgripir hjá LVMH höfðu, árið 2024, tekjur upp á rétt yfir 10 milljarða EUR á móti 85 milljarða EUR heildartekjum LVMH. Úr og skart er því um 12% af sölunni.
Þar með ljúkum við þessum fyrri hluta um eignarhald úramerkjanna. Ég innilega vona að hún sé jafn áhugaverð í lestri og hún var í skrifum. Ég vil minna á bréf 17 af Stundaglasinu sem kom út í síðustu og bréf 18 mun líta dagsins ljós í næstu viku. Takk fyrir samfylgdina, þar til næst.