Ókeypis heimsending.

Saga King Seiko

Í tilefni þess að Seiko voru að uppfæra King Seiko línu sína með nýrri og endurgerðri útgáfu af Vanac undirlínu King Seiko langar mig að fara yfir sögu King Seiko. Saga King Seiko er löng og nátengd Grand Seiko.

Eftir seinni heimsstyrjöldina er Japan á furðulegum stað, efnahagslega og sem samfélag, og eftir hremmingarnar í Hiroshima og Nagasaki var uppbygging nauðsynleg. Bandamenn tóku mikinn þátt í endurbyggingu Japans, aðallega í pólítik og efnahagslega: þeir breyttu hvert stjórnarlag Japans var, frá þjóð með mikla hefð fyrir að vera með kröftugan her sem hafði mikil völd, yfir í lýðveldi klárt til að verða hluti af hinum vestræna heim.

Þessi uppbygging leiðir til þess að framleiðslu- og efnahagsgeta Japans byrjar að blómstra og aukin velsæld skilar sér ekki bara til ríkra landeigenda heldur til verkafólksins. Í Daini Seikosha verksmiðjunni árið 1961 varð til úrið sem þessi grein fjallar um.

Fyrsta King Seiko úrið var handtrekkt og fylgdi mjög hönnunarstíl Tókýó þess tíma, skarpir og hyrndir vísar með þykkum klukkustundamerkjum, löngum beinum kjálkum og þunnum kassa sem gaf dannaðan tón. Markmið King Seiko var að fanga samfélag Japans og sérstaklega Tókýó og gerði þetta úr það gjörsamlega.

Ári fyrr hafði Seiko gefið út annað úr með það markmið að ná nákvæmni og gæðum sem gætu keppt við fínu svissnesku úrin að vestan. Það úr og það verkefni fékk Grand Seiko heitið. Markmið Seiko var að keppa við Sviss en úrsmiðirnir sem unnu að fæðingu Grand Seiko höfðu það markmið að gera hið fullkomna úr. Til þess þurfti það að fylgja ákveðnum gæðastöðlum: nákvæmni, ending og fegurð, þetta var hin fullkomna blanda til að gera úr sem myndi leiða úraheiminn til framtíðar. Grand Seiko teyminu tókst það markmið að gera svokallað fullkomið úr.

Í hönnun er það ekki ósvipað King Seiko úrinu sem myndi koma út árinu á eftir og er aðalmunurinn á þessum tveimur úrum í raun fágunin á milli, King Seiko er aðeins grófara og í raun má segja ferkantaðra til móts við Grand Seiko úrið sem öskrar glæsileiki.

King Seiko voru ekki bara góðir í að fanga stöðu samfélagsins í Japan, heldur voru þeir líka öflugir á verklegum mælikvarða. Árið 1965 gáfu þeir út KSK, sem stóð fyrir King Seiko Kisei-Tsuki eða „vottað fyrir nákvæmni“. Þetta verk var með „hacking seconds“, en það þýðir að þegar vísar eru stilltir þá stöðvar það sekúndu vísirinn og þar með verkið sjálft. Þetta er virkilega mikilvægur eiginleiki þegar kemur að nákvæmni, þar sem hægt er að stilla úrið upp á sekúndu.

Önnur kynslóð King Seiko sem höfðu þennan eiginleika, eru þekkt fyrir að frumreyna hönnun sem á sér enn þá lykilstað hjá King Seiko nú til dags. KSK úrin keyrðu í gegn nýrri kynslóð af glamúr úrum í Japan, sem einkenndust af hönnun, gæðum og nákvæmni. Útgáfurnar sem fylgdu síðar voru vottaðir sem nákvæmir tímamælar, eða chronometers, af japönska tímamælingastofnuninni (e. Japan Chronometer Inspection).

King Seiko hélt áfram að uppfæra línur sínar á fjögurra ára fresti, þriðja kynslóð King Seiko úra sem nefndist 45KCM kom út árið 1969. Farnir voru beittu úr kassarnir og í stað þeirra kom línuleg hönnun sem lék sér meira með hvað það væri að vera úr.

KCM stendur fyrir King Seiko Calendar Chronometer. Það merkilegasta við þessa kynslóð er að þetta er fyrsta King Seiko úrið til að nota Hi-Beat gangverk. Hi-Beat verk þýðir að það tifar oftar: í stað þess að tifa 21.600 sinnum (3Hz) á klukkustund þá sló það 28.800 sinnum (4Hz) á klukkustund, en það býður upp á aukna nákvæmni. Hreyfing sekúnduvísisins verður mýkri og lítur út fyrir að að hann fljóti eða renni mjúklega áfram í stað þess að tifa.

Í dag er 4Hz normið og 3Hz yfirleitt fórnarkostnaður til að ná fram lengri hleðsluforða (e. power reserve). Í dag flokkar Seiko 5Hz verkin sín sem Hi-Beat.

Eftir þriðju kynslóðina af King Seiko úrunum þá dó línan hægt og rólega en King Seiko Vanac línan kom samt út árið 1972, sem nýjasta útgáfa King Seiko er byggð á. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að merkið fór dvínandi

Grand Seiko, átti eins og fyrr hefur komið fram, að vera hápunktur japanskrar úrsmíði. King Seiko átti að bjóða vönduð úr fyrir almenning. Þessi tvö undirmerki voru stofnuð á svipuðum tíma og átti þau að keppa hvort við annað, til að keyra fram nýsköpun og gæði. Þau unnu þó líka saman og almennt skilaði þetta sér í miklum framförum fyrir Seiko heilt yfir.

Stærsta ástæðan var þó sennilega quartz-byltingin, sem Seiko bar sjálft ábyrgð á með Astron úrunum. Quartz-æðið setti alla athygli á að framleiða rafknúin gangverk og þróa þá tækni. Astron úrin umbyltu úraheiminum og skelltu svissneska úraiðnaðinum í frjálst fall. Þá var tæplega pláss fyrir tvö vönduð vörumerki innan Seiko, í hærri verðflokkum og Grand Seiko varð einfaldlega ofan á.

Eftir nær 50 ára var King Seiko línan endurvakin árið 2020. Nýja línan líkti eftir hönnun KSK úranna, sígildur kassi og einstaklega fallegar keðjur, skífurnar voru einstakar líkt og Seiko einum er unnt að gera.

Verklega eru úrin líka frábær, sérstaklega þegar það kemur að gæðum á móti verði. Til dæmis nota nýju King Seiko Vanac verk sem eru þróuð af og notuð í Grand Seiko, þrátt fyrir að Grand Seiko og Seiko séu orðin sitthvort fyrirtækið. Munurinn er að King Seiko verkin eru ekki handskreytt á sama hátt og Grand Seiko verkin, en gæðin á gangverkinu er mikilvægara en útlitið hjá King Seiko þar sem úrbakið er ekki með gegnsæju safírgleri hvort sem er. Jafnframt eru verkin sem Grand Seiko notar gangstillt nákvæmar.

Núna í byrjun árs 2025 hafa King Seiko gefið út nýja sýn á Vanac úrunum frá 1972, með einstökum skífum og úrkössum sem þú finnur hvergi annars staðar. Úrin nota einnig 8L gangverkið, byggt á 9S frá Grand Seiko, og eru alveg frábær.

Lokaorð

King Seiko er virkilega vanmetin lína hjá Seiko sem mun verða nútíma klassík og tel ég að eftir nokkur ár verði hún mikill söfnunargripur. Við höfum mjög gott úrval af King Seiko úrum í verslun okkar á Hafnartorgi og bjóðum ykkur velkomin að skoða þau, hér eða í verslun.