Ókeypis heimsending.

Hver á hvað? – seinni hluti

Velkominn í seinni hluta greinar okkar þar sem við förum yfir hver á hvaða úramerki. Í fyrri hlutanum fórum við yfir samspil Rolex og Tudor, Swatch Group og hvernig markaðurinn leiddi til grúppunnar með miklum sameiningum, við fórum yfir eignarhald Partners Group á Breitling auk þess fórum við yfir stærstu tískusamsteypu í bransanum, LVMH, sem meðal annars á TAG Heuer.

Þessir eigendur eru stór hluta af markaðinum, en það vantar inn nokkra stóra stólpa. Í þessum seinni hluta förum við yfir Seiko Group, sjálfstæði NOMOS Glashütte og fleiri merkja og stærst af öllu munum við tala um þriðju stærstu tískusamsteypu í heiminum byggt á markaðsvirði, Richemont.

Seiko

Þegar fólk hugsar um eignarhald Seiko, þá hugsar það væntanlega að Seiko eigi Seiko. Það fólk myndi tæknilega séð hafa rétt fyrri sér þar sem Seiko Group á Seiko. Ef við horfum á úraiðnaðinn á grúppan Seiko, Grand Seiko og Credor, sem er dýrasta merkið í hópnum. Seiko Epson er svo annað, sjálfstætt fyrirtæki sem tilheyrir ekki undir Seiko Group.

Það sem mér finnst hins vegar áhugaverðast í þessu er hvernig deildaskipting innan Seiko Group er en innan hennar eru þrjár deilir. „Emotional value solutions domain“ sem inniheldur úra-, klukku- og Wako-hlutann. Úrin og klukkur útskýra sig sjálf, en Wako er stórverslun í Ginza, Tókýó, þar sem seld eru úr, föt, skartgripir, lífsstílshluti og innbúsmunir. Þessi hluti var 65% af heildartekjum Seiko Group 2024.

Síðan höfum við „Device solutions domains“, áhugaverðan hluti af starfsemi þeirra, þar sem þeir framleiða rafhlöður, rafeindabúnað, nákvæmis mælitæki, prentara og fleira. Þessi hluti var tæp 19% af heildartekjum Seiko Group

Síðast en ekki síst höfum við „System Solution domains“ sem er minnsta deildin af þessum þremur, eða um 16,6% af heildartekjum. Innan hennar höfum við kerfislausnir, tæknilausnir, IoT-lausnir, greiðslulausnir, klukkukerfi og íþróttamælitæki, en Seiko er opinber tímatökuaðili alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Öll merkin í eigu Seiko Group eru Seiko, Grand Seiko og Credor. Auk þess á Seiko Epson Group Orient og Orient Star merkin.

Kering

Gucci er mjög áhugavert merki þegar það kemur að eigendasögu. Sagan er það fáránleg og valdabaráttan innan fjölskyldunnar á sínum tíma, sem endaði m.a. með leigumorði eins og áhorfendur House of Gucci myndarinnar muna kannski, er það mikið rugl að það er efni í mjög langa grein. Þannig að við förum mjög yfirborðskennt yfir hér. Ef þú vilt ekki bíða eftir þeirri grein þá fer hlaðvarpið Acquired vel yfir þetta hér í þætti sínum um LVMH.

Okkar uppáhalds viðskiptajöfur, Bernard Arnault, aðaleigandi LVMH (sjá úramerkin þeirra í fyrri grein), kemur við sögu en níundi áratugur síðustu aldar var mjög erfiður fyrir Gucci. Virði merkisins hafði hrapað þar sem rangar strategískar ákvarðanir höfðu verið teknar og mjög eitrað andrúmsloft ríkti innan höfuðstöðva þeirra. Inn stígur Bernard Arnault og LVMH og frá árinu 1990 fór hann hljóðlátlega að kaupa hluti í Gucci, sem skráð var í kauphöll. Þetta gerði hann hægt og rólega með lágar upphæðir í senn og í gegnum mismunandi fyrirtæki svo hann þyrfti ekki að tilkynna kauphlut sinn í fyrirtækinu. Hæsta sem hann náði voru 34% og var hann mjög nálægt því að eiga nógu stóran atkvæðisrétt til að eignast fyrirtækið.

Svo varð hins vegar ekki, eftir að hann bakkaði út úr viðskiptum sínum á svipaðan hátt og gerðist hjá Hermès. Eigendur Gucci sameinuðust gegn sameiginlegum óvin og fjandsamlegri yfirtöku. Í stað Bernards Arnault og LVMH, tók Kering yfir merkið árið 1999 og tveimur árum seinna seldi Bernard meirihluta eigna sinna í fyrirtækinu eftir að hafa grætt morðfjár á yfirtökutilrauninni.

Öll skartgripamerkin í eigu Kering eru Gucci, Boucheron, Pomellato, DoDo og Qeelin. Kering seldi frá sér Girard-Perregaux og Ulysse Nardin árið 2022 til yfirstjórna merkjanna.

NOMOS Glashütte

Jæja, nú komum við mínum fasta lið: NOMOS Glashütte. NOMOS er undantekningin, því öll merkin hingað til eru hluti af stærri heild – þó það séu bara tvö merki eins og Rolex og Tudor.

NOMOS er hins vegar enn í eigu stofnandans, Roland Schwertner, sem stofnaði fyrirtækið í kjölfar falls Berlínarmúrsins árið 1990. Það gerir jafnframt NOMOS yngsta merkið sem við höfum í búðinni. NOMOS er alveg sjálfstæður framleiðandi, eins og áður segir er enn í eigu stofnandans, sem framleiðir í þokkabót öll sín verk og íhluti þess sjálfur. Það er gríðarlega merkilegt, sérstaklega þegar horft er á verð úranna sem eru, vægast sagt, hagkvæm.

Richemont

Líkt og ég sagði í inngangi þessa greinar þá er Richemont þriðja stærsta tískusamsteypa í heiminum út frá markaðsvirði. Það má samt segja að í raun sé hún næst stærst á þeim lista þar sem þeir sitja á eftir LVMH í fyrsta sæti og Hermès í öðru. Hermès er í raun eitt stakt tískuhús frekar en samsteypa, sem sýnir hversu ótrúlega stórt og verðmætt vörumerkið er.

Richement hefur hægt og bítandi, frá stofnun þess 1988, verið að bæta við sig í stórum úra- og skartgripamerkjum sem byrjaði með Cartier. Svo bættust við Montblanc, Vacheron Constantin, Baume et Mercier, Jaeger-LeCoultre, IWC og fleiri risar í iðnaðinum. Krúnudjásnið er franski skartgriparisinn Cartier, sem er næst stærsta úramerki í heiminum á eftir Rolex og hefur verið síðastliðin fimm ár (þriðja stærst þar á undan í mörg ár). Það besta er svo að Cartier eru samt miklu, miklu stærri í skartgripum en í úrum.

Ef við horfum á fjárhagshliðina fyrir árið 2025 voru sölutekjur Richemont rúmir 21,4 milljarðar EUR, sem er 4% aukning frá fyrra ári. Það er áhugavert að nefna að af tekjunum koma 72% frá skartgripamerkjum þeirra, þá er rætt um Cartier (úr meðtalin), Van Cleef & Arpels, Buccelati og Vhernier (Piaget undanskilið). Af þessum heildartekjum þá eru aðeins 15% frá úramerkjum þeirra (Cartier og Montblanc) undanskilið.

Öll úra- og skartgripamerkin í eigu Richemont eru Cartier, A. Lange & Söhne, Baume et Mercier, Montblanc, Vacheron Constantin, IWC, Jaeger-LeCoultre, Panerai, Piaget, Roger Dubuis, Buccellati, Van Cleef & Arpels og Vhernier.

Önnur sjálfstæð & stök merki

Svo við klárum það helsta, þá eru Patek Philippe og Audemars Piguet, ein stærstu og virtustu úramerki heims eru svo sjálfstæð. AP er enn í eigu fjölskyldu stofnendanna, Jules Louis Audemars (1851–1918) og Edward Auguste Piguet (1853–1919). Patek Philippe er í eigu Stern-fjölskyldunnar, sem keypti fyrirtækið 1932,

Richard Mille er að mestu í eigu stofnendanna, en fyrirtækið var stofnað 2007 og er var í fyrra 7. stærsta úramerki heims. Gjörsamlega galið.

Hermès höfum við aðeins tæklað, en fyrirtækið er að mestu í eigu Hermès-fjölskyldunnar (67%) þó það sé skráð á markað.

Chanel er er í eigu Wertheimer-fjölskyldunnar, en það komst á lista yfir 20 stærstu úramerkin í fyrra. Fjölskyldan er gríðarlega auðug og með dreifða fjárfestingu, en helst ber að nefna að þau hafa fjárfest í 66°Norður.

Chopard hefur verið meðal 20 stærstu úramerkja heims í langt árabil. Það er í eigu Scheufele-fjölskyldunnar, frá 1963. Gera má ráð fyrir að um rúmlega helmingur tekna þeirra komi frá úrum og hinn tæplega helmingurinn frá skartgripum. Töskur, ilmir, gleraugu og annað er svo teljandi í örfáum prósentum.

Hér klárum við seinni hlutan af yfirferð okkar um eignarhald merkja í úraiðnaðinum. Það væri alveg hægt að gera fleiri greinar inn um þetta og þá færum við í hugsanlega minna þekkt eignarhald eða þá fleiri sögur líkt og með Gucci, en það bíður betri tíma. Ég vona og treysti því að þið hafið notið lestrar 18. bréfs Stundaglassins sem kom út í síðustu viku. Við fylgjum sama formi og við höfum gert síðastliðnar vikur og bætum eftir viku við bréfi 19 af Stundaglasinu.

Eins og alltaf takk fyrir samfylgdina, þar til næst.