Ókeypis heimsending.

Hver er besta stærðin á úrum?

Úr hafa þróast mikið í gegnum árin, ekki einungis tækni- eða hönnunarlega heldur líka þegar kemur að stærð. Ef við horfum hundrað ár aftur í tíman, má finna herraúr í aðeins 30mm og það var normið. Í dag myndi herraúr í þessari stærð ekki seljast, nema þá til konu fyrir hana sjálfa. Á þessum tíma og til eftirstríðsáranna voru úr enn í kringum þessa 30mm og þau voru markaðssett til karlmanna og til hernaðar. Öll merkin gerðu þetta, þ.m.t. Rolex, og var Datejust 31 seldt jafnt til karla og kvenna. Þetta fer að breytast á sjötta áratug síðustu aldar þegar merki á borð við Breitling og Heuer ganga í gegnum sína gullöld.

Þar koma fram fleiri skeiðklukkuúr sem neyðast til að nota stærri kassa, vegna stærri og flóknari úrverka. Árið 1952 kemur Breitling með fyrsta úrið í Navitimer-línu sinni. Það úr þótti risastórt á sínum tíma, heill 41mm að stærð. Á þessum tíma var einnig mikil aukning í kafaraúrum, Submariner frá Rolex kemur út árið 1954 og þá er úrið aðeins 37mm í stað 40mm eins og það er í dag. M.a.s. það í sínum 37mm var stærra en meðal herraúr tímans er þau voru nær 32-35mm að stærð.

Er við nálgumst síðasta áratug tuttugustu aldar sjáum við þróun sem margir lesendur muna eftir eða þekkja. Úrin stækka, og þau stækka hratt. Á þessum árum þar sem bankastarfsmenn og James Bond eru aðalhetjur karlmannsins í bland við hip-hop stjörnur þá breytast áherslurnar. Quartzkrísan á mikið í þessu, þar sem tískumerki með ódýr úr byrjuðu að marka spor í úraheiminum. Breitling, ásamt Panerai, eiga einnig stóran þátt í þessari þróun. Meðalstærð hjá Breitling varð að 44mm, sum úr sem voru vinsæl á þessum tíma fóru upp fyrir 50mm. Panerai lagði mikið upp úr 47mm úrum og tískuúr á borð við Diesel, sem voru mjög stór og notuðu ódýr quartzverk, fóru oft yfir 50mm og jafnvel upp að 60mm.

Stór ástæða fyrir þessu var einnig markaðssetning. Breitling markaðssetti sig þannig að aðal töffari fyrri ára og sendiherra þeirra, John Travolta, stóð hjá herþotu. Á hendi hans mátti oft sjá Avenger-línuna sem þekkt er fyrir að vera í stærri kantinum. Rolex gerði það sem það gerir best, að breytast hægt. Það hélt sér nokkuð stöðugu í sínum stærðum og fór ekki yfir um. Submariner til að mynda fór aðeins upp í 40mm og er þar enn í dag, ásamt flestum Professional-línunum.

Nú fara úrin aftur minnkandi. Breitling til að mynda hefur, undir nýrri stjórn, minnkað úrin sín er stíll nútímans færist nær þeim stíl sem mátti sjá á árunum í kringum stríð. Úrin eru farin að vera einfaldari og eru oft bara stærri útfærslur af hönnunum sem sjá mátti á sjötta áratugnum. Rolex hefur verið eitt af þeim fáum merkjum sem hefur stækkað úrin sín, en með því hefur Rolex fært sig nær öðrum merkjum. Allt er þó ekki líkt því sem áður var. Það sem fylgir núna hefur enga formlega rannsókn sem hægt er að vitna í né sögulega heimild, heldur er þetta frekar byggt á því sem ég sé, heyri og upplifi.

Það eru enn fordómar gegn smærri úrum og margt fólki sem var á bilinu 15-20 ára þegar úrin fóru hratt stækkandi eru enn í því hugarfari, sem er allt í lagi en mér finnst fyndið þegar þau kalla 36mm úr dömuúr. Vissulega geta konur vel borið það en sögulega hefur þessi stærð verið stór fyrir herraúr. Þetta finnst mér mest sláandi þegar litið er á úr líkt og Cartier Tank, eitt auðþekkjanlegasta úr sögunnar.

Ég veit ekki hversu margar samræður ég hef átt við fólk hér og þar um heiminn um hvort karlmenn beri þetta úr. Ég tel að þeir geri það fullkomlega sé rétt stærð valin (líkt og með öll úr) en margir telja að úrið sé of kvenlegt og að karlmaður líti kvenlega út með það á handleggnum. Að sjálfsögðu eiga allir rétt á sinni skoðun og þessi staðhæfing er ekki endilega röng, þó ég sé ósammála henni. Staðreyndin er einfaldlega sú að sama hvort litið er á karlmenn eða konur, þá er Cartier Tank eitt besta formlega úr sem fyrirfinnst. Tískufyrirmyndir eins og Harry Styles, Timothée Chalamet og Tyler, The Creator, hafa síðustu ár sést með smærri úr, úr sem listuð eru upp sem dömuúr hjá framleiðendum, og oftast er það Tank í agnarsmárri útgáfu.

Ef Muhammad Ali getur borið Tank með stolti og litið vel út með það, þá getur hvaða karlmaður sem er borið það.

Eftir alla þessa sögu og mína persónulegu greiningu á markaðnum í dag get ég svarað spurningunni, hver er besta stærðin á úrum? Mitt svar er mjög pragmatískt: það skiptir í raun ekki máli, úr sem passar á mig er kannski of stórt eða of lítið fyrir einhvern annan. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því að ég er í minni hluta þeirra sem hafa áhuga á úrum og að vilja hafa þau í minni kantinum.

Það sem virkar fullkomlega fyrir mig eru úr á bilinu 36-40mm að stærð, helst 36-38mm. En þegar það kemur að formlegum úrum vil ég hafa þau 34-38mm. Stærðin er mæld þvert yfir úrkassann, án kjálka, krónu eða „crown guards“ (er á sumum sportúrum og ver krónuna). Eina ráðið sem ég get gefið sem er þetta: ef kjálkar úrsins (það sem ól eða keðja festist við) fara fram yfir úlnliðinn þá er úrið of stórt. Best að muna það er mjög létt fyrir úr að vera of stórt en erfitt að vera of lítið. Millimetrarnir segja þó ekki allt, þar sem 39mm úr með langa kjálka getur virkað stórt og 43mm úr með stutta kjálka passað á smærri úlnliði. Þessi mæling kallast „lug to lug“ og getur verið gott að hafa í huga.

Hér með líkur þessari grein, ég vona að ég hafi ekki móðgað neinn með orðalagi mínu. Líkt og ég segi þá er hin fullkomna stærð í höndum hvers og eins. Það er að sjálfsögðu jákvætt því það neyðir merki til að gefa út breiðan flota af úrum. Ég minni á 20. bréf Stundaglassins sem kom út í síðustu viku og bréf 21 verður á sínum stað í þeirri næstu. Eins og alltaf, þá þakka ég kærlega fyrir lesturinn, þar til næst.