Seiko er eitt sérstakasta merkið í þessum geira. Framleiðandinn er með þeim virtari á heimsvísu, sérstaklega fyrir merki sem á ekki rætur að rekja til höfuðstaðs úra – Sviss. Það eru líka fá merki sem eiga jafn stóran, virkan og tryggan aðdáandahóp og Seiko. Ég ætla ekki að rekja söguna of mikið þar sem við höfum nú þegar gert greinar sem fara yfir sögu og undirmerki Seiko, hvort sem það saga Seiko Astron, saga King Seiko eða saga Seiko.
Í dag ræðum við um eina af þeirra vinsælustu fjölskyldum. Cocktail Time-línan hefur ekki bara verið ein sölubesta vara Seiko síðustu ár heldur einnig markaðarins í heild. Hvað gerir þessi úr svona vinsæl? Er það hönnunin? Er það verðið? Eru það skífurnar? Eða er það uppreisn og barátta gegn svissneska úramarkaðinum sem á í hlut? Þessum spurningum reyni ég að svara hér í grein um Seiko Presage Cocktail Time.
Það sem einkennir þessi úr hvað mest eru úrkassarnir og sérstaklega skífurnar. Kassinn á bæði herraúrunum og dömuúrunum er virkilega stílhreinn og er einfaldleiki hans stór kostur. Skífurnar á þessum úrum er það sem sker þau frá hópnum. Það er nóg af flottum úrum í þessum 50 til 100.000,- kr verðflokki en það er aðeins Seiko sem hefur færnina, reynsluna og metnaðinn til að gera þessar skífur á þessu verði. Hvort sem það er liturinn, áferðin eða mynstrið á þessum skífum þá er erfitt að segja annað en að þær eru með þeim glæsilegri á markaðnum – ekki bara í þessum verðflokki, heldur berjast þær í þyngdarflokki töluvert ofar en þær eru verðlagðar.
Skífurnar eru ekki bara flottar heldur fylgja þær vissu þema. Líkt og Cocktail Time heitið gefur til kynna þá byggja þær allar á þeirri tilfinningu sem kokteilar á bar gefa. Vísarnir og strikin á skífunni eiga meðal annars að minna á stilk kokteilglasa, skífurnar eru síðan eins fjölbreyttar og þær eru fallegar og heita allar eftir ákveðnum kokteilum, hvort sem það er græn skífa sem ber heitið Mojito, eða hvít sem ber heitið Martini, þá draga allar skífurnar innblástur frá kokteilnum sem þær heita eftir.
Úrinn byrja í ca. 70.000,- kr og til þess að halda úrunum á þessu verði hafa Seiko þurft að vera snjallir með hvar þeir spara peninginn og hvar þeir nýta hann. Seiko gerir það m.a. í glerinu, þar sem – ef eitthvað – er hægt að setja út á úrið, þá er það hardlex-glerið sem Seiko notar, í stað safírkristals. Hardlex-glerið er þó langt frá því að vera slæmt gler, Seiko þróaði glerið til þess að vera einfaldari og ódýrari kostur fyrir úrin sín heldur en safírgler.
Hardlex sameinar kosti herts glers (e. mineral crystal) og safírs, þar sem það rispast síður en hefðbundin hert gler og það brotnar síður en safírgler. Ef þessi úr hefðu safír í stað hardlex, væri hægt að bæta um 25.000,- kr ofan á verðin í dag, þetta myndi draga mörg hver yfir 100.000,- kr mörkin sem Seiko reynir að fara ekki yfir, nema þörf er á þegar kemur að Cocktail Time-línunni.
Það sem gerir þau einnig einstök, og þetta er að mínu mati þeirra stærsti kostur, er að þau eru sjálftrekkt. Þau flest nota 4R gangverk Seiko og dömuúrin nota 2R. Þessi gangverk eru ekkert sérstaklega nákvæm, en verðið réttlætir það. Sjálftrekkt úrverk (og mekanísk yfir höfuð) eru miklu flóknari og dýrari en rafhlöðu quartz-verk. Úrverkin frá Seiko eru þekkt fyrir að reynast og endast vel. Viljir þú fá mjög nákvæmt úr er Cocktail Time sennilega ekki línan fyrir þig, það er nóg úrval af rafhlöðuúrum á þessu verðbili en ekki mörg sjálftrekkt. Fyrir mér er stærsti kostur úranna að þau noti sjálftrekkt úrverk.
Úrin ala upp næstu kynslóð af söfnurum til að kunna að meta vinnuna og færnina sem fer smíði og hönnun gangverkanna. Ég nefndi þessi úr í grein minni um hvernig skal byggja upp úrasafn meðal annars út af þessu, þar sem úrin eru fullkominn stökkpallur inn í sundlaugina sem er úrsmíði og úrasöfnun. Úrin eru sígild í hönnun og einföld í notkun og viðhaldi, einnig eru þau á verðbili sem er virkilega aðgengilegt og höfða til nærri allra aldurshópa.
Hér með líkur þessari grein um Seiko Cocktail Time, úrin eru virkilega vinsæl og ég sé vinsældirnar ekki lægja neitt, sérstaklega þar sem þeir eru mjög oft að gefa út nýjar skífur fyrir nýja drykki. Seiko gáfu m.a. út þrjú ný úr með „frosted“ skífum og þau úr má sjá í verslun okkar á Hafnartorgi og í bréfi 8. af Stundaglasinu.
Ég þakka ykkur fyrir lesturinn og vil nefna greinina sem kom í síðustu viku þar sem ég byggði úrasafn. Einnig vil ég minna á að 16. bréf Stundaglassins verður á sínum stað á föstudaginn, ef þið viljið ræða við mig um greinina eða spyrja til um úr þá getið þið sent á mig línu á [email protected]