Ókeypis heimsending.

LVMH Watch Week 2025

Fyrsti úraviðburður ársins er í boði lúxusrisans LVMH, sem á merki á borð við Luis Vuitton, Tiffany & Co, Hublot, Zenith, Bvlgari, og TAG Heuer. Þessi merki gáfu öll út nýjungar á sviði úra á þessari hátíð og ætlum við að fara yfir allt það nýjasta sem þau bjóða upp á. Einnig komu fram tvö minni merki sem eru hluti af hæstu hæðum úrsmíða, Gérald Genta og Daniel Roth.

TAG Heuer

Tag Heuer gáfu út þó nokkur úr sem dreifðust yfir Formula 1 línu þeirra, að sjálfsögðu í tilefni þess að merkið er aftur orðið aðalsamstarfsaðili Formula 1 kappakstursins, og Carerra, bæði fyrir karla og konur.

Í tilefni samstarfsins gefa TAG Heuer út fimm glæný úr í Formula 1 línu þeirra. Kassinn hefur verið dreginn saman úr 49 millimetrum í 47 millimetra að lengd og er stærðin ennþá 44 millimetrar. Aðrar stærðir eru enn í boði, en nýju úrin fást eingöngu í 44mm. Stærsta þróunin er hins vegar hvað nýju úrin eru létt. Stál keðjan og kassinn eru farin og í stað hans er gúmmíól og Grade 2 títaníum kassi sem tekur úrið niður í létt 110 grömm úr 200 grömmum. Ég á persónulega erfitt með að velja milli þess rauða og ljósbláa og get ekki beðið eftir að sjá þau í persónu.

TAG Heuer voru líka upptekin við að gefa út ný Carerra úr og fengum við átta nýjar týpur frá þeim. Ef við byrjum dömu megin, þá höfum við tvö 36 millimetra stálúr, annað með púður bleikri skífu, hitt með einstökum lúpínu fjólubláum lit og eins og við munum sjá þá er fjólublátt þema hjá TAG Heuer greinilega í gangi. Bæði úrin eru líkt og áður kom fram 36 millimetrar, með stál kassa og demöntum í skífunni sem samtals eru u.þ.b. 0,2 karat.

Förum í unisex Carerra Chronograph ‘Glassbox’ sem þeir gáfu út í sex mismunandi útfærslum. Tvö með demöntum í stað tölustafa og í ystu nöf skífunnar. Annað þeirra er í klassískum dökkbláum lit með krókódílaleðuról í stíl, og hitt með létt bleikri skífu sem öskrar af þokka og hefur úrið leður ól í sama bleika tón. Bæði úrin eru í 39 millimetrum sem gerir þau frábær fyrir alla og er gangverkið ekki af verri kantinum þar sem bæði innihalda sjálftrekkt TH20-00 verk með 80 klukkustunda hleðslu og COSC-vottuðu verki upp á nákvæmni.

Mín uppáhalds útfærsla á Carerra Chronograph ‘Glassbox’, eldri Glassbox úr meðtalin, kom á þessari hátíð. Í klassísku 39 millimetra stærðinni með TH20-00 verkinu höfum við þetta einstaka úr með „smokey“ fjólublárri skífu á svartri kappaksturs leðuról. Það eru fá orð sem geta lýst fegurð skífurnar og bíð ég fullur eftirvæntingar að sjá þetta úr í persónu. TAG Heuer gaf út tvær útfærslur, önnur þessi klassíska sem ég er hrifnari af, og aðra sem er eins nema í 42 millimetrum með tourbillon gangverki  sem er takmarkað við aðeins 200 eintök.

Síðasta viðbótin þeirra kemur í formi Chronosprint undirlínunar í Carerra ‘Glassbox’ línunni. Chronosprint eru gerð í samstarfi við Porsche og hafa þau þann einstaka eiginleika að skeiðklukkan fer ekki 60 sekúndur með eðlilegu sekúndu millibili. Svolítið erfitt að útskýra án þess að sýna það, en í grófum dráttum á eðlilegri skeiðklukku þá er skeiðklukku vísirinn 60 sekúndur að fara heilan og gerir hann það með því að telja á sekúndu bili. Chronosprint skeiðklukkan tekur líka 60 sekúndur að fara fullan hring en sker sig úr með því að spretta í gegnum fyrstu „20 sekúndurnar“ (eða frá 12-4) á aðeins 8,4 sekúndum en hægir síðan á sér eftir það og fer lötur hægt undir lokin til að halda því að fara heilan hring á 60 sekúndum. Eins og ég segi: mjög flókið. Aftur að hönnuninni, kolsvört skífa með rauðum og kremuðum tónum sem sýna sport eiginleika úrsins og svört leður ól í stíl. Kassinn kemur í tveimur útfærslum, í stáli sem er takmarkaður við 911 eintök sem er að sjálfsögðu tengt Porsche 911, og einnig er gull útgáfa gerð í mjög takmörkuðum 11 eintökum.

Hublot

Hublot hefur virst, fyrir mér allavega, sem ágætlega furðulegt merki. Framboð þeirra á þessari sýningu er engin undantekning. Þeir gáfu út 8 mismunandi útfærslur í þremur mismunandi línum.

Hublot Big Bang Tourbillon Automatic Green SAXEM heitir þessi áhugaverði gripur. SAXEM er efnið sem úrkassinn er gerður úr, sem er safír, ál og eðalmálmar og steinar. Úrið er í 44 millimetrum og takmarkað við aðeins 18 eintök. Ef þú ert svo heppinn að fá símtalið og vera boðið að kaupa þennan grip mun hann setja þig aftur um 231.000 dollara án vsk sem eru u.þ.b. 32,5 milljónir íslenskra króna – aftur án vsk.

Næst höfum við þrjú Big Bang Meca-10 úr sem eru í endurhönnuðum kassa og með uppfærðu gangverki. Eins lítill aðdáandi á Hublot og ég er og verð, þar sem þessi úr höfða ekki til mín persónulega hönnunarinnar vegna, þá finnst mér nýja gangverkið svolítið töff. Meca-10 vitnar í gangverkið sem hefur 10 daga hleðslu. 10 dagar, rúmlega ein og hálf vika, 240 klukkustundir, 14.400 mínútur, 864.000 sekúndur, þið skiljið hvert ég er að fara með þetta. Úrin koma í þremur mismunandi efnum: rósagulli, títaníum og kolefnum.

Hublot gaf einnig út fjögur ný Spirit of Big Bang úr og öll eru þau úr keramiki. Í 42 millimetrum og takmörkuð við 200 eintök hvert, þá færðu eitt í dökkgrænu, eitt í ljósbláu og eitt í ljósbrúnu. Fjórða og mest spennandi útfærslan er þessi alsvarta og rósagyllta úr í tilefni árs snáksins í Kína. Það sýnir það með því að hafa snákshöfuð sem sekúndu vísinn á skeiðklukkunni og er kassinn og ólin í snákaskinns mynstri.

Zenith

Zenith er merki sem ég tel að allflest úraáhugafólk hafi drullu gaman af. Zenith fóru í það hugarfar þetta árið að minna sé meira og gáfu út þrjú úr. Tvö úr eru partur af Defy Skyline línunni þeirra og eru þau bæði með alþekkta El Primero gangverkinu þeirra. Bæði koma með svokallaðri skeleton skífu þar sem hægt er að sjá gangverkið í gegnum skífuna. Annað er blátt og hitt er svart og er hægt að fá þau á stálkeðju og gúmíól.

Það þriðja er Zenith Chronomaster Sport Rainbow. Falleg blanda af baguette skornum safírum og demöntum sem glitra bæði á skífunni og í glerhringum. Úrið kemur að sjálfsögðu með El Primero verkinu, og svarta skífan tónar frábærlega við litaflóðið. Minna er meira á ekki alveg við um þessa útgáfu.

L’Epée

Ein furðulegasta og fáránlegasta útgáfa frá nokkru merki á þessari hátíð er þetta úra box frá L’Epée. Boxið er úr glæru akrýlplasti þannig þú getur notið dýrðar úrsins í gegnum boxið. Það er samt ekki það eina sem það hefur upp á að bjóða. Það er mekanismi í því þannig að þegar þú ýtir á hnappinn á neðri hluta framhliðar boxins, þá opnar það boxið sjálfkrafa og þegar boxinu er lokað þá hleður það verkið. Fyrir aðeins 9.900 svissneska franka eða rúmlega 1,5 milljón íslenskar krónur. Ég hata að viðurkenna það en mig langar svolítið, mjög mikið í þetta ópraktíska, tilgangslausa glerbox.

Louis Vuitton

Framleiðandi sem öskrar ekki beint á mann hágæða úraframleiðandi er tísku risinn Louis Vuitton, en hér eru þeir að heilla ómerkilega Íslendinginn sem ég er alveg upp úr skónum, og ganga þeir hér frá borði sem ákveðinn sigurvegari hátíðarinnar. Louis Vuitton gefa út fimm úr sem eru öll algjör snilld. Þrjú þeirra eru hluti af Tambour Taiko Spin Time, og tvö kallast Tambour Convergence. Báðar Tambour línurnar horfa í eldri hannannir Luis Vuitton og eru þessi þrjú Taiko úr einstök.

Louis Vuitton gefur út tvær bláar gerðir, hefðbundna og svo tourbillon útgáfu. Það sem gerir þessi úr einstök er mekanísminn á bak við klukkustundamerkingarnar, þar sem að þær snúast. Þetta hér að neðan, vinstra megin, er einfalda útgáfan af þessum flækindum og úrið hægra megin er heimsklukka (e. world timer) sem hefur svipaða eiginleika, sem snúa skífunni til að sýna tímann og hvort það sé nótt eða dagur á ákveðnum stað á ákveðnum tíma út um allan heim. Orð geta varla lýst hvernig úrið virkar, þannig að ég innilega mæli með að fletta þeim upp á YouTube og njóta listarinnar sem þessi úr eru.

Luis Vuitton Tambour Convergence er önnur abstrakt leið til að sýna þær einföldu upplýsingar hvað klukkan er. Tvær gerðir: önnur í rósagulli og hin í platínu þar sem að úrkassinn en skreyttur með 795 demöntum í sjö mismunandi stærðum, sem gefur þessu úri ótrúlegan tón. Úrið sýnir klukkustund og dagsetningu.

Bvlgari

Merkið sem þekkt er fyrir fallega skartgripi og harla síðri úr, gaf út eitt úr sem margar konur hafa beðið eftir. Uppfærsla á Serpenti línu sinni, sem hefur áður eingöngu verið með rafhlöðu-verki, þá hefur Bvlgari komið þess í stað fyrir sjálftrekktu gangverki.

Gérald Genta

Merki þekkt fyrir sína miklu úrafræði og takmörkuðu framleiðsluna sem því fylgir. Þó þú vitir ekki hver Gérald Genta er, þá veistu nánast bókað hvað hann hefur gert. Gérald Genta er maðurinn á bak við hönnunina á Audemars Piguet Royal Oak og Patek Phillipe Nautilus. Á LVMH Watch Week gaf fyrirtækið sem hann stofnaði og er nefnt eftir honum – þessari goðsögn í úra bransanum, út eitt úr. Gentissima Oursin, gert í verulega takmörkuðu magni, þá er þessi gripur af einstakri fegurð og djarfleika ómótstæðilega fallegur. Appelsínugula skífan umkring af 137 eldópölum sem skapa einstaka fegurð.

Daniel Roth

Annar minni framleiðandi, líkt og Gérald Genta. Daniel Roth horfir í söguna á hönnun sem þeir gerðu á níunda áratug seinustu aldar með Extra Plat Souscription. Takmarkað við 20 eintök þá hefur þetta úr einstakan þokka sem hver sem er nógu heppinn að fá í hendur sér mun aldrei missa ástina til.

Tiffany & Co.

Þekktust fyrir skartgripi sína og einstök gæði og mikla þekkingu á sviði gulls og verðmætra steina, höfum við Tiffany & Co. Orð geta ekki lýst listinni sem hæfileikaríkir hönnuðir og úrsmiðir hafa sett saman þannig ég ætla leyfa úrunum að tala fyrir sig sjálf. Tiffany & Co. gjörið svo vel.

Lokaorð

Fyrsta viðburði ársins er lokið og bíðum við spennt eftir þeim sem eru fram undan. Stærstur af þeim er Watches & Wonders hátíðin í Genf sem er í byrjun apríl. Ef þið viljið fylgjast með öllum nýju úrunum sem þar koma á sjónarsviðið og öllum fréttum þar í kring, þá er tímarit Michelsen eini staðurinn til að vera (og Instagram Michelsen 1909).