Ókeypis heimsending.

James Bond og úrin hans

Það eru fáar skáldsagnapersónur jafn frægar og James Bond, hvort sem það er úr bókum eða af stóra skjánum. Sögur um þennan spæjara hafa heillað heimsbyggðina og rakað inn milljörðum bandaríkjadala í tekjum. Sögur um skrif bókana eru margar og áhugaverðar, þónokkrar þeirra um höfundinn, Sir Ian Fleming. Ein af þessum sögum segir að Sir Christopher Lee, leikari sem lék m.a. í Lord of the Rings þríleiknum og Star Wars, hafi verið spæjari í seinni heimsstyrjöldinni. Ekki bara hafi hann verið leikari og spæjari, heldur var hann einnig frændi Fleming og sagt er að hann hafi veitt honum innblástur til að skrifa sögunar um James Bond. Það má því segja að Sir Christopher Lee sé hinn eini sanni James Bond.

Í heildina hafa verið skrifaðar 39 bækur um Bond og eru aðeins 14 þeirra skrifaðar af Sir Ian Fleming. Alls hafa verið gerðar 25 Bond-myndir frá árinu 1962 og hafa sex leikarar tekið upp þá áskorun að leika James Bond. Þar sem myndirnar eru margar og Bond notar oft fleiri en eitt úr í hverri mynd verður farið yfir hvert úr í hverri mynd snögglega, þó að sögulegt mikilvægi þeirra verði að sjálfsögðu útskýrt þegar á við.

Sir Ian Fleming var þekktur fyrir að nota Rolex Explorer, ref 1016. Þó að það hafi aldrei verið staðfest þá lýsir hann úri spæjarans þannig í bókinni að talið er að hann hafi verið að skrifa um sitt persónulega Rolex. Hann lýsti ekki bara úri Bonds heldur var hann glaður til að lýsa úrum og nefna hvaða úr það voru sem þeir notuðu. Í Moonraker bókinni t.d. notar óvinur Bonds, Hugo Drax, gull Patek Phillipe.

Dr. No (1962)

Þegar rætt er um Bond þá er eitt nafn sem alltaf er tengt við hann. Sean Connery fékk þann heiður að leika hann fyrstur og margir telja hann fara með hlutverkið best af öllum. Skoski leikarinn notar Rolex Submeriner, ref 6358. Margir telja þetta hið eina sanna úr James Bond og er líklega þekktasta úr spæjarans. Í myndunum sem fylgdu, From Russia with Love og Goldfinger, heldur Bond tryggð við Rolex Submariner. Áhugavert er að benda á að í Goldfinger notar Pussy Galore Rolex GMT-Master, ref 6542.

Thunderball (1965)

Fyrsta breyting á listanum kemur með myndinni Thunderball. Bond notar ennþá auðþekkta Submarinerinn til að mæla tímann en hann notar einnig fyrsta úrið sem er meira en bara venjulegur tímamælir. Tæknigúrúinn Q lætur hann fá Geiger-nema, mælitæki fyrir geislavirkni, í formi Breitling Top Time, sem sem hjálpar Bond að finna kjarnorkusprengju.

You Only Live Twice (1967)

Þegar Bond mætir erkióvini sínum, Blofeld, notar hann annað, hefðbundið úr. Í stað Rolex er talið að hann noti gull Gruen Precision, sem aftur er talið vera úr einkasafni Sean Connery.

On her Majesty’s Secret Service (1969)

Fyrsta leikarabreytingin sér ástralska leikarann George Lazenby taka hans einu mynd sem Bond. Í myndinni notar James Bond Rolex en í þetta skipti er það ekki Submariner heldur Chronograph, ref 6238.

Diamonds Are Forever (1971)

Skoski leikarinn Sean Connory snýr aftur sem Bond í Diamonds Are Forever eftir stutta viðveru George Lazenby. Myndin er ekki þekkt fyrir úrin sem notuð eru, og er Bond ekki með úr á sér stóran hluta af henni. Það sést samt smá í úr sem margir telja vera sama Gruen úr og í You Only Live Twice.

Live And Let Die (1973)

Fyrsta myndin með Roger Moore í aðalhlutverki og kemur hann með nýjan tón í seríuna. Myndirnar fara að vaða meira út í grínið og verða minna alvarlegar. Úrin fylgja því, þar sem þetta er fyrsta myndin þar sem við fáum að sjá alvöru eiginleika í úrum sem allir myndu vilja hafa. Með Rolex Submariner, ref 5513, að vopni þar sem er búið að bæta við það hringsög, segul sem getur varið Bond frá byssukúlum og það er notað til að afklæða konu. Það er þó ekki eina úrið sem Bond notar í þessari mynd, því hann notar í fyrsta skipti quartz-úr, Hamilton LED Pulsar tölvuúr, sem er eitt af úrunum sem flýtir fyrir quartz-byltingunni fyrir sum merki og quartz-krísunni fyrir önnur.

The Man With The Golden Gun (1974)

Hér notar Moore aftur sérútbúna Submarinerinn. Áhugaverð staðreynd um þessa mynd: Sir Christopher Lee, sem líkt og áður kom fram, er talin vera innblástur Ian fleming fyrir James Bond karakternum. Lee leikur hér aðalóvin Bond í þessari mynd, Scaramanga, og hann er ekki með úr af verri gerðinni, þar sem hann notar Piaget

The Spy Who Loved Me (1977)

James Bond notar tvö úr í þessari mynd. Rolex GMT Master sem er notaður til að sýna tímann og Seiko 0674 LC sem er notað sem skilaboðakerfi, þar sem að það er innbyggður prentari í úrinu sem prentar út þær upplýsingar sem Q þarf að koma til Bond.

Moonraker (1979)

Eftir frægð Star Wars sem var í samkeppni í bíó húsum tveimur árum áður, þá heldur James Bond út í geim. Seiko heldur samstarfi sínu við spæjarann áfram þar sem hann notar í þessari mynd Seiko M354 Memory Bank Calander sem er útbúið sprengiefnum sem hann notar til að sprengja sig í gegnum það sem stendur í vegi fyrir þeim.

For Your Eyes Only (1981)

Í fimmtu mynd Roger Moore, eftir að hafa farið út í geim í síðustu mynd, heldur Bond til hafs. Spæjarinn notar tvö Seiko úr í myndinni, Seiko H357 og Seiko 7549-7009.

Octopussy (1983)

Í þessari Bond-mynd notar Bond Seiko TV Watch. Á þessu sama ári kom síðasta Bond mynd Sean Connory út, Never Say Never Again, en hún kemur frá öðrum framleiðanda. Ekki er vitað hvaða úr hann notar í þeirri mynd.

A View To Kill (1985)

Í síðustu mynd Roger Moore notar hann fjögur úr, þrjú Seiko og eitt Rolex. Hann notar Rolex Datejust sem er einkar líkur einu Seiko úrinu sem hann notar einnig í myndinni og skiptir hann meira segja um úrið í sömu senu milli klippa. Seiko úrin sem notuð voru eru Seiko 6923-8080 Quartz, Seiko H558-5000 og Seiko 7A27 7020 Quartz Chronograph.

The Living Daylights (1987)

Við höfum leikaraskipti, Timothy Dalton tekur við af Roger Moore sem Bond. Færir hann sig úr Seiko og yfir í Heuer Professional Night Diver, ref 980.031.

License To Kill (1989)

Rolex Submariner snýr aftur í annari og síðustu mynd Daltons.

Goldeneye (1995)

Pierce Brosnan tekur við sem James Bond í þessari sígildu mynd. Þessi mynd er líka upphaf samstarfs James Bond við Omega, sem hefur haldist til dagsins í dag. Fyrsta Omega úrið sem notað er af James Bond er quartz útgáfa af Omega Seamaster Professional 300M, ref 2541.80. Bond notar sama úr í myndinni Tomorrow Never Dies sem kemur út tveimur árum síðar.

The World Is Not Enough (1999)

Í þessari mynd, þar sem Bond snýr aftur út í geim, breytir Brosnan til. Enn notar hann Omega Seamaster Professional 300M en fer í ref 2561.80. Eins og sést er Bond mjög til í að gjörbreyta um stíl milli mynda. Þetta er að sjálfsögðu kaldhæðni en hann hefur hefur a.m.k. meiri not fyrir þetta úr heldur en hitt, þar sem þetta er með innbyggðum krók og vír sem bjargar honum í myndinni.

Die Another Day (2002)

Fjórða mynd Brosnan sem Bond og fjórða myndin með Omega Seamaster. Eins og ég segi: mjög tilbúinn í breytingar. Þetta er samt eitt best búna úrið hans þar sem það hefur sterkan laser í krónunni sem hjálpar honum í bardaga, og sprengju sem er hlaðin upp með glerhringnum.

Casino Royal (2006)

Nýjasti Bond leikarinn og minn uppáhalds, Daniel Craig tekur við hlutverkinu af Brosnan og er Casino Royal ekki aðeins hans fyrsta mynd í hlutverkinu heldur líka mín uppáhalds í allri seríunni. Omega fer hin svegar ekki fet og aftur notar Bond Omega Seamaster Professional 300M, bara aðra týpu sem er ref 2220.80. Hann breytir samt þegar líður á myndina og fer í Omega Seamaster Planet Ocean 600M, ref 2900.50.91.

Quantum Of Solace (2008)

300 metra vatnsþéttni er víst ekki nóg fyrir Bond, þar sem hann heldur sig við Omega Seamaster Planet Ocean 600M í þessari mynd en í þetta skipti er það ref 2201.50.

Skyfall (2012)

Bond sést með nokkur úr í þriðju mynd Craig og þeir meira að segja breyta til og fara meðal annars í Omega Seamaster Aqua Terra, ref 231.10.39.21.03.001. Bond notar reyndar svolítið einstakt úr í þessari mynd, svo einstakt að úrið var gert sérstaklega fyrir myndina. Úrið er að sjálfsögðu Omega Seamaster Planet Ocean 600M, bara í títaníum. Úrið seldist á uppboði árið 2012 fyrir rúmlega 200.000,- evrur

Spectre (2015)

Í þetta sinn notar Bond Omega Seamaster 300M Spectre útgáfuna. Einnig notar hann Omega Seamaster Aqua Terra 150M, ref 231.10.42.21.03.003.

No Time To Die (2021)

Í nýjustu Bond myndinni og síðustu Bond mynd Daniels Craig notar Bond sérgerðan Omega Seamaster 300M, sem var gerður í samstarfi við Daniel Craig sem gerir úrið einstakt og hefur það verið vinsælt síðan myndin leit dagsins ljós.

Lokaorð

Nærri 70 ára saga, 25 myndir og 39 bækur. Þá höfum við hér öll þekkt úr sem ein þekktasta bóka- og kvikmyndapersóna sögunnar hefur upp á að bjóða. Í heildina eru þetta rúmlega 30 mismunandi úr. Þessi tala mun bara hækka með árunum og fleiri Bond myndum.