Ókeypis heimsending.

Saga Breitling Navitimer

Saga Breitling Navitimer

Það tekur sérstakt úr til að verða auðþekkjanlegt og eru ekki mörg merki sem ná því. Ákveðnir eiginleikar segja til um þetta. Hönnun, gæði, áhrif og mikilvægast af öllu saga. Navitimer neglir alla þessa eiginleika og fer fram úr þeim. Frá fundarherbergjum og alla leið út í geim, þá er saga Breitling Navitimer ein síns kyns.

Fyrstu Navitimer úrin voru gerð árið 1952 og það fyrir samtök flugvéla og flugmanna í Bandaríkjunum, eða AOPA, og skömmu eftir það var það sett á almennan markað. Úrið var frá upphafi hannað fyrir flugmenn og bar það merki þess á skífunni sjálfri þar sem einkennismerki AOPA samtakanna tók stað Breitling merkisins á þeim módelum sem gerð voru fyrir samtökin.

Rætur hönnunar úrsins má samt rekja enn fyrr, til ársins 1938, rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina þegar Breitling stofnar deild hjá sér sem kallast Huit Aviation Department, sem sérhæfði sig í skeiðklukkum fyrir flugvélar og allra helst herflugvélar. Einnig til ársins 1940, því í upphafi stríðsins gefur Breitling út fyrsta Chronomat úrið sitt, sem er gjörólíkt núverandi Chronomat og líkist frekar gömlu Navitimer úrunum. Með þessum Chronomat kom nýjung í úra- og flug heiminum sem kallast „slide ruler“, eða reiknistokkur, sem er ákveðin flug reiknivél. Dæmi um þennan reiknistokk sést á myndinni hér að ofan í ysta kanti skífunnar og notast með því að snúa glerhringnum. Eins og nafnið gefur til kynna var þetta notað við útreikninga á öllum þeim upplýsingum sem flugmaður gæti þurft að reikna. Því hentaði nafnið Chronomat einstaklega vel, þar sem nafnið er stytting á heitinu „Chronographe-Mathematique“ eða á ensku „Chronograph for Mathematicians“.

Flugvélar voru ekki eina áhersla Breitling á þessum tíma þar sem kalda stríðið var á fullri ferð og með því, geimkapphlaupið. Árið 1962 var sérgerður Navitimer sem bar nafnið Cosmonaute, rússneska heitið yfir geimfara, sem varð fyrsta svissneska úrið úti í geim og var það á hönd Scott Carpenter. Úrið hélt sama stíl og öll Navitimer úrin á þessum tíma fyrir utan einn stóran þátt, skífan sýndi 24 klukkustundir í staðinn fyrir 12, þannig að klukkustunda vísirinn tekur 24 klukkustundir að fara heilan hring. Þeir endurgáfu þetta úr út í tveimur útgáfum árið 2022, annað var í sama stíl og það upprunalega, en hitt kom í rósagulli með fallegri grænni skífu. Ólíkt upprunalega úrinu og því sem hélt upprunalegri hönnun, þá er það græna sjálftrekkt.

Upprunalega Cosmonaute úrið var handtrekkt, eins og allar skeiðklukkur á þessum tíma og var sjálftrekkta skeiðklukkan ennþá draumur, en sá draumur varð að veruleika þökk sé Breitling, Heuer, Hamilton Buren og Dubuis-Depraz. Þessir framleiðendur gerðu fyrsta sjálfvindu skeiðklukkuna sem opnaði nýjan heim fyrir úraframleiðendur. Þróunin var einkum mikilvæg fyrir merki líkt og Heuer og Breitling þar sem að Heuer gat notað þetta fyrir tímatökur sínar á kappökstrum og Breitling fyrir tímatöku sína í flugi. Þessi uppfinning leit dagsins ljós árið 1969 og gáfu Heuer þá út fræga Monaco úrið sitt en Breitling setti það í sitt vinsælasta úr, Navitimerinn. Útfærslan fékk heitið Navitimer Chrono-Matic sem merkir einfaldlega Chronograph Automatic.

Á jóladag 1969, sama ár og mikill fögnuður var hjá Breitling og félögum, er upphaf einhvers versta tíma svissneska úraiðnaðarins. Japanski framleiðandinn Seiko gefur út Seiko Astron. fyrsta quartz úrið fyrir hinn almenna neytanda. Quartz verkin voru fljótlegri og ódýrari í framleiðslu en mekanísk úrverk – og nákvæmari. Þessi þróun hóf quartz krísuna á svissneska úramarkaðnum, þar sem fleiri, fleiri framleiðendur fóru undir með hverri vikunni sem leið sem leiddi til mikillar sameiningar framleiðanda. Á þessum tíma mynduðust hópar eins og Swatch Group, sem á í dag t.d. Omega, Tissot, Hamilton og fleiri merki. Breitling var ekki undanskilið þessari krísu og varð Navitimer til dæmis að quartz úri í einni gerð.

Árið 1977 kom þessi áhugaverði Navitimer út. Með starfrænum skjá og í svokölluðum „pítsakassa“, kom einn af lægstu punktum í tíð Willy Breitling sem eiganda og stjórnanda Breitling, þegar ein af hans helstu línum þurfti að taka svona stóra breytingu og svo stórt högg þegar kom að virðuleika úrsins. Aðeins tveimur árum eftir þetta selur Willy Breitling fyrirtækið til Ernest Schneider, sem var mikill ævintýrasinni og mikill úra- og einkum Breitling áhugamaður. Ernest breytti stefnu fyrir tækisins í að búa til úr fyrir fagmenn og sérfræðinga í stað hins almenna neytanda. 1985, eftir að Schneider-fjölskyldan hefur náð að koma Breitling í gegnum quartz krísuna, gefur Breitling út Navitimer í sama stíl og upprunalega úrið.

Navitmerinn sér litla breytingu frá 1985 og alla leið til 2011, þar sem tveimur árum áður gáfu Breitling út fyrsta in-house framleidda- og hannaða verkið sitt í dágóðan tíma Breitling Caliber 01. Þetta verk var fyrst sett í Navitimerinn árið 2011 og er þar enn í dag. Árið 2017 var B Breitling merkið sett á skífuna, sem naut ekki mikilla vinsælda þannig ákveðið var að fara í upprunalega AOPA merkið sem er á skífunni í dag líkt og það var fyrir yfir 70 árum. Úrið hér til hliðar sækir innblástur í Navitimer úr sem frægir einstaklingar í öllum greinum höfðu átt og notað á einum eða öðrum tíma, þar á meðal tónlistarhetjan Miles Davis, og var þetta úr framleitt til heiðurs þeirra.

Árið 2023, í vel heppnaðri tilraun Breitling til að vera fyrir alla, gáfu þeir út Navitimer í 36 millimetrum með sjálftrekktu gangverki og í 32 millimetrum með Superquartz gangverki, sem er hitastýrt quartz verk sem gengur nákvæmt upp að 0,2 sekúndum á dag. Þessi nýju úr komu bæði á keðjum og á krókódílaleðurólum, flest með perlumóður skífu og mörg með demöntum.

Lokaorð

Navitimer er allt frá því að vera nauðsynlegur safngripur fyrir úraáhugafólk yfir í það að vera fullkomið úr fyrir hinn almenna neytanda. Með yfir 70 ára sögu og tímalausa hönnun, heldur Navitimerinn sínum stað sem eitt af auðþekkjanlegustu úrunum í öllum úrabransanum. Í verslun okkar á Hafnartorgi getur þú fundið Navitimer í öllum stærðum og gerðum, frá nýtískulega Navitimernum í 32 millimetrum með perlumóður skífu og demöntum yfir í klassíska úrið fyrir flugmanninn í 46 millimetrum þá bjóðum við ykkur velkomin að skoða þau í verslun okkar, Michelsen 1909.