Við hjá Michelsen 1909 vorum að byrja með nýtt merki hjá okkur: Breitling. Breitling er svissneskur úraframleiðandi með gríðarlega langa sögu og fagna þau einmitt 140 árum í ár. Breitling hafa alla tíð verið brautryðjendur og þá einkum á sviði skeiðklukkna, þar sem nútíma skeiðklukkur eiga Breitling mikið að þakka. Það er mikil breidd í hönnun sem fylgir Breitling flotanum, og sést það í þeim úrum sem við höfum tekið inn í verslun okkar á Hafnartorgi.
Áður en við förum í listann. Fyrst: öll úrin eru til í verslun okkar á Hafnartorgi þegar þessi listi er skrifaður (desember 2024). Annað: listinn er ekki í ákveðinni röð, þannig að þetta eru mín uppáhalds úr frá Breitling í engri sérstakri röð. Þá getum við byrjað.
Breitling Chronomat B01 42
Chronomat er sögulegur fyrir Breitling vegna þess að það táknar lok quartz krísunnar fyrir þeim og kemur þeim aftur á rétta braut eftir erfiða tíma. Chronomat var upphaflega hannað fyrir Frecce Tricolori, flugsýningasveit ítalska flughersins, árið 1983. Þetta módel hefur einstaka ísbláa skífu og er á svartri gúmmíól. Úrkassinn er úr stáli og platínu sem gefur úrinu svolítið sérstakan virðuleika, sem önnur alstál Chronomat hafa ekki.
Úrið sýnir skeiðklukku og dagsetningu og nýtist við þekktasta gangverkið í flota Breitling (Breitling Caliber B01) og er þar af leiðandi COSC-vottað uppá nákvæmni, eins og öll önnur Breitling úr. Úrið er 200 metra vatnsþétt og hefur 70 tíma hleðslu. Úrkassinn er í þægilegum 42 millimetrum og er 15.1 millimetrar á þykkt.
Ref: PB0134101C1S2 / Gangverk: Breitling Caliber B01
Breitling Navitimer 32
Navitmer er mest „iconic“ línan frá Breitling og kemur hún í bæði dömu og herra úrum. Navitimer kom fyrst á sjónarssviðið undir stjórn Willy Breitling árið 1952. Eins og margt sem Breitling hefur gert í gegnum tíðina þá var það hannað fyrir flugmenn (en meira um það síðar). Í september árið 2023 gáfu Breitling út Navitimer í fyrsta skipti í 36 millimetrum og 32 millimetrum, en áður voru minnstu Navitimer úrin 41 millimetrar. Þessi nýja útfærsla kom minni og án skeiðklukku.
Þessi fallegi gripur er 32 millimetrar á stál keðju og með ísblárri perlumóðurskífu og ræktuðum demöntum. Úrið nýtist við hitastýrt quartz verk og er COSC-vottað upp á nákvæmni. Hefðbundin quartz úrverk eru nákvæm, að meðaltali, upp á sekúndu á dag. Breitling valdi að fara skrefinu lengra og er eina merkið sem lætur COSC-votta öll quartz verkin sín, með nákvæmni upp á 0,2 sekúndur á dag.
Ref: A77320171C1A1 / Gangverk: Breitling 77
Breitling Superocean Automatic 42
Superocean var fyrsta tilraun Breitling til að temja hafið árið 1957. Þessi hönnun er byggð á úri sem kallað er Superocean Slow-motion frá 1965. Þessi gamla hönnun var sett aftur á markað árið 2022 og síðan þá hefur þetta verið stór partur af úrvali Breitling. Úrið er sérstakt og verður alltaf sérstakt vegna málmsins sem notaður er í úrkassann. Brons er ofboðslega skemmtilegt efni, þar sem með tímanum fær það skemmtilega patínu (yfirborðsáferð) sem er einstök fyrir hvert og eitt úr. Það þýðir í einföldu máli að eftir 5-10 ár gætirðu safnað saman 100 svona eintökum og ekkert af þeim myndi líta eins út.
Úrið kemur í 42 millimetrum í bronsi með grænni gúmmí ól og grænni skífu. Einnig gáfu Breitling út brons úr í 44 millimetrum með brúnni skífu, sem við höfum ekki hjá okkur en alltaf er hægt að sérpanta. Úrið er sjálftrekkt og nýtist við Breitling 17 gangverkið sem hefur 38 tíma hleðslu og er COSC-vottað. Þykktin á úrinu er 12,5 millimetrar og er 300 metra vatnsþétt.
Ref: N17375201L1S1 / Gangverk: Breitling 17
Breitling Classic Avi Chronograph 42 P-51 Mustang
Classic Avi línan hjá Breitling, líkt og svo margt annað hjá þeim, rýnir í söguna en í stað þess að horfa aftur á fyrri úr og hönnun þá sækir hún innblástur frá þekktum herflugvélum. Þetta úr sækir innblástur frá P-51 Mustang herflugvélini sem framleidd og notuð var af Bandaríkjunum á tímum seinni heimsstyrjaldar. Classic Avi línan kom út árið 2023 og innan hennar voru 4 mismunandi vélar fyrir valinu og hafa þær allan sinn einstaka stíl og litasamsetningu.
Úrið er úr 18 karata rósagulli og er úrkassinn 42 millimetrar að stærð. Breitling 23 gangverkið knýr þetta úr áfram og er það COSC-vottað verk með skeiðklukku og 48 tíma hleðslu. Úrkassinn er 14,7 millimetrar á þykkt og er úrið 100 metra vatnsþétt. Þar sem úrið er úr gulli er gott að nefna sjálfbærni-stefnu Breitling, og með því Swiss Better Gold verkefnið: allt gull verður að vera hægt að rekja á ákveðið svæði og í stað þess fyrir að borga bara uppsett verð á gullinu til þeirra sem eiga námuna, þá er nauðsyn að styrkja samfélagið í kringum námuna með betri launum og styrkjum frá þeim framleiðendum sem nota þetta verkefni til uppbyggingar á svæðinu, til dæmis með skólum og aðgengi að hreinu vatni.
Ref: R233801A1B1R1 / Gangverk: Breitling 23
Breitling Chronomat 32
Þá er það dömu útgáfan af Chronomat línunni hjá Breitling. Síðastliðin ár hafa Breitling aukið úrvalið af dömuúrum og fært sig frá því að bjóða aðallega herraúr með „inclusivity“ stefnu þeirra. Til að sýna fram á það þá hafa þeir gefið út Chronomat línu sína í 36 og 32 millimetrum og fyrr á árinu gáfu þeir hana út enn minni, í 28 millimetrum. Líkt og öll Chronomat úr sem hafa stál eða gull keðju kemur þetta með keðju sem ber nafnið „Rouleaux“. Þessi keðja hefur verið á Chronomat úrunum síðan 1983 og er hún einstaklega þægileg og endingargóð.
Úrið er úr stáli og 18 karat rósagulli með perlumóðurskífu og ræktuðum demöntum í glerhringnum. Úrið er aðeins 32 millimetrar að stærð og er einstaklega létt og þunnt, eða aðeins 8,5 millimetrar þökk sé hitastýrða Breitling 77 quartz verkinu sem rætt var um fyrr í þessari grein. Eins og öll gullúr í flota Breitling kemur Swiss Better Gold við sögu og ræktuðu demantarnir sýna samfélagslega ábyrgð, þar sem ekki er stutt við mannréttindarbrot sem oft fylgja demantanámugrefti.
Ref: U77310591A2U1 / Gangverk: Breitling 77
Breitling Top Time B01 Triumph
Að mínu persónulega mati er Top Time skemmtilegasta línan hjá Breitling. Top Time kom fyrst fram á sjónarssviðið árið 1964 og var Breitling með því að grípa yngri markhóp. Á tíma þar sem að götukappakstrar og amerískir kraftabílar réðu ríkjum, þá fóru Breitling að búa til skemmtilegri skeiðklukkuúr fyrir götukappaksturskappann. Árið 2021 endurlífguðu Breitling Top Time fyrir alvöru og gerðu þeir það eins og þeim einum er líkast, í samstarfi við helstu bíla- og mótorhjólahönnuði heims. „Classic car“ línan í Top Time var fædd og innan þess var höfðað til m.a. Shelby Cobra, Ford Thunderbird, Ford Mustang og Chevrolet Corvette. Þessi gripur er partur af mótorhjólasamstarfi þeirra við Triumph og ber með því merki Triumph.
Úrið er úr stáli og er 41 millimetri að stærð og nýtist við sjálftrekkjandi Breitling Caliber B01 gangverk með skeiðklukku sem hefur 70 tíma hleðslu og er COSC-vottað. Skífan er skemmtileg þar sem hún er tvískipt í fallegum grá-bláum lit. Hönnunin á skífunni er einstök á þann hátt að minni skífurnar innan hennar eru ekki hringir heldur hálf kringlóttar, hálf ferkantaðar og kalla Breitling það „squircle“. Einnig er skífan skipt í það sem þeir kalla „zorro“, þríhyrningamynstrið á skífunni sem skiptir henni í fernt.
Ref: AB01764A1C1A1 / Gangverk: Breitling Caliber B01
Breitling Superocean Heritage B20 Automatic 42
Seinni af tveimur kafaralínum Breitling er Superocean Heritage. Hún sækir innblástur í upprunalegu Superocean hönnunina frá 1957 frekar en Slow-motion gerðina frá 1965, líkt og nú verandi Superocean lína gerir. Superocean Heritage fylgir stefnu Breitling að endurgera gömul vinsæl úr og nútímavæða gamla hönnun. Línan var endurgerð árið 2017 og var passað að hafa allt í sama anda og áður.
Úrið er 42 millimetrar og úr stáli með tónum af 18 karata rósagulli í vísum og keramik glerhringnum. Ólin er úr gúmmí og heldur sama stíl og stálútgáfan. Gangverk úrsins er Breitling B20 sem sýnir tíma og dagsetningu. Verkið er COSC-vottað með 70 klukkustunda hleðslu. Kassinn er 14,3 millimetrar á þykkt og 200 metra vatnsþéttur.
Ref: UB2010161C1S1 / Gangverk: Breitling B20
Breitling Avenger B01 Chronograph 44 Night Mission
Þetta er ábyggilega djarfasta úrið á þessum lista. Eitt af fáum núverandi Breitling úrunum sem tekur ekki hönnunina að stórum hluta úr sögunni. Ef þú vilt úr til að takast á við öll helstu ævintýri þá er þetta úrið. Upprunalega hannað fyrir flugmenn til að þola allan þann þrýsting og barsmíðar sem geta gerst uppi í háloftunum. Ein áhugaverðasta hönnunarákvörðunin er af praktískum ástæðum og er jafnframt eitt af því fáa við úrið sem sækir í söguna, í Frecce Tricolori Chronomat frá 1983, og það er „rider tabs“ sem er þar sem glerhringurinn stendur upp úr (hjá kl 12, 3, 6 og 9). Þetta var gert til að verja glerið, því flugmenn sem áttu það til að reka úrið í hliðarnar á vélum sínum í flugi eða þegar flugrýmið var opnað og lokað, myndu slá í þessa „riders“ á glerhringnum að í stað glersins.
Úrið er 44 millimetrar og er úrkassin úr keramiki. Eins og mörg önnur Breitling úr með skeiðklukku þá er Breitling Caliber B01 gangverkið fyrir valinu sem er COSC-vottað og með 70 klukkutíma hleðslu. Keramik úrkassinn er allur svartur og úrið er töluvert léttara heldur en í stáli. Skífan er fallega gul og tónar við eins gula leður & tauól.
Ref: SB0147101I1X1 / Gangverk: Breitling Caliber B01
Breitling Navitimer B01 Chronograph 43
Þekktasta úrið frá Breitling, og örugglega það sögulegasta, er Breitling Navitimer og er það jafnframt eina línan þeirra sem þeir skilgreina sem „icon“. Fyrst framleitt árið 1952 fyrir flugmenn og borið merki AOPA samtakanna á skífu sinni frá upphafi. Úrið er einstakt fyrir það hversu praktísk hönnunin var á sínum tíma fyrir flugmenn, þar sem úrin hefur innbyggðan reiknistokk, sem leyfði flugmönnum að gera alla nauðsynlega útreikninga í flugi með úrinu sem þeir höfðu á hendi. Nú til dags er þessi reiknistokkur ekki í mikilli notkun en hann fullkomnar skífuna og virkar sem flott partí trikk til að sína sérstakan eiginleika á nýja flotta úrinu þínu.
Úrið er 43 millimetrar að stærð með svartri krókódílaleðuról og er úr stáli. Þekktasta úrið verður að hafa þekktasta verkið sem er Breitling Caliber B01, sem líkt og áður hefur komið fram er COSC-vottað með 70 klukkustunda hleðslu, skeiðklukku og dagsetningu. Þar sem úrið er á leðuról þá er vatnsþéttnin ekki það mikilvægasta, enda einungis 30 metrar og er kassinn aðeins 13,6 millimetrar að þykkt. Með þessu úri áttu stóran part af ekki bara sögu Breitling heldur sögu úra, skeiðklukkna og flugvéla.
Ref: AB0138211B1P1 / Gangverk: Breitling Caliber B01
Breitling Premier B01 Chronograph 42
Þrátt fyrir að ég hafi sagt í formála listans að hann væri í engri ákveðinni röð, þá er þetta númer 1 á þessum lista og númer 1 í hjarta mér sem flottasta Breitling úrið í búðinni! Premier-línan var gefin út undir stjórn Willy Breitling árið 1943 og var skýrt merki um breytingu innan Breitling, frá praktík yfir í stíl. Breitling höfðu þetta mottó í huga þegar þeir grófu þessa gullfallegu línu upp árið 2018. Þetta er einfaldlega stílhreinasta lína Breitling og hefur alltaf verið. Nýja útfærslan af þessum úrum er tekin upp frá hönnun frá fimmta áratugnum þegar línan var fyrst gerð við lok seinni heimsstyrjaldar.
Úrið er 42 millimetrar úr stáli og á krókódílaleðuról með rósagull tölustöfum og einstaklega fallegri kremaðri/hvítri skífu. Líkt og svo mörg önnur þá notar úrið Breitling Caliber B01, sem eins og allt hjá Breitling er COSC-vottað. Einnig hefur það 70 klukkustunda hleðslu og sýnir skeiðklukku og dagsetningarglugga. Kassinn er 13,6 millimetrar að þykkt og er úrið 100 metra vatnsþétt. Fyrir úr sem er að fagna yfir 80 ára sögu þar sem þekktasti og virtasti eigandi Breitling var við stjórnvöldin, færðu fallegasta úr í bækling Breitling.
Ref: AB0145211G1P1 / Gangverk: Breitling Caliber B01
Breitling er sögulegur úraframleiðandi og við hjá Michelsen 1909 úrsmiðum hlökkum til að geta sýnt ykkur þá sögu og byrjað nýjan kafla í henni fyrir allt úraáhuga fólk á Íslandi. Þetta er langt frá því að vera öll úr frá Breitling sem við höfum í búðinni, þar sem við höfum yfir 50 mismunandi úr í öllum stærðum og litum fyrir alla. Fyrir hönd Michelsen 1909 þakka ég fyrir mig og býð ykkur öll velkomin í verslun okkar á Hafnartorgi til að skoða nýja og spennandi merkið sem við höfum tekið inn í verslun okkar.
Smelltu hér til að skoða Breitling hjá Michelsen 1909 nánar.