Ókeypis heimsending.

Úrasafnið: Eitt og afgreitt – ágúst 2023

Það er gjarnan talað á ensku um „one watch collection“, eða eiga „eitt og afgreitt“. Þar sem ég er sjálfur í úrahugleiðingum núna datt mér í hug að setja niður lista yfir úr sem myndu tækla það að vera eina úrið í safninu þínu, í flestum verðflokkum.

Kröfurnar sem ég geri fyrir þennan lista eru:
Það verður að vera með keðju (það er nánast alltaf hægt að setja ól á úr sem kemur með keðju, en getur verið erfiðara að finna passandi keðju á úr sem kemur með leðuról),
Það verður að vera vatnshelt niður á a.m.k. 100m dýpi (100m vatnsheldni (einnig þekkt sem 10ATM eða 10BAR) er lágmarkið til að geta verið öruggur um að úrið þoli örugglega vatn, lestu nánar um þetta hér).
Það verður að ganga með öllu frá gallabuxum og stuttermabol til jakkafata.
Stærðin verður að henta flestum (38-42mm).

Þessar kröfur geri ég til að geta farið með úrið hvert sem er, hvenær sem er. Fólk sem fer mikið í sund tengir væntanlega. Þær kröfur sem ég myndi setja fyrir mig persónulega væri að úrið væri jafnframt með rispufríu safírgleri og handtrekktu eða sjálftrekktu úrverki. Ég geri þær kröfur þó ekki fyrir þennan lista.

Vindum okkur í þetta.

Lotus Minimalist

Ódýrasta úrið á listanum en ekki láta verðið blekkja þig. Hér erum við að tala um úr á frábæru verði, 100M vatnsþétt svo það má fara með það í sund OG aukaleðuról fylgir með sem breytir heildarútlitinu mikið. Þar sem Lotus er ekki jafn þekkt vörumerki og t.d. Tommy Hilfiger keppir það á öðrum grundvelli; verðum og gæðum.

Seiko Conceptual

Frábær kaup, þrátt fyrir aðgengilegt verð er þetta úr frá einum stærsta úrframleiðanda heims og með rispufríu safírgleri. Úr sem kýlir upp fyrir sig í gæðum og verði. Græðir líka á æðinu sem er í gangi núna með innfeldar keðjur.

Tissot Gentleman

Þetta er úrið sem ég mæli mest með þessa dagana. Gentleman línan frá Tissot kemur gríðarlega sterk inn, enda mjög falleg og kemur í fjölda útfærsla. Þar á meðal kemur þetta úr með sjálftrekktu verki. Mikil gæði á flottum verðum og Gentleman gengur í alvöru í öllum aðstæðum.

Victorinox Alliance

Alliance línan frá Victorinox leynir á sér. Hún er sterka, þögla týpan. Ekki gleyma því að úrin eru bara side gig hjá Victorinox, fyrirtækið er langmest í því að framleiða hnífa – og þá sérstaklega svissneska vasahnífinn sem við þekkjum öll og elskum. Alliance línan er einmitt svolítið eins og svissneski vasahnífurinn. Hún lítur sparilega út, en ekki falla fyrir blekkingunni. Undir yfirborðinu er úr sem þolir meira en þú heldur. Það er vatnshelt og sterkbyggt.

Seiko Presage

Presage línan heiðrar japanska handverkskúnst og hönnun. Þau eru fáguð og henta vel til daglegrar notkunar – og við sparilegri tilefni. Þetta er með safírgleri og nákvæmt sjálftrekkt úverk, framleiddu í Japan. Eitt af mínum uppáhalds úrum frá Seiko og grjóthörð samkeppni við Gentleman línun frá Tissot.

Longines Conquest

Eðli málsins samkvæmt mæli ég með öllum úrunum á þessum lista, en ég mæli extra mikið með þessu. Longines Conquest fetar hinn gullna meðalveg milli þess að vera sportlegt og sparilegt. Fyrir vikið getur þú notað úrið við jakkaföt á virkum dögum, en líka í sundi um helgar. Þetta er vatnshelt niður á yfirgengilegt 300 metra dýpi. Fáránlegt verð miðað við hvað þú ert að fá.

King Seiko

Þriðja Seiko úrið á listanum. Það sýnir hversu mikla breytt Seiko býður upp á. Áberandi skarpar línur einkenna King Seiko línuna, sem upphaflega var hönnuð 1965 og endurvakin 2020. Annað af mínum uppáhalds Seiko, flott hönnun og góð gæði á sanngjörnu verði.

(Þetta er reyndar bara 37mm, en eigum við ekki að láta það slæda?)

  • kr.340.000

    Ný kynslóð Gucci Dive úra, þar sem minna er meira.

Gucci Dive

Ekki beint sparilegtasta úrið á þessum lista, þar sem þetta er kafaraúr með öll sportlegu eiginleikana. En á sama tíma er þetta ótrúlega sparilegt kafaraúr; pólerað stál á kassa og keðju, geggjuð áferð og litur á skífunni og skemmtilegir vísar og klukkustundamerki.

Tudor 1926

Tudor 1926, líkt og Longines, er kjarakaup. Ég veit að við erum að tala um úr fyrir hundruði þúsunda, en það sem þú ert að fá fyrir peninginn er ótrúlegt. Tudor er dótturfélag Rolex og fyrir vikið verður úrið sjálfkrafa verðmætara, en það endurspeglast ekki í verðlagningunni. Það er heldur ekki oft sem svona sparileg úr eru vatnsheld.

NOMOS Club Automatic – Limited Edition

Það er ekki oft sem úr er vatnsþétt niður á 200M dýpi og er svona…. sparilegt? Það eiginlega meikar ekki sens, en NOMOS er þekkt fyrir stílhreina og fallega hönnun.

Tudor Black Bay 39

Uppfært módel frá Tudor 2023, módelið er komið með in-house úrverk, nýja keðju með T-Fit lásnum. Klárt sportúr, en sjáðu hvað keðjan er fín! Og skífan!

TAG Heuer Carrera

Ekki alveg hlutlaust mat, þar sem ég var ánægður eigandi svona úrs í fimm ár, en Carrera úrin eru stórkostlega falleg. Fullkomið eitt-og-afgreitt úr fyrir mig; það er hægt að fara með það hvert sem er og það passar vel vil allt. Sparilegt en samt svolítið hvassar línur og sporteiginleikar. Vandað svissneskt, mekanískt úrverk og allt sem fylgir lúxusúri í þessum verðflokki.

Þessi listi er á engan hátt tæmandi, þegar þetta er skrifað eigum við 112 herraúr með bláum skífum. Hér er stiklað á stóru og valin úr sem mér finnst falleg og/eða spennandi. Ef þú ert að leita að úri með blárri skífu hvet ég þig til að skoða úrvalið hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *