Ókeypis heimsending.

Stundaglasið, bréf 3

Velkomin í stundaglasið, vikulega uppfærslu frá okkur í Michelsen 1909 um allt það helsta sem gerðist í síðastliðinni viku í úrabransanum. Stærsti viðburður ársins í úrabransanum, Watches and Wonders, var í aðalhlutverki í vikunni og verður þetta því stærsta bréf Stundaglassins hingað til. Við förum yfir breiða flóru framleiðenda – frá þeim allra stærstu líkt og Rolex, niður í minni merki líkt og De Bethune.

Rolex

Talandi um stærstu framleiðendurna, þá höfum við hér þann allra stærsta. Rolex kynnir alltaf ný úr einu sinni á ári og er það á þessari hátíð, þannig það er í nógu að snúast hjá Rolex í byrjun apríl. Úraheimurinn snýst í kringum Rolex eins og sést hefur í allri umfjöllun í aðdraganda hátíðarinnar og á hátíðinni sjálfri, frá lekum til Roger Federer, þá hefur verið ógrynni af fréttum um Rolex.

Rolex kynntu ekki bara nýja línu, heldur nýtt verk sem frumsýnt er í nýju Land-Dweller línunni. Úrið dregur mikinn innblástur frá Rolex Oysterquartz úrunum frá 8. áratug síðustu aldar. Þessi lína hefur verið mest rædda línan á hátíðinni og af góðri ástæðu.

Úrin koma í tveimur mismunandi stærðum, 36mm og 40mm. Báðar stærðir koma í stáli, Everose-gulli og platínu. Everose og platínu úrin er hægt að fá með demants-glerhringum. Annað sem er áhugavert að nefna með nýju Land-Dweller úrin að þetta er í fyrsta sinn sem stálmódel frá Rolex hefur gler úrbak.

Oyster Perpetual línan, sem Rolex leikur sér hvað mest með, hefur fengið nýja skífuliti og eru þeir einstaklega fallega pasteltóna. Við höfum pistasíugrænan, drapplitaðan og fjólubláan.

Tvö ný GMT-Master II litu dagsins ljós á hátíðinni, bæði í gulli, annað í hvítagulli og hitt í Everose-gulli. Hvítagullsúrið fylgir hönnuninni frá „Sprite“-úrinu svokallaða í stáli, þar sem að krónan er hjá kl 9. Úrið sker sig frá öðrum Rolex úrum með því að vera fyrsta úrið þeirra sem er með keramik skífu.

Everose-gullúrið hefur skífu sem ekki er hægt að finna annar staðar. Skífan er úr „tiger iron“ náttúrustein og hefur grófan og voldugan tón sem minnir okkur Íslendingana að öllum líkindum á eldgos.

Rolex spöruðu ekki skífurnar þegar kom að Cosmograph Daytona og fengum við átta nýjar skífur á þetta sívinsæla úr. Vinsælust af þessum nýju verður líklega bláa skífan, sem óneitanlega minnir á Tiffany-litinn, í gulagulls útfærslunni og með Oysterflex-keðju,

Bláa skífan var ekki eina nýja skífan á gull Daytona á Oysterflex. Þrjár nýjar skífur komu úr loftsteinum í hvíta-, gula- og Everose-gulli.

Við fengum einnig þrjár skífur á Daytona í gulli á Oyster-keðjum: bláa skífu á hvítagulls úr, græna skífu í gulagulli og brúna skífu í Everose-gulli.

1908 er fágaðasta lína Rolex og hefur hún til þessa einungis komið á leðurólum. Núna hafa Rolex hannað glænýja Settimo-keðju á þessa einstaklega fallegu línu þeirra. Til að byrja með þá fáum við þessa keðju á gulagulls úrin og þá bæði með svörtu og hvítu skífunni.

Breitling

Líkt og svo oft áður lítur Breitling til fortíðar og endurlífgar hana á skemmtilegan hátt, nýju Top Time B01 skeiðklukkurnar hafa sérstakan kassa sem er sjaldséður nú til dags.

„Cushion“-kassi eins og þessi einkennist á því að vera hvorki kringlóttur né ferhyrndur þar sem það bætast við mjúk horn í kringum hefðbundinn, kringlóttan kassa, og verður það þá líkt og púði í kringum úrkassann, sem skýrir nafnið. Þessi nýju úr minna mikið á gömlu Breitling Sprint úrin sem voru vinsæl á sjöunda áratug síðustu aldar.

Úrin eru öll takmörkuð við aðeins 750 eintök. Stærðin á þeim er frábært fyrir flesta þar sem kassinn er aðeins 38mm og er úrið 100 metra vatnsþétt. Breitling Caliber B01 fékk kallið þegar til kom að þessum úrum og hefur Breitling það mikla trú á gæðum þess að þeir bjóða allt að átta ára ábyrgð á því.

Tudor

Tudor voru duglegir í að gefa út nýjungar á hátíðinni í ár. Þar sem við höfum þegar birt sér grein sem listar og fer djúpt ofan í allt það nýjasta frá þeim, þá ætla ég aðeins að sýna eitt af nýju úrunum þeirra.

Tudor Black Bay 58 með búrgúndí glerhring og skífu er úr sem ég einfaldlega verð að sjá í persónu, sérstaklega á „5 link“ keðjunni. Eins og ég segi þá höfum við gert heila aðra grein fyrir alla nýjunga þeirra og hvet ég alla að skoða hana.

TAG Heuer

TAG Heuer urðu við öllum mínum óskum með því að gefa út nýja útgáfu af Formula 1 úrunum sem fylgir upprunalegri hönnun úrana. TAG Heuer gáfu út margar nýjungar og höfum við gert sér grein um þær í tímariti okkar.

Frá nýjum Monaco yfir í stóra uppfærslu á Carrera-línunni, þá geturðu lesið það allt í greininni okkar um TAG Heuer á hátíðinni.

NOMOS Glashütte

Eins og reglulegir lesendur vita þá er ég einn stærsti aðdáandi NOMOS sem fyrirfinnst. Ég skal samt vera fyrstur til að viðurkenna að þegar ég sá nýju Club Sport Worldtimer úrin þeirra þá var ég vonsvikinn, úrin höfðuðu ekki til mín persónulega og mér fannst þau leiðinlegri en NOMOS hefur oft verið.

Síðan sá ég fleiri og fleiri myndir og las mér meira, og meira til um verkið og í dag er þetta úr sem situr á toppi óskalistans hjá mér. Við höfum gert sér grein fyrir Nomos, þannig ef þið viljið lesa ykkur til um nýju úrin og tæknina á bak við þau þá mæli ég mjög með þeirri grein.

Patek Philippe

Það hefur einhver gefið Patek Philippe gott spark í rassinn í ár, þar sem merkið gaf út fimtán mismunandi úr og mörg hver með glænýju gangverki. Það tæki of langan tíma fyrir Stundaglasið til að fara yfir alla snilldina sem Patek gaf út á hátíðinni. Þannig ég mæli enn og aftur með sér grein þar sem við förum yfir alla þeirra nýjungar.

Vacheron Constantin

Vacheron Constantin dýrkar að nýta tækifærið og sviðsljósið sem Watches and Wonders býður upp á til að slá met. Í fyrra gáfu þeir út flóknasta (vasa)úr sögunnar, í ár gáfu þeir út flóknasta armbandsúr allra tíma.

Úrið inniheldur 41 mismunandi eiginleika, og er nær ómögulegt að útskýra þá alla. Vacheron gaf út fleiri en bara þetta eina og hvet ég ykkur til að lesa grein okkar um þau.

Cartier

Cartier voru mikið fyrir gull og eðalsteina á hátíðinni í ár, mig langar að vekja athygli á endurvakningu Guichets fjölskyldu þeirra. Línan hefur legið hljóðlát síðustu 20 árin og er mjög gaman að sjá hana líta dagsins ljós á ný. Ef þið viljið lesa ykkur til um alla nýjunga Cartier þá erum við með sérgrein sem ég hvet ykkur að líta á.

Jaeger-LeCoultre

Einnig þekktir sem JLC, en þeir gáfu út spennandi nýjungar innan auðþekkjanlegu Reverso-línu þeirra. Við munum gera grein um nýjunga þeirra sem kemur út í vikunni þar sem það er of mikið til að geta farið nægilega djúpt í hvert úr hér. Mig langar að sýna samt nýtt úr frá þeim sem kemur á einni bestu mesh-keðju sem ég hef séð.

Grand Seiko

Grand Seiko eru ávallt sterkir og hafa gefið út þó nokkur úr í ár. Sum þeirra með nýjum verkum og eiginleikum, við munum þess vegna gera sér grein fyrir merkið þar sem við förum djúpt ofan í allt það helsta frá fínustu úrsmiðum Japans. Hér höfum við til dæmis nýja Tentagraph úrið þeirra.

Bvlgari

Bvlgari fylgja Vacheron Constantin þegar það kemur að því að slá met á Watches and Wonders hátíðinni. Í ár héldu þeir áfram þeirri hefð að brjóta múrinn á hversu þunn úr geta verið. Þeir sneru athygli sinni að því að gera þynnsta tourbillon úr heimis. Úrið er stjarnfræðilega þunnt, þar sem það er undir 2 millimetra þykkt og mælist 1,85 millimetrar á þykkt.

A. Lange & Söhne

A. Lange & Söhne er fínasta merki sem Þjóðverjar eiga. Merkið gerir úrsmíði að list og sýndu þeir það á hátíðinni í ár. Við byrjum á þessu Perpetual Calendar úri frá þeim sem inniheldur einnig „minute repeater“ sem gefur hljóðmerki til að segja tímann.

Við höfum fengið að sjá tvö gullfalleg ný úr í 1815-línunni, annað í hvítagulli og hitt í rósagulli.

Odysseus-línan hefur fengið nýtt úr í hunangsgulli og eru litatónarnir yndislegir.

Hublot

Fyrir 20 ára afmæli Big Bang línu Hublot hafa þeir gefið út 5 ný úr til að fagna.

Einnig hafa þeir gert tvö mjög litrík úr í Big Bang Unico-línunni, þar sem kassinn er úr keramiki.

Oris

Á hátíðinni buðu Oris upp á litagleði með fimm nýjum skífulitum í Big Crown-línu þeirra.

IWC

International Watch Company tók þá ákvörðun að stækka Ingenieur-línuna með því að gefa út sjö ný úr innan hennar. Byrjum á nýjum dömuúrum þar sem þeir gáfu út þrjú ný í 35mm.

Tvær nýjar skífur komu í 40mm framboði þeirra.

Nýr Perpetual Calendar kom út í 41mm.

Ný útgáfa í 42 mm þar sem að kassinn og keðjan eru úr keramík og er úri því al svart.

Panerai

Panerai gefur út Luminor Marina-collectionið, þar sem þú færð ný hlutföll á kassa og glænýtt gangverk.

F.P. Journe

Eitt af flottustu merkjum í heimi, þegar það kemur að úrsmíði, tók ekki þátt í hátíðinni en gaf út nýtt sportúr áður en hátíðin hófst.

De Bethune

Allir sem lásu síðasta bréf stundaglassins vita hversu mikill aðdáandi De Bethune ég er. Líkt og F.P. Journe þá taka þeir ekki þátt í sýningunni en þeir hafa gefið út nýja skeiðklukku, sem hefur einungis einn hnapp í stað þriggja (e. monopusher).

Hér með líkur þriðja og stærsta bréf Stundaglassins til þessa. Ég vona að þið hafið notið þess að lesa þetta bréf og vona að þið munið lesa bréf fjögur sem kemur næsta föstudag.