Fjölskyldufyrirtæki síðan 1909.

Heimsent samdægurs ef þú pantar fyrir kl 12.

Watches & Wonders 2022: Mín uppáhalds úr

NÝ SÝNING

Watches & Wonders er ekki beint ný af nálinni, en áður var hún sýning fyrir merki undir Richemont samsteypunni (Cartier, Montblanc, IWC, o.fl.) undir öðru nafni. Eftir að Baselworld sýningin hætti bættust Rolex, Patek Philippe, TAG Heuer og fleiri risar við W&W og þetta var í fyrsta sinn sem Michelsen fer á þessa sýningu.

Ég skal hætta að blaðra, ég veit að þú ert hér til að lesa um úr og nýjungar en þetta ár var mjög, mjög sterkt hjá okkar merkjum.

ROLEX

Eins og áður var mesta eftirvæntingin eftir Rolex nýjungunum. Hvað skyldu þau gera núna? Þú getur spáð og spekúlerað, en það veit enginn fyrr en á fyrsta degi sýningarinnar hvað Rolex gerir.

GMT-Master II

Án efa eitt óvæntasta úr síðustu ára fyrir mér, punktur. Rolex er mjög varfærið fyrirtæki og kemur ekki oft með stórar eða miklar breytingar. GMT-Master II í nýrri litasamsetningu hefði eitt og sér verið mjög Rolex-legt, en að færa krónuna og dagsetningu hinu megin á kassann og skífuna eru stórkostlegar breytingar sem við erum ekki vön að sjá frá risanum í Genf.

Air-King

Air-King hefur verið eitt af mínum uppáhalds Rolex úrum frá því það var kynnt og ég ætti sennilega þannig ef það væri með dagsetningu. Af einhverri ástæðu hefur það þó aldrei náð sömu hæðum og önnu Professional módel frá Rolex, en þessar uppfærslur á úrinu færa það nær restinni af Professional línunni með „crown guards“, uppfærðum kassa og skífu – að ógleymdu nýrri kynslóð úrverks. Air-King er eina Rolex úrið með Rolex logoinu eins og það er, gyllt kóróna og grænt letur. Frábærar, og talsvert miklar, breytingar á óhefðbundnu Rolex úri.

Datejust 31

31mm útgáfan af klassískasta úri allra tíma. Ef fólk þekkir eina týpu af úri, þá er það Datejust. Rolex bætir hér við nýrri skífu í þremur litum; grænni, blárri og silfur. 24 blóm skreyta skífuna og í miðju hvers blóms er demantur. Virkilega fallegar og kvenlegar skífur.

TUDOR

Tudor er merki sem hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu tíu árum og farið úr því að vera „litli bróðir Rolex“ yfir í að fagna velgegni vegna fallegrar hönnunar og framúrskarandi gæða. Að því sögðu, þá er Tudor og verður alltaf tengt Rolex, enda í eigu þess. Það skemmir ekki fyrir að hafa aðgang að allri þeirri tækni og þróun sem Rolex býr að.

Black Bay Pro

Black Bay línan, sem er stærsta og vinsælasta lína Tudor, fær glænýja hönnun sem viðbót. Eða glæný? Úrið sækir greinilega innblástur í Rolex Explorer II, ref. 1655.

Þetta úr er það sem er algjör hápunktur sýningarinnar fyrir mér. Ég er með frekar granna úlnliði og þessi stærð, 39mm, passar mér rosalega vel. Hönnunin er geggjuð, rosalega vintage og skilar sér í mjög skemmtilegu úri.

Black Bay GMT S&G

Enn ein frábæra viðbótin við Black Bay línuna. Black Bay GMT fær nýja litasamsetningu, nú í stáli og 18kt gulli með brúnum og svörtum glerhring (e. bezel). Greinilega nútíma útgáfa af Rolex „Root Beer“ en það fer ekki á milli mála að hér er um að ræða Tudor úr. 41mm og er ofarlega á lista hjá mér.

TAG Heuer

TAG Heuer er vel kunnugt Íslendingum og fá merki betur þekkt meðal okkar. Ástæðan er góð, TAG er eitt fremsta merki heims og með áberandi falleg úr. Sýningin var mjög sterk hjá þeim, flottar nýjungar en þess má geta að TAG kynnti fyrr á árinu Aquaracer Professional 200 úrin sem teljast ekki sem nýjungar af þessari sýningu.

Aquaracer Professional 1000 Superdiver

Vinsælasta TAG Heuer línan á Íslandi, kafaralínan Aquaracer, fær heldur betur myndarlega viðbót: djúpköfunarúr vatnshelt niður á 1.000M dýpi. TAG Heuer hafa smám saman verið að nútímavæða og yfirfara línurnar sínar síðustu misserin og stíga aðeins á bensínið. Núna gáfu þau heldur betur í og sýna hvers þau eru megnug. Úrið er temmilega stórt, 45mm, en þú finnur ekki mikið fyrir því á úlnlið þar sem það er úr títaníum.

Aquaracer Professional 200 Solargraph

Nýjasta lína TAG fær viðbót, knúið áfram af ljósi. Undir skífunni er tækni, sérstaklega þróuð fyrir TAG Heuer, en eftir tvær mínútur í birtu gengur úrið í 24 klukkustundir og fullhlaðið gengur það í sex mánuði, án þess að fá neina birtu. Fyrir utan tæknina er úrið líklega fáránlega töff, með Super-LumiNova blandað saman við trefja glerhringinn, sem lýsir í myrkri.

Longines

Ekki jafn þekkt merki og þau sem nefnd eru hér að ofan, en samt með fimm stærstu úraframleiðenda Sviss, sem er ekkert smá afrek. Markmið Longines er að bjóða gríðarleg virði fyrir peninginn og nýjungarnar í ár undirstrika það markmið. Tæknilega séð var Longines ekki þátttakandi á sýningunni, en okkur var boðið í flaggskipsbúðina þeirra og okkur sýndar nýjungar.

Longines Spirit Zulu Time

„Flugmannalínan“ Spirit var kynnt árið 2020 og núna fær hún viðbót sem er, að mínu mati, stærri og mikilvægari fyrir línuna en upphaflegu úrin. Flugmannaúr með „true GMT“ og 24 stunda skala á keramik glerhringnum (e. bezel). Sannarlega stórkostleg úr á verulega sanngjörnum verðum.

The Longines Elegant Collection

Það virðist svo einfalt, en er samt svo flókið, að gera virkilega fallegt sparilegt úr. Það er endalaust af úrum sem reyna að skara framúr í þessum flokki, en Longines bætir hér við nýrri týpu í línuna, sem slær öllum hinum út. Ný einföld skífa, með rómverskum stöfum, og lítill sekúnduvísir hjá kl 6 gerir þetta úr að algjörri neglu.

Skildu eftir svar