Ef þú tækir á tal sérfræðing sem er djúpt inn í úraiðnaðinum og spyrðir hann hver heitasta vara ársins væri, þá væri svarið líklega steinaskífur. Allir og amma þeirra eru að gera úr með steinaskífum, hvort sem það er ROLEX eða pínuulítið merki sem aðeins stofnandinn sér um. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist þar sem steinaskífur hafa verið vinsælar áður, á sjöunda áratug síðustu aldar byrjaði Piaget þessa einstöku þróun og hefur verið mikill drifkraftur í henni síðan, aðallega innan Andy Warhol-línunnar. Þegar við tölum um steinaskífur, þá eru það skífur framleiddar úr náttúrusteinum, eins og aventúrín, agat og malakít.
ROLEX voru fljótir að taka upp boltann með því að setja steinaskífur í Datejust og Day-Date línurnar, og Oysterquartz sem var og hét. Þessi þróun hélt áfram í gegnum quartzkrísuna þar sem úrin fóru að verða meiri tískuhlutir og skartgripir, frekar en endilega að segja tímann. Með betri tækni og meira aðgengi er steinaskífumarkaðurinn á furðulegum stað í dag; þær eru einfaldlega alls staðar, mörg smærri merki hafa farið að nota steinaskífur, því þær þurfa ekki að vera mjög dýrar.
Mig langar að fara með ykkur yfir nokkur af mínum uppáhalds úrum með steinaskífum og þá steina sem ég er hvað hrifnastur af.
ROLEX GMT-Master II
Ég setti mér þá reglu að ég myndi takmarka mig við eitt úr á merki. Að velja eitt frá ROLEX er virkilega erfitt, þar sem ég hallast mjög að mörgum úrunum innan Day-Date, en eftir að hafa borið augum þessa einstöku Tiger Iron skífu, þá er fátt sem toppar hana. Skífan tónar ofboðslega vel við Everose úrkassann og gulltónarnir í skífunni margfaldast í persónu samanborið við mynd.
Piaget Andy Warhol
Komum að þeim sem byrjuðu steinaskífu-æðið, Piaget, og beint í Andy Warhol-línuna til að sjá bestu útfærslu af malakít á markaðinum í dag. Hægt er að fá hana í bæði hvítagulli og rósagulli og get ég eiginlega ekki valið á milli. Til að auka fjölbreytni sýni ég hvítagulls útgáfuna. Fyrir malakít hefði ég getað valið Dennison, en ákvað að spara þá fyrir næstu tegund.
Dennison ALD
Úr sem vann til verðlauna á GPHG-hátíðinni í ár er Dennison Tiger Eye. Ég hef svo sem sagt allt (oftar en einu sinni og oftar en tvisvar) sem ég hef að segja um Dennison þannig að ég hef þetta stutt, Fyrir fólk sem vill fá formlegt úr sem er ólíkt öllu öðru í geiranum, án þess að borga fáránlega mikinn pening þá er Dennison rétti staðurinn fyrir þig að skoða.
L’Artisan
Nú komum við að stærstu ástæðunni fyrir því að ég valdi steinaskífur sem umræðuefni vikunnar. Fyrir nokkum vikum síðan kom ég mér í samband við Arnaud, ungan strák sem stofnaði merkið og sér alfarið um það. Það sem heillaði mig mest við Arnaud og L’Artisan merkið er áhugaverð notkun steinaskífa og einnig notar hann aðra steina í úrin sín.
Það skemmtilegasta og „safnverðugasta“ af þeim öllum er úr sem hann er að vinna í og er búinn að tilkynna: úr með skífu úr risaeðlubeinum. Þið heyrðuð rétt, skífan er gerð úr risaeðlubeinum. Fyrir einhvern eins og mig, sem hefur alltaf haft mikinn áhuga á risaeðlum og sögu yfir höfuð, þá er þetta afar framandi tækifæri.
Á þessum nótum skulum við slútta þessu. Eins og ég sagði í innganginum, þá eru allir að setja steinaskífur í úrin sín, og bætist í þann hóp með hverri vikunni, þannig ef ég ætlaði að fara yfir það allt þá værum við hér allan desember. Til að mynda voru Baltic að gefa út ný úr í Prism-línu sinni. Við förum hins vegar yfir það í næsta bréfi Stundaglassins.
Þangað til þá þakka ég fyrir lesturinn og samfylgdina, hlakka til að fara yfir allt það helsta í næsta bréfi Stundaglassins.
