Gucci og úr
Það er auðvelt að ráðast að jafn stóru merki og Gucci. Kannski liggur það vel við höggi, sem einn stærsti leikmaðurinn á tískusviðinu, oft með æpandi og ögrandi hönnun sem höfðar ekki til allra.
Það sem færri vita er að Gucci á sér langa sögu í framleiðslu tímamæla. Sagan bliknar í samanburði við 200 ára gömlu svissnesku framleiðendurna, en í ljósi þess að Gucci er tískumerki er sagan merkileg.
Dýfum okkur í þetta
Úrasaga Gucci spannar rúm 70 ár en frá því á 6. áratug síðustu aldar hefur Gucci innleitt tímamæla í hönnun sína, s.s. veski og bréfahnífa. Hér var tíminn aukaatriði, skraut fyrir hlutinn sem honum var skeytt saman við.
Það breyttist árið 1972 þegar Gucci varð eitt fyrsta tískuhúsið til að framleiða eigin úr – með Swiss Made stimplinum. Úrin hafa alltaf verið vönduð og einkennst af nýsköpun og góðu handverki en jafnframt einkennandi og oft ögrandi hönnun Gucci. Þetta hjónaband svissneskra gæða og ítalskrar hönnunar hefur leyft Gucci úrum að blómstra síðustu 50 árin.
Sögulega séð hafa Gucci úrin alltaf verið sett upp með öðrum vönduðum, og oftast svissneskum, framleiðendum, svo sem IWC, Omega, Breitling og TAG Heuer og álit almennings að Gucci eigi heima með þessum merkjum. Það fór að breytast í upphafi aldar þegar fleiri og fleiri tískuframleiðendur framleiddu úr undir eigin nafni. Armani, Boss, Michael Kors, DKNY og fleiri merki eru ekki framleidd í Sviss og þ.a.l. ekki „Swiss Made“ (vottunin er gríðarlega mikilvæg til að meta gæði úra). Fólk fór að bera nöfnin saman án þess að taka tillit til gæða eða verðs og þessi ódýrari úr frá, tjah, sambærilegum í huga fólks, merkjum drógu Gucci niður og Gucci stóðu sig kannski ekki nógu vel í að koma skilaboðunum áleiðis að þau væru meira en bara nafnið á skífunni.
Tími breytinga
Síðustu ár hafa Gucci verið að færa sig upp á skaftið þegar kemur að hönnun úra. Hönnunin hefur farið úr því að vera einkennandi Gucci hönnun yfir í að vera hönnun sem hægt er að bera saman við marga af fremstu úraframleiðendum heims. Því fylgdi tækni sem þurfti að þróa til að henta úrunum. Gucci Grip er prýðis dæmi um þetta.
Í fyrra, árið 2021, sýndu Gucci svo klærnar. Þau komu með sín eigin úrverk og ekki bara eigin úrverk, heldur einnig úrverk með tourbillon. Við erum að tala um tæknileg undur. Frá Gucci! Tískuhús sem þekktast er fyrir töskur hannaði, þróaði og framleiddi tourbillon úrverk. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í hvað það er eða hvað það gerir, en þið verðið að treysta mér þegar ég segi ykkur að það er stórkostlegur árangur fyrir hvaða stóra úraframleiðanda sem er, hvað þá tískuhús þar sem úr er hliðargrein.
Nýjungar 2022 – Gucci Wonderland
Okkur var boðið í Gucci Wonderland á Watches & Wonders sýningunni í Sviss. Þar fengum við að sjá nýjungarnar þeirra í „high watchmaking“ línunni. High watchmaking hefur enga sérstaka skilgreiningu, en almennt er það þegar úrverk er hlaðið flóknum viðbótum, svo sem tourbillon, minute repeater eða álíka flóknum viðbótum.
Gucci sýndi klærnar í fyrra og núna spenntu þau vöðvana fyrir öll sem vildu sjá og sýndu hvað þau eru virkilega fær um; að þau eiga heima með fremstu úraframleiðendum heims. Þemað í ár var töfrandi tívolí. Við höfum ekki nákvæm verð, en úrin eru frá 15 og upp í rúmar 30 milljónir króna.
G-TIMELESS DANCING BEES
Af öllum nýju úrunum í Wonderland línunni, er þetta uppáhaldið mitt. Býflugurnar eru þekkt mótíf hjá tískuhúsinu og eru mikið notaðar í úrum frá þeim. Í þessu úri dansa flugurnar. Kúlulegur undir skífunni gera það að verkum að býflugurnar hreyfast eftir hreyfingum handarinnar. Að auki er skífan gerð úr áströlskum eldópal, með demantaskreyttum flying tourbillon. Hvað dettur þeim ekki í hug þarna hjá Gucci?
GUCCI 25H
Innblásið af arkitektúr nútímans. Gucci 25H undirstrikar skilning tískuhússins á úraheiminum og hvað gengur upp í hönnun á úri.
Þykkt úrsins er 8mm, skeleton úrverki með tourbillon. 8mm er hlægilega þunnt fyrir mekanískt úr, hvað þá sjálftrekkt með tourbillon. Hér erum við að tala um alvöru hönnun á úri og úrverki. Þetta er svo fáránlega tilkomumikið að ég er ekki viss um að þið áttið ykkur á því hvað þetta er magnað afrek.
GRIP SAPPHIRE
Það er ekki óvanalegt að sjá rispufrítt safírgler í úrum, enda öll vandaðari úr með slíkt. Það er þó ekki á allra færi að hanna heilan úrkassa úr safír. Jumping hours úrverk, sem þýðir að klukkustundirnar smella eins og dagsetning (já, það er í alvöru mjög flókið að útfæra það) í staðinn fyrir að líða áfram.
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.