Ókeypis heimsending.

Úrin á Óskarnum 2024

Óskarsverðlaunin voru haldin í gær í 96. sinn. Líkt og undanfarin ár er ROLEX stoltur styrktaraðili Bandarísku kvikmyndaakademíunnar og Óskarsverðlaunanna. ROLEX hefur raunar stutt við kvikmyndagerð með ýmsum hætti svo árum skiptir, má þar nefna að James Cameron og Martin Scorsese eru Rolex „Mentors“ sem kenna ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki fagið.

Hér að ofan má sjá gríðarlega fallegt „Græna herbergið“ í 2024 búningnum, sem ROLEX hannar og hýsir. En nóg um það, vindum okkur í úrin sem sáust á úlnliðum í gær.

Roger Federer með Rolex Cosmograph Daytona ‘Le Mans’

Það þurfti ekki að spyrja að því, auðvitað mætti kóngurinn sjálfur, Rolex-sendiherrann, Svisslendingurinn, goðsögnin og einn besti tennisleikari allra tíma, Roger Federer, með heitasta úr ársins 2023 á úlnliðnum.

Ryan Gosling með TAG Heuer Carrera ‘Plasma’

Stærsti leikari ársins 2023, annar karlkyns-helmingur Barbenheimer tvennunnar, Ryan Gosling nýtur góðs af því að vera TAG Heuer sendiherra og fær hér aðgang að afar sérstöku Carrera úri með 4,8 ct af ræktuðum demöntum.

Anya Taylor-Joy með Jaeger LeCoultre 101 Reine

Anya Taylor-Joy er jafn glæsileg og hún er stórkostleg leikkona. Hér með 101 Reine úrið, en þess má til gamans geta að úrverkið Calibre 101, hannað árið 1929, er ennþá minnsta mekaníska úrverk heims og er jafnframt enn í framleiðslu.

Matt Bomer með TAG Heuer Carrera

Matt Bomer er mikill TAG Heuer maður og hefur oft verið spottaður með TAG á handleggnum.

Michelle Yeoh með Richard Mille 07-01

Michelle er grjóthörð úraáhugakona og jafnframt Richard Mille sendiherra. Áætlað verð á þessu úri? Ekki uppgefið á netinu en gera má ráð fyrir svona góðum 40 milljónum króna.

Glen Powell með TAG Heuer Monaco

Top Gun: Maverick leikarinn er hér með Monaco, eitt mest iconic og auðþekkjanlegasta úr allra tíma.

Ke Huy Quan með Cartier Santos-Dumont Skeleton

Ég elska Cartier. Æðislegt merki, það sem kemst næst Rolex í mínum augum. Sjáið bara þennan ótrúlega fallega grip.

Matthew McConaughey in Jacob & Co Jean Bugatti

Jacob & Co er merki sem menn annað hvort elska eða hata. Ég laumuelska merkið (varla laumu lengur?), þó úrin þeirra séu sjaldnast praktískt eru þau ótrúlega skemmtilegt og margt til að dást að. Verðið hér? Aðrar 40 milljónir króna.