Ég ræddi það í 19. bréfi Stundaglassins að Longines hefði verið að gefa út tvö ný úr í Spirit línu sinni. Þessi úr eru ekki aðeins nýjar litaútfærslur heldur innihalda þau marga nýja eiginleika. Margar af þessum breytingum eru smáar og virðast ekki skipta miklu máli. Ég var á þeim báti þegar ég fór í Longines-verslunina í Brussel, en ég gekk út úr versluninni sannfærður um það eitt að þetta séu bestu Spirit-úrin til þessa – og hugsanlega í efsta skala yfir þau úr sem Longines hefur á boðstólum.
Úrin eru tvö og gefa góða mynd af hugsanlegri framtíð Spirit-línunar. Annað er sígilt, þriggja vísa flugmannaúr, á meðan hitt er skeiðklukka með „flyback“ eiginleika sem var virkilega nothæft fyrir herflugmenn á sínum tíma. Hönnunarlega séð eru bæði úrin einföld, en ég tel mikla fegurð eiga sér stað í smáatriðum einfaldleikans.
Byrjum þetta á þriggja vísa úrinu, sem ég get sagt að fékk mig á sitt band á sekúndunni sem ég mátaði það. Úrið ber nýtt heiti, sem ég geri ráð fyrir að við munum sjá í auknum mæli héðan í frá: Spirit Pilot. Ef þú sæir myndir af úrinu eða bara í búðarglugga þá gæti verið hægt að kalla mig ruglaðan fyrir allt lofið sem ég gef úrinu hér í þessum pistli, en það er í alvöru svona gott. Margir myndu einnig segjast ekki sjá mikla breytingu á þessu og eldri gerðinni af Spirit úrunum, fyrir utan að það vantar auðþekkjanlegu stjörnurnar á skífuna. Ég viðurkenni að ég er á báðum áttum með hvort ég sakni þeirra eða hvort að þær bæti skífuna.
Munurinn er heldur ekki stór, allavega þegar fljótt er á litið en það er nánast búið að endurnýja hvern einasta part af úrinu. Keðjan er ný, þó hún sé lík eldri keðju. Á eldri keðjunni eru hlekkirnir nokkuð flatir en á nýju eru þeir kúptir, sem gefur keðjunni meiri glans og aðra ásýnd. Talandi um keðjuna, þá má finna nýjan lás með fínstillingu, sem gerir úrið töluvert betra fyrir daglegra notkun. Fínstilling kemur inn en flýtilosunarkerfið, til að taka keðjuna af og setja sjálfur á úrið án verkfæra, fer út.
Gamla úrbakinu hefur verið skipt út fyrir nýtt, hreinna bak án mikilla merkinga. Bakið á nýja úrinu hefur lárétta pússun sem gerir það töluvert hreinna heldur en það gamla þar mikið var í gangi. Úrkassinn sjálfur hefur ekki breyst mikið en hlutföllinn breyttust, kjálkalengdin hefur verið stytt sem gefur úrinu þéttari tón, stærðin er annars afskaplega aðlagandi þar sem 39mm kassinn með þessa styttri kjálka er fullkominn fyrir allt sem dagurinn hefur upp á að bjóða. Sérstaklega þegar 100 metra vatnsþéttnin, með skrúfaðri krónu, er tekin inn í myndina.
En stóra málið er skífan. Þrátt fyrir að virka flöt þegar á mynd, þá er hún töluvert dýpri en maður myndi telja. Skífan er í raun þriggja laga. Á efsta laginu má sjá ysta hring hennar, sem situr örlítið hærra en megin hluti skífunnar. Miðlagið, eða skífan sjálf, tónar ótrúlega vel við rest úrsins. Ég er oft ekki svaka hrifinn þegar ég sé gyllta tóna á skífum en í þessu tilfelli upplífga þeir skífu sem gæti annars orðið ósköp leiðinleg. Stjörnurnar sem hafa verið einkennismerki Spirit-úranna, fram að þessu, eru farnar. Þriðja lagið er svo strikin fyrir sjálflýsandi efnið sem lýsir í myrkri utan með klukkustundamerkjunum. Það situr neðar en restin af skífunni, sem gerir virkilega mikið fyrir dýptina. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá hvað það gerði mikið fyrir úrið.
Þá komum við að skeiðklukkunni og því úri sem hefur fengið meiri athygli af þessum tveimur. Líkt og áður kom fram, þá hefur úrið flyback eiginleika en með honum er hægt er að endurræsa skeiðklukkuna án þess að stöðva hana. Þetta hefur mikil áhrif þegar að kemur að tímatöku á hlutum sem gerast hver á eftir öðrum. Fyrri Spirit úr með flyback hafa öll verið 42mm að stærð og með sjálftrekktu gangverki, nýja úrið er í 39,5mm sem er mun klæðilegri stærð og gangverkið horfir til fortíðar, en það er handtrekkt. Gangverkið er einnig betur skreytt en önnur skeiðklukkuverk frá Longines og gefur opna úrbakið góða sýn í það.
Stærsti munurinn sem ég finn á þessu nýja, miðað við eldri úrin, er þykktin. Handtrekkt verk eru, yfirleitt, þynnri en sjálftrekkt og þykktin hér fer úr 17mm í 13,4mm og munurinn er ótrúlegur. Þrátt fyrir að vera snobbari þegar kemur að formlegum úrum, líkt og sjá má í grein minni um þau, þá myndi ég líklega fyrirgefa það að einhver notaði þetta úr við formlegt tilefni – svo lengi sem úrið væri á leðuról.
Úrkassinn, keðjan og skífan hafa öll fengið sömu uppfærslu og á Spirit Pilot úrinu en ég tel skífuna hér því miður ekki ná sömu dýpt. Þó þær séu byggðar upp eins, er tilfinningin sem ég fékk á því að máta þetta að hún væri smá flöt. Ég held það gæti verið vegna þess að undirskífurnar, til að marka sekúndur og mínútur, sitja á skífunni án þess að gefa nýjan lit til að tóna á móti svörtum lit skífunnar.
Ef litið er yfir heildina þá verður að gefa Longines stórt hrós fyrir þessi nýju úr. Tantan Wang, sem skrifar fyrir vinsæla tímaritið Hodinkee, orðaði þetta hvað best og vitna ég til hans hér. „Þessi tvö nýju úr virðast miðuð að úraáhugamanna samfélaginu, Longines þarf að sjálfsögðu að höfða til stærri neytendamarkaðar með hlutum eins og stærri stærðum og dagsetningar gluggum en hér sést að hægt er að blanda báðu saman með þessari uppfærðu hönnun.“
Takk fyrir lesturinn. Ég vil minna á Stundaglösin sem koma út hálfsmánaðarlega. Líkt og alltaf þakka ég fyrir mig, þar til næst.