Ókeypis heimsending.

Mín topp 5 Tudor

Í nærri hundrað ár hefur Tudor staðið fyrir gæðum á aðgengilegu verði. Það var stofnað árið 1926 af Hans Wilsdorf með það markmið að bjóða upp á sambærileg gæði og hitt merkið hans Rolex – bara á aðgengilegra verði. Á þeim tíma nýttu Tudor úrkassa og keðjur frá stóra bróður sínum, en notuðu úrverk frá öðrum framleiðendum.

Því meira sem tíminn líður, því meira sker Tudor sig frá Rolex. Í dag framleiða Tudor sín eigin úrverk ásamt sínum eigin kössum og keðjum. Hönnunarferlið er einnig orðið alfarið í þeirra höndum og höfum við því oft fengið að sjá skemmtilegar hannanir sem merki á borð við Rolex myndu aldrei gera.

Við höfum nú þegar farið yfir mín uppáhalds Breitling og Longines úr og vil ég nú kynna fyrir ykkur mín uppáhalds úr frá Tudor, sem er hægt og bítandi að klífa upp listann yfir mína uppáhalds framleiðendur.

Tudor Black Bay 54

Við byrjum á úri sem er nothæft öllum, konum sem körlum, þar sem Black Bay 54 er fjölhæfasta úr Tudor. Úrið er í smærri kantinum fyrir kafaraúr, sem ég tel persónulega að vinni því í hag, þar sem 37mm stærðin kemur vel út sem smærra sportúr á karlmenn og hefðbundin kafarastærð fyrir konur. Úrið kemur einnig með mörgum hönnunareiginleikum sem hafa einkennt Tudor síðastliðinn áratug og í raun áratugi. Úrið minnir á kafaraúr fyrri ára þar sem gull og kremaðir tónar skífunnar gefa úrinu áferð eldra úrs sem minnir á betri tíma.

Þegar það kemur að praktík þá er úrið ekkert lamb að leika sér við: úrið er sjálftrekkt, 200 metra vatnsþétt og hefur eiginleika sem mun koma oftar en einu sinni fram á þessum lista. T-Fit lásinn er minn uppáhalds eiginleiki á sportúrum, en hann er með fínstillingu (e. micro adjustment) sem gerir það að verkum að hægt er að stilla lengd keðjunnar í lásnum á ögurstundu.

Tudor Royal

Ég hef nefnt það áður og ég mun nefna það aftur, ég tel Royal-línu Tudor ekki bara vanmetnustu línu þeirra, heldur í stóra samhenginu eina vanmetnustu línu í bransanum. Það er erfitt að gera áfastar keðjur (integrated bracelet) áhugaverðar, þekktustu úrin í þessum fasa eru úr líkt og Prx hjá Tissot, Royal Oak hjá Audemars Piguet, 222 eða Overseas hjá Vacheron Constantin eða Nautilous og Cubitus hjá Patek Phillipe. Þetta hönnunar tungumál á sport úrum hefur meira að segja náð til Rolex með nýju Land- Dweller úrunum þó það sé byggt á gömlu Oyster quartz úrunum.

Eins og þessi upptalning gaf til kynna þá er mikil samkeppni í þessari sérstöku deild af úrum, Tudor fer hins vegar aðra leið þegar kemur að hönnun úrsins, í staðinn fyrir að spila inn í sportlegu eiginleikana sem þessi úr bjóða upp á þá spila þeir upp fáguðu eiginleika úrana. Þessa staðreynd má best sjá á dömu úrunum í þessari línu þar sem þau eru einstaklega látlaus og glæsileg.

Tudor Black Bay 58

Þegar þetta úr var tilkynnt á Watches and Wonders hátíðinni í Genf fyrr á árinu var ég heldur neikvæður í garð úrsins. Mér fannst þetta furðuleg ákvörðun að fara í rauða skífu og taldi ég markaðinn fyrir svona úr ekki stóran. Ég hrósaði Tudor hins vegar fyrir tvennt þegar úrinu: METAS-vottaða gangverkið þeirra og að leggja áherslu á að koma T-Fit lásnum á úrið.

Síðan úrið hefur komið í búðina hefur það reyndar kennt mér lexíu, aldrei dæma neitt út frá mynd. Þessi rauði tónn er einstakur og fer hann þessu úri fáránlega vel. Það eru forréttindi að fá að líta á þetta úr daglega og sjá liti þess dansa í sólinni. Ef einhver lesandi er efins með litinn þá hvet ég þann aðila að kíkja beint til okkar niður á Hafnartorg til að leyfa úrinu að afsanna allar þær slæmu skoðanir sem viðkomandi hefur í garð úrsins.

Tudor 1926

Ef að það er eitthvað sem Tudor hefur þekkst fyrir frá upphafi, árið 1926, eru það einstök gæði fyrir fáránlega gott verð. 1926-lína Tudor sýnir þessa staðreynd betur en nokkur önnur úr, fyrir þessa upphæð færðu úr sem gæti verið verðlagt tvöfalt hærra og samt verið eitt best verðsetta úr á markaðinum – þar að segja ef önnur Tudor úr eru tekinn út fyrir sviga.

Úrið er í stærri kantinum fyrir formlegt úr og ætti það að því að henta íslenskum karlmönnum einkum vel. Gullið í vísum og klukkustundamerkjum úrsins tónar einstaklega við kremhvíta skífuna. Úrið er COSC-vottað fyrir nákvæmni og fer það fram úr nauðsynlegum mörkum þessara vottunar.

Tudor Black Bay Pro

Það má taka nánast orð fyrir orð það sem ég sagði um Black Bay 58 og segja það sama hér. Aldrei dæma úr út frá mynd, em í þessu tilfelli dæmdi ég það út frá mælingum. Það sem ég meina með því er að úrið er 39mm sem er frábær stærð, og ég tel það vera hina fullkomnu stærð í sportúrum, en vandamálið sneri að þykkt úrsins, sem mælist 14,6mm á þykkt. Þegar ég las þessar tölur um þykkt úrsins þá bjóst ég við hlunk sem er eins og múrsteinn á hendi.

Enn og aftur hafði ég rangt fyrir mér þegar það kom að umfjöllun úrsins. Ég get ekki útskýrt það en nýja hvíta skífa úrsins lætur það virka töluvert þynnra á hendi og klæðist það miklu nær 12mm á þykkt. Talandi um þessa hvítu skífu, þá hafa Tudor á einhver hátt náð að gera hana einstaklega djúpa þrátt fyrir að vera bara ósköp einföld í útliti. Þetta úr var virkilega fljótt að vinna mig yfir á sitt band og situr það nú mjög ofarlega á mínum óskalista.

Þar með lýkur þessum lista þar sem við fórum yfir mín fimm uppáhalds úr frá Tudor, sem fljótt nálgast 100 árin. Gæði Tudor hafa aldrei verið dregin í vafa og er seigla þeirra á síðastliðnum áratug augljóst sönnunargagn til stuðnings þeirri staðhæfingu.

Við hjá Michelsen 1909 bjóðum ykkur hjartanlega velkomin að upplifa Tudor og gæði þeirra í verslun okkar á Hafnartorgi. Einnig minnum við á 12. bréf Stundaglassins sem lítur dagsins ljós næsta föstudag, þar sem verður farið yfir allt það helsta í úrabransanum.