Ókeypis heimsending.

Úrin hans Claptons

Maðurinn

Ég ólst upp við það að Eric Clapton væri í guðatölu. Frank Michelsen, sem flestir þekkja sem úrsmiðinn en ég sem pabba, var ekki lengi að troða því inn í hausinn á okkur bræðrunum. Sem unglingur hafði ég CLAPTON IS GOD myndina sem bakgrunn í tölvunni minni og hafði hlustað oftar á 24 Nights plötuna en flestir gera yfir mannsaldur.

Clapton er eini tónlistarmaðurinn sem hefur verið vígður inn í Frægðarhöll rokksins þrisvar sinnum; sem sóló listamaður og svo sem meðlimur í hljómsveitunum The Yardbirds og Cream. Hann er álitinn einn besti og áhrifamesti gítarleikari sögunnar, en Rolling Stone tímaritið setti hann í annað sætið yfir 100 bestu gítarleikara heims. Auk þess er hann margverðlaunaður og -heiðraður. Englendingurinn á sér þó myrka sögu líka, en hann glímdi við m.a. áfengis- og fíkniefnavanda í mörg ár auk þess sem hann átti í stormasömum ástarsamböndum. Hann var eiginlega bara algjör skíthæll. Clapton hefur þó verið edrú alla mína ævi og rétt rúmlega það. Hann stofnaði Crossroads meðferðarmiðstöðina 1998 og styður enn við hana.

Safnið

Clapton á, eðlilega, gott safn af gítörum og hefur átt í gegnum tíðina. Frægastur þeirra er Fenderinn Blackie, sem hann eignaðist 1970 og notaði til 1985. Gítarinn seldi hann á uppboði 2004 til styrktar Crossroads. Seldist hann á 959.000,- dollara og setti heimsmet í leiðinni: dýrasti gítar sögunnar (sem síðan hefur reyndar verið slegið).

Allavega, þá vita það færri – en samt rosalega margir – að Clapton safnar úrum líka. Hann er ekki bara einn frægasti úrasafnari heims, heldur hefur hann vit á úrum. Hann á einstök úr (e. unique pieces), frumgerðir (e. prototypes) og sérframleidd úr. Hann var Rolex „ambassador“. Það sem við vitum er, miðað við úrin sem hann hefur selt á uppboðum, að Clapton einblínir á sjaldgæfustu úrin frá virtustu framleiðendum. Við ætlum að skoða merkilegustu úrin hér, sem hann á eða hefur átt.

Rolex Cosmograph „Oyster Albino“

Mynd: phillips.com

Clapton keypti þetta úr á seinni parti 10. áratugarins. Það er frá 1971 og er eitt af aðeins fjórum þekktum eintökum. Það er allt upprunalegt, frá úrverki til glerhrings og skeiðklukkutakkanna. Það er handtrekkt og knúið áfram af Caliber 727 úrverkinu. Clapton seldi úrið 2003 og fékk fyrir það litla $50.190,- / 6.400.000,- kr. Fimm árum seinna, 2008, sló þetta sama úr heimsmet, sem dýrasta Rolex Cosmograph Daytona sögunnar, og seldist á uppboði á $505.000,- / 64.650.000,- kr. Síðast var það selt 2015 og sló þá heimsmet sem dýrasta Rolex sögunnar, þegar það seldist á $1.400.000,- / 179.200.000,- kr. Síðan þá hafa önnur Rolex selst margfalt dýrara – en það er efni í aðra grein.

Patek Philippe 2499

Mynd: christies.com

Þar sem við höfum takmarkað pláss hérna, þá verð ég að láta nægja að skrifa 2499 eru goðsagnakennd úr. Aðeins 349 voru framleidd yfir 35 ára tímabil, eða tæp 10 á ári. Langflest þeirra voru í gulagulli. Aðeins fjögur 2499 í rauðagulli hafa komið fram á uppboðum. Einungis tvö 2499 voru framleidd í hvítum málmi, og það síðustu tvö 2499 úrin (árið 1987). Bæði voru þau sett í safn Patek Philippe í Genf og aldrei gert ráð fyrir að þau færu í sölu. En 1989 fer annað þeirra á sölu, og einhverjum árum seinna eignast Clapton úrið. Hitt er enn í eigu Patek safnsins og verður það sennilega að eilífu. Síðast seldist þetta úr á uppboði 2012 á 3.443.000,- CHF / 477.000.000,- kr.

Patek Philippe 5970

Þessi úr voru framleidd sérstaklega fyrir Clapton, eftir hans forskrift. Breguet tölustafir og „múrsteins“ keðja. Um er að ræða sett, þar sem Clapton pantaði fjögur úr, en hvert þeirra er úr mismunandi eðalmálmum og skífulitum (hvítagull með silfurlitaðri skífu og rauðagull með hvítri skífu, aðrar litasamsetningar eru óþekktar þar sem þau hafa ekki farið á uppboð). Þetta eru perpetual calendar úr með skeiðklukku og tunglkomu. Framleidd árið 2006.
Rauðagullsúrið seldist síðast 2014 á 406.000,- CHF / 56.250.000,- kr og hvítagullsúrið 2018 á 4.920.000,- HKD / 81.000.000,- kr.

Rolex Yacht-Master

Mynd: John Goldberger

Þetta er forveri Yacht-Master línunnar sem Rolex framleiðir í dag. Aðeins þrjár frumgerðir voru framleiddar á sjöunda áratugnum. Clapton átti úrið um tíma en seldi það 2003 á uppboði, og fékk fyrir það $125.000,- / 16.000.000,- kr. Allur ágóði fór í Crossroads meðferðarmiðstöðina. Ég veit ekki til þess að úrið hafi verið selt aftur á uppboði.

Lokaorð

Clapton hefur ekki tjáð sig sérstaklega um safnið sitt eða smekk, en með því að skoða bara þessi fimm úr hér að ofan má sjá mynstur: hann veit hvað hann vill og hann er smekkmaður. Hann vill vönduð úr, þá helst Rolex og Patek Philippe, og sjaldgæf úr. Nú er bara að bíða eftir því hvað hann selur næst.

Skildu eftir svar