Ókeypis heimsending.

Mín topp 5 dömuúr

Smá villandi fyrirsögn, ég geri mér fulla grein fyrir því þar sem í dag eru engin úr herraúr og engin úr dömuúr, svokölluð herraúr hafa farið minnkandi og dömuúrin stækkandi, þannig þetta hefur allt mæst í miðjunni. Það sem gerir þessa grein einnig svolítið sérkennilega er að karlmaður skrifi hana. Þessi grein er því líkt og allar greinar mínar sem innihalda lista, mín skoðun. Dömuúr eiga sér lengri sögu en herraúr, sem armbandsúr a.m.k. þar sem konur hafa notað lítil armbandsúr, eða sem skart um hálsinn.

Fyrsta armbandsúrið er til að mynda gert fyrir konu. Árið 1810 er Abraham-Luis Breguet beðinn um að gera armbandsúr fyrir Caroline Murat, drottningu Napolí. Caroline þessi er systir Napóleons Bónaparte, en saman voru þau einhverjir stærstu og mikilvægustu viðskiptavinir A.L. Breguet. Fyrsta úrið fyrir Caroline hefur því miður týnst en það stoppaði ekki Breguet frá því að hanna úr sem voru svipuð því og má finna dæmi um þau í núverandi vöruúrvali þeirra.

Þetta er hins vegar ekki eina úrið sem telur sig eiga réttinn á að teljast fyrsta dömuúrið, þar sem Patek Philippe fékk það skráð og staðfest í heimsmetabók Guinness fyrir úr sem þeir gerðu árið 1865 fyrir Koscowicz greifynju í Ungverjalandi. Breguet taldi sig hins vegar hafa það fyrsta og gáfu fram sönnunargögn til Guinness um hvenær þeirra var keypt ásamt vottun á þjónustu árið 1855. Guinnes lagaði þetta hjá sér og heldur Breguet því þeim heiðri að eiga fyrsta dömuúrið. Patek Philippe dóu ekki ráðalausir, þar sem að Breguet úrið hafði af öllum líkindum verið framleitt í Frakklandi gátu Patek Phillipe eignað sér þann titil að eiga fyrsta svissneska dömuúrið.

Tudor Royal

Royal línan er mögulega vanmetnasta vörulína innan Tudor og almennt ein vanmetnasta línan á heimsvísu. Sportlegur elegans eru þau tvö orð sem lýsa þessari línu best. Minnir hönnunartungumál úrsins mjög á hannanir Geralds Genta, sem er þekktastur fyrir að vera hönnuður Audemars Piguet Royal Oak og Patek Phillipe Nautilus. Úrið sem við fjöllum um er 28 millimetra útgáfan og er það því minnsta úrið á þessum lista, Royal línan kemur annars í fjórum stærðum, 34mm, 38mm og 41mm. Allar þessar stærðir henta flestum konum og körlum. Úrið sem um ræðir hefur bláa skífu sem skreytt er einfaldlega fallegum demöntum, og grípur ljósið á virkilega fallegan hátt. Gæði er eitthvað sem Tudor skortir aldrei, og brýtur þetta alls ekki regluna, með sjálftrekktu T201 gangverki sem hefur 38 klukkustunda hleðslu og kemur með 5 ára ábyrgð.

Nomos Metro sage

Ég tek öll tækifæri sem mér bjóðast þegar það kemur að því að skrifa um NOMOS. Þetta úr, líkt og flest önnur úr hjá NOMOS, er einstakt og er erfitt að finna þessa hönnun annars staðar. Úrið sækir innblástur frá Empire State bygginguna í New York, þar sem vísar úrsins eiga að minna á topp hennar, og krónan á að minna á verkfæri sem framleiðendur í Glashütte nota. Úrið er ekki bara stílhreint heldur einnig flæðandi í gæðum. Handtrekkt Alpha verk NOMOS heldur 43 klukkustunda hleðslu og kemur með tveggja ára ábyrgð.

Breitling Super Chronomat Automatic 38

Stærsta úrið á þessum lista kemur í heilum 38 millimetrum, en ef fólki finnst það of stórt þá get ég vottað að það klæðist nær 36 millimetrum. Fyrir eina af samstarfskonum mínum er þetta hið fullkomna úr og hennar persónulega draumaúr. Ég verð að viðurkenna að ég er sammála henni; hvernig liturinn á demöntunum, og keramikið á glerhringnum tónar við skífuna og ólina. Þetta úr er einfaldlega gullfallegt. Líkt og öll úrin í búðinni þá skortir það ekki gæði, 100 metra vatnsþétt með COSC-vottuðu Breitling 17 gangverki, með 38 klukkustunda hleðslu og allt að fjögurra ára ábyrgð.

Longines Conquest

Conquest línan hjá Longines á sér yfir 70 ára sögu, sem fyrsta vörulínan hjá Longines sem ber ákveðið heiti, og var hún stofnuð árið 1954. Longines á sér langa og merka sögu sem verður sögð í annari grein. Conquest línan hefur hlotið mikil lof og verið gífurlega vinsæl í áratugi. Árið 2023 fékk línan yfirhalningu til hins betra: nýr kassi í 34mm og 41mm, ný keðja og nýjar skífur og árið 2024 bætti merkið við 38mm stærð. Athyglin okkar beinist að 34 millimetra útgáfunni, og aðallega bleiku skífunni. Mögulega of djörf fyrir suma en mér finnst hún henta þessari uppfærðu línu Longines fullkomlega, sportlegt en samt klassísk. Ef þig vantar úr til að vera með daglega og við hin fínustu tilefni þá er þetta úr fullkomið. Verklega er það heldur ekkert lamb að leika sér við, með sjálftrekktu L888 gangverki sem heldur 72 klukkustundum af hleðslu. Longines hefur einnig það mikið traust á úrinu að það kemur með fimm ára ábyrgð.

Longines La Grande Classique de Longines

„Glæsileiki er hugarfar“ er slagorð Longines og á það hvergi betur við en í La Grande Classique línu Longines. Nýleg lína í samhengi úraheimsins þar sem hún var fyrst gefin út árið 1992. Úrin einkennast á að vera einstaklega þunn og úrið sem um ræðir er aðeins 4,5 millimetrar á þykkt. Einnig er keðjan auðþekkjanleg þar sem hún gefur frá sér mikinn þokka, auk þess að vera einstaklega þægileg. Úrið er úr stál sem er PVD-húðað með gulli, með perlumóður skífu með demanta-klukkustundamerkjum. Þessi blanda gerir skífunni kleift að grípa ljósið á einstakan hátt og er hún aldrei eins þegar litið er á úrið. Löng leið til að segja að úrið verður fallegra í hvert skipti sem horft er á það. Fyrsta úrið á þessum lista til þess að vera ekki mekanískt og nýtast við quatz-gangverk, sem gerir því kleyft að vera svona einstaklega þunnt og gerir það jafnframt nákvæmara en öll hin úrin á þessum lista.

Því lengra sem heimurinn færist frá þessum hefðbundnu úrum og yfir í tölvuúrin, líkt og Apple Watch, þá gefur það fólki sem vill vera einstakt sérstaklega gott tækifæri til að tjá sig. Einnig er það gott tækifæri til að höfða í hefðir fyrri ára og skara fram úr einfaldleika nútímans í fagurfræði og verkfræði fortíðar.