Það er augljóst að það er góður bisness fyrir úraframleiðendur að tengja sig við akstursíþróttir og hraðann sem þeim fylgir. Eftirsóttasta og þekktasta skeiðklukkuúr (e. chronograph) heims er nefnt eftir kappakstursbraut: Rolex Daytona. Svo er Chopard Mille Miglia, TAG Heuer Carrera, TAG Heuer Monza, TAG Heuer Monaco og auðvitað TAG Heuer Formula 1. Allt sögufrægar keppnir eða brautir. Kappakstur er svo stór hluti af úrabransanum að hér taldi ég bara upp heilar vörulínur, ekki special editions sem eru unnar í samstarfi við lið eða annað. TAG Heuer er með fimm – FIMM – vörulínur sem eru innblásnar af og nefndar eftir kappakstri eða brautum. Longines var opinber tímatökuaðili F1 í 60 ár og vann með Ferrari að tímatökum í F1. Longines sá einnig um tímatökur í Le Mans kappakstrinum í yfir 30 ár, þ.á.m. meðan Ford og Ferrari kepptust um yfirráð í keppninni.
Tímataka í Formula 1
Flest liðanna í Formula 1 eru með úraframleiðanda sem bakhjarl, af liðunum tíu eru einungis tvö sem ekki vinna með úraframleiðanda. Áður en við komum að úrunum skulum við samt skoða keppnina sjálfa, því fyrir einn framleiðanda var ekki nóg að vinna með liði. ROLEX er opinber tímatökuaðili F1 keppninnar og búið að vera síðastliðin 10 ár.
Árið 2013 varð Rolex bakhjarl og opinber tímatökuaðili, en saga Rolex og F1 nær lengra aftur en það. Í 55 ár hafa Rolex og Sir Jackie Stewart, þrefaldur heimsmeistari F1 og einn besti ökuþór allra tíma, unnið saman.
Red Bull Racing & TAG Heuer
TAG Heuer og Red Bull Racing hafa unnið saman frá 2016, með glæsilegum árangri. Max Verstappen, tvöfaldur heimsmeistari, keyrir fyrir Red Bull Racing með TAG Heuer á úlnliðnum. Eins og fram hefur komið er saga TAG Heuer samofin sögu F1, þar sem fjórar vörulínur fyrirtækisins tengjast beinlínis F1. Sömuleiðis er Ayrton Senna „sendiherra“ (er reyndar titlaður goðsögn) TAG Heuer, þar sem enn eru framleidd úr sem bera nafn hans.
Þú færð hjá okkur TAG Heuer Formula 1 úrin, ásamt Red Bull Racing sérútgáfum.
Mercedes & IWC
IWC og Mercedes AMG Petronas hafa unnið saman frá 2013. Ef samstarf Red Bull og TAG Heuer var glæsilegt, er samstarf IWC og Mercedes ótrúlegt. Sex heimsmeistaratitlar á þessu tímabili hjá Lewis Hamilton, sigursælasta ökuþórs allra tíma í F1. Öll sem fylgjast með F1 hafa séð IWC úrin prentuð á hanskana sem ökumenn Mercedes bera. Frábær auglýsing.
Ferrari & Richard Mille
Ferrari. Liðið sem við þekkjum öll. Samheiti yfir Formula 1. Ferrari og Richard Mille er tvenna, búin til á himnum. Þessi tvö „over the top“ merki passa fullkomlega saman. Richard Mille er eitt dýrasta og mest áberandi úramerki heims í efstu lögum samfélagsins, þar sem peningurinn flæðir frjálsar en kalda vatnið hjá mér. Almennt frekar óspennandi samstarf, og Richard Mille óspennandi merki (sorry, not sorry), en samstarfið leiddi til þynnsta mekaníska úrs í heimi. 1,75mm þykkt mekanískt úr? Já, aðdáunarvert. Úrið er samt ljótt.
Aston Martin & Girard Perregaux
Tvö geggjuð merki saman. Þau passa ótrúlega vel saman, því líkindin eru svo mikil. Girard Perregaux er ævaforn úraframleiðandi, ekki stór eða leiðandi aðili á markaðnum en býður samt upp á ótrúleg gæði, nýsköpun og stórkostlega falleg úr. Ég upplifi Aston Martin eins, ótrúlega fallegir og vandaðir bílar, en samt Davíð á móti Golíat.
McLaren & Richard Mille
Það að Richard Mille skuli vera bakhjarl tveggja liða, samtímis, í F1 segir allt sem segja þarf um merkið. Algjörlega óhóflegt merki í öllu sem það gerir. Samstarf RM og McLaren leiddi til léttasta mekaníska skeiðklukkuúrs sem hafði verið framleitt á þeim tíma. Úrið vó minna en 40gr – með ólinni! Aftur, fáránlega aðdáunarvert. Aftur, mjög ljótt úr.
Alfa Romeo & Rebellion
Ég hef bara einhvern veginn ekkert að segja um þetta samstarf. Frá því ég var barn hef ég verið hrifinn af Alfa Romeo bílunum, en um Rebellion hef ég ekkert að segja. 15 ára gamalt merki sem ég hef aldrei pælt neitt í og veit takmarkað um, annað en að þau heilla mig ekki og eru í svipuðum verðflokki og nýr bíll.
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.